Ferill 917. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1971  —  917. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um virðisaukaskatt og lögum um kílómetragjald
vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða (erlendir aðilar, kílómetragjald o.fl.).


(Eftir 2. umræðu, 20. júní.)


I. KAFLI

Breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988.

1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 12. gr. laganna:
     a.      Við bætast tveir nýir töluliðir, sem verða 2. og 3. tölul., svohljóðandi:
              2.      Sala á þjónustu til atvinnufyrirtækis sem hvorki hefur heimilisfesti hér á landi né stundar hér atvinnustarfsemi frá fastri starfsstöð. Eftirtalin þjónusta fellur ekki undir ákvæði 1. málsl.:
                      a.      útleiga á fasteign hér á landi þegar leigusali hefur fengið heimild til frjálsrar skráningar á virðisaukaskattsskrá,
                      b.      þjónusta sem varðar fasteignir, þ.m.t. fylgifé þeirra, eða mannvirki hér á landi; þar undir fellur m.a. þjónusta um milligöngu um sölu, leigu og annars konar afnot eða réttindi yfir fasteign eða mannvirki, sem og þjónusta sérfræðinga og annarra sem tengist rekstri, hönnun, byggingu, viðhaldi, endurbótum og niðurrifi,
                      c.      útleiga hótel- og gistiherbergja og útleiga tjaldstæða hér á landi óháð lengd leigutíma, svo og önnur gistiþjónusta hérlendis þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar,
                      d.      aðgangur að vegamannvirkjum,
                      e.      fólksflutningar sem eru inntir af hendi hér á landi,
                      f.      aðgangur að menningar-, lista-, íþrótta-, vísinda-, menntunar- og skemmtiviðburðum og öðrum sambærilegum viðburðum, þ.m.t. mörkuðum, sýningum og ráðstefnum, sem fara fram hér á landi, sem og aðgangur að baðhúsum, baðstöðum, gufubaðsstofum og heilsulindum hér á landi, auk þjónustu sem tengist aðgangi að framangreindum viðburðum og stöðum,
                      g.      þjónusta í tengslum við framreiðslu á veitingum sem innt er af hendi hér á landi,
                      h.      útleiga ökutækja sem afhent eru leigutaka hér á landi,
                      i.      fjarskiptaþjónusta og útvarps- eða sjónvarpsþjónusta sem raunverulega er nýtt hér á landi,
                      j.      þjónusta ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda að því er varðar vöru og þjónustu, þ.m.t. fólksflutninga, sem er nýtt hér á landi.
              3.      Sala á eftirtalinni þjónustu til annarra aðila en atvinnufyrirtækja skv. 2. tölul. sem hafa ekki heimilisfesti, lögheimili, varanlega búsetu eða dveljast ekki að jafnaði hér á landi, enda á raunveruleg nýting þjónustunnar sér stað utan Íslands:
                      a.      þjónustu sem veitt er rafrænt, þ.e. þjónustu sem veitt er á netinu, sjálfvirkt með lágmarksinngripi þar sem notkun upplýsingatækni er nauðsynlegur þáttur í veitingu þjónustunnar,
                      b.      fjarskiptaþjónustu sem felur í sér þjónustu, miðlun, útsendingu eða viðtöku á boðum, orðum, myndum, hljóði eða öðrum upplýsingum í gegnum þráð, útvarp, ljósboð eða annars konar rafsegulkerfi, sem og fjarