Ferill 910. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1964  —  910. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof og lögum um sorgarleyfi (stuðningur við kjarasamninga).

Frá meiri hluta velferðarnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá innviðaráðuneyti, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands og BHM.
    Nefndinni bárust fimm umsagnir auk minnisblaða frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og eru gögnin aðgengileg undir málinu á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020, og lögum um sorgarleyfi, nr. 77/2022, sem fela í sér hækkanir á hámarksgreiðslum.

Umfjöllun nefndarinnar.
Almennt.
    Framlagning frumvarpsins er hluti af þeim aðgerðum sem lagðar voru fram af hálfu ríkisstjórnar Íslands og Sambands íslenskra sveitarfélaga til að greiða fyrir kjarasamningum á vinnumarkaði til næstu fjögurra ára. Gert er ráð fyrir að hámarksgreiðslur samkvæmt lögum um fæðingar- og foreldraorlof hækki úr 600 þús. kr. í 900 þús. kr. í þremur áföngum. Er aðgerðunum ætlað að treysta fjárhagslegt öryggi ungbarnafjölskyldna og stuðla að því að markmið fæðingarorlofskerfisins um samvist barna við foreldra og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs nái fram að ganga.

Breytingartillögur.
Gildistaka og gildissvið.
    Með frumvarpinu er lagt til að framangreindar hækkanir á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði taki til þeirra foreldra barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur eftir 1. apríl 2024. Þá er lagt til að hækkanir á hámarksgreiðslum samkvæmt lögum um sorgarleyfi taki til foreldra í sorgarleyfi vegna barnsmissis, andvanafæðingar eða fósturláts frá og með 1. apríl til og með 31. desember 2024. Með samræmdri hækkun á greiðslum samkvæmt lögum um sorgarleyfi annars vegar og fæðingar- og foreldraorlof hins vegar er komið í veg fyrir að foreldrar sem verða fyrir barnsmissi á þeim tíma sem þeir nýta rétt sinn til fæðingarorlofs verði fyrir tekjufalli við það að fá greiðslur í sorgarleyfi eftir barnsmissi í stað þess að fá áframhaldandi greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.
    Við umfjöllun málsins komu fram sjónarmið um að miða ætti hækkanir á hámarksgreiðslum við þá foreldra sem eiga réttindi til greiðslna eða þiggja greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði 1. apríl 2024. Með því yrði m.a. komið í veg fyrir að foreldrar barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir þá dagsetningu hljóti lægri greiðslur en foreldrar þeirra barna sem fæðast eftir þann dag. Þá komu fram sjónarmið um að hækkanir á hámarksgreiðslum ættu að miða við það tímamark sem þeir kjarasamningar sem frumvarpi þessu er ætlað að styðja við voru undirritaðir. Að öðrum kosti yrðu þeir foreldrar barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir 1. apríl fyrir kjaraskerðingu miðað við aðra sem eru á vinnumarkaði við gildistöku laganna. Auk þess kemur fram í sameiginlegri umsögn BHM og BSRB að samtökin telji eðlilegt að hækkun sú sem frumvarpið kveður á um taki gildi 1. janúar 2024 í stað 1. apríl.
    Í minnisblaði ráðuneytisins, dags. 17. maí 2024, er fjallað um gildandi löggjöf að því er viðkemur hækkunum á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Að minnsta kosti frá árinu 2000 hafi verið miðað við að hækkanir hámarksgreiðslna eigi við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur frá og með tiltekinni dagsetningu. Þannig hafi verið gætt jafnræðis milli foreldra sem eignast börn á sama degi þar sem þeir eigi sama rétt innan kerfisins. Þá segir að verði framangreindar breytingar gerðar á frumvarpinu mætti ætla að foreldrar geti átt rétt á misháum hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði eftir því hvenær þeir kjósa að nýta rétt sinn innan kerfisins. Það foreldri sem nýtir réttinn strax eftir fæðingu, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur gæti þannig fengið lægri greiðslur en það foreldri sem nýtir réttinn seinna. Slík breyting gæti einnig orðið til þess að foreldrar, aðallega feður, fresti því að nýta rétt sinn til fæðingarorlofs í því skyni að fá hærri greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði og að slík ráðstöfun gangi gegn meginmarkmiðum laga um fæðingar- og foreldraorlof þess efnis að tryggja barni samvist við báða foreldra.
    Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið að hluta. Þær hækkanir sem lagðar eru til með frumvarpinu eru mikilvægar til þess að draga úr áhrifum þeirra búsifja sem barnafjölskyldur hafa orðið fyrir vegna verðbólgu og hás vaxtastigs. Þar sem gert er ráð fyrir að hækkanirnar sem lagðar eru til gildi vegna barna sem fæðast 1. apríl 2024 eða síðar felur frumvarpið nú þegar í sér tiltekna afturvirkni. Verður ekki séð að neikvæðir hvatar raungerist verði sú hækkun látin gilda um þá sem eiga rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir þann dag, hið sama á við um þá sem eiga rétt til greiðslna í sorgarleyfi. Meiri hlutinn leggur því til breytingu á orðalagi 1. og 2. gr. frumvarpsins þess efnis að hækkun hámarksgreiðslna í 700.000 kr. gildi um foreldra sem eiga rétt til greiðslna fæðingarorlofs, eftir 1. apríl 2024, vegna barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir 1. janúar 2025. Sama breyting er lögð til vegna foreldra sem eiga rétt til greiðslu sorgarleyfis eftir 1. apríl 2024 vegna barnsmissis, andvanafæðingar eða fósturláts fyrir 1. janúar 2025.

Lögfesting hækkana.
    Almennt hefur verið gert ráð fyrir því að breytingar á hámarksfjárhæðum sem fram koma í fyrrnefndum lögum séu gerðar með birtingu reglugerða en ekki lagabreytingum, sbr. 54. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof og 33. gr. laga um sorgarleyfi. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að ráðherra geri ráð fyrir að breytingar á hámarksgreiðslum úr Fæðingarorlofssjóði um áramótin 2024/2025 og 2025/2026 verði gerðar með reglugerð.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu þess efnis að þær hækkanir sem mælt er fyrir um í greinargerð verði sérstaklega lögfestar. Breytingin er útfærð með þeim hætti að hámarksgreiðslur samkvæmt lögunum hækki og verði 900.000 kr. Þá verði í ákvæðum til bráðabirgða við lögin kveðið á um sérstakt hámark sem gildir frá 1. apríl 2024 til 31. desember 2024 annars vegar og 1. janúar 2025 til og með 31. desember 2025. Þannig verður mánaðarleg hámarksgreiðsla 900.000 kr. fyrir fæðingarorlof vegna barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur frá og með 1. janúar 2026 og fyrir sorgarleyfi vegna barnsmissis, andvanafæðingar eða fósturláts frá og með 1. janúar 2026.

Kostnaðarmat.
    Við umfjöllun um málið bárust nefndinni gögn frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti þar sem koma fram upplýsingar um þann kostnað sem kann að falla á ríkissjóð, annars vegar ef frumvarpið verður samþykkt óbreytt og hins vegar ef breytingar verða gerðar í samræmi við tillögur umsagnaraðila.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að gert er ráð fyrir að breytingar á hámarksgreiðslum þeirra foreldra sem nýta rétt sinn til sorgarleyfis vegna barnsmissis, andvanafæðingar eða fósturláts frá og með 1. apríl 2024 til og með 31. desember 2024 hafi í för með sér óverulegan kostnaðarauka fyrir ríkissjóð, eða um 1,5 millj. kr. miðað við útgjöld á árinu 2023. Þá er áætlað að kostnaður við hækkun á mánaðarlegri greiðslu Fæðingarorlofssjóðs úr 600.000 kr. í 700.000 kr. til foreldra í fæðingarorlofi vegna barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur frá og með 1. apríl 2024 til og með 31. desember 2024 verði um 400 millj. kr.
    Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að verði gerð sú breyting að hækkun hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eigi við um alla foreldra sem nýta rétt sinn innan kerfisins frá og með 1. apríl 2024 sé gert ráð fyrir að kostnaður vegna gildistöku frumvarpsins verði á bilinu 220–540 millj. kr. vegna ársins 2024.
    Vegna þeirrar afturvirkni sem breytingartillögur meiri hlutans fela í sér er lögð til breyting á gildistökuákvæði frumvarpsins til að auka skýrleika.

    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Á undan 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Í stað „600.000 kr.“ í 1. mgr. 24. gr. laganna kemur: 900.000 kr.
     2.      1. gr. orðist svo:
                 Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  a.      (I.)
                     Þrátt fyrir 1. mgr. 24. gr. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi, eftir 1. apríl 2024, aldrei nema hærri fjárhæð en 700.000 kr. vegna barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir 1. janúar 2025.
                  b.      (II.)
                     Þrátt fyrir 1. mgr. 24. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi aldrei nema hærri fjárhæð en 800.000 kr. vegna barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á tímabilinu 1. janúar 2025 til og með 31. desember 2025.
     3.      Á undan 2. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
                 Í stað „600.000 kr.“ í 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: 900.000 kr.
     4.      2. gr. orðist svo:
                 Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  a.      (I.)
                     Þrátt fyrir 1. mgr. 16. gr. skal mánaðarleg greiðsla til foreldris í sorgarleyfi, eftir 1. apríl 2024, aldrei nema hærri fjárhæð en 700.000 kr. vegna barnsmissis, andvanafæðingar eða fósturláts fyrir 1. janúar 2025.
                  b.      (II.)
                     Þrátt fyrir 1. mgr. 16. gr. skal mánaðarleg greiðsla til foreldris í sorgarleyfi aldrei nema hærri fjárhæð en 800.000 kr. vegna barnsmissis, andvanafæðingar eða fósturláts frá og með 1. janúar 2025 til og með 31. desember 2025.
     5.      3. gr. orðist svo:
                 Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda afturvirkt frá 1. apríl 2024.

    Guðbrandur Einarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Alþingi, 20. júní 2024.

Steinunn Þóra Árnadóttir,
form., frsm.
Ásmundur Friðriksson. Bryndís Haraldsdóttir.
Guðmundur Ingi Kristinsson. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir. Líneik Anna Sævarsdóttir.
Óli Björn Kárason.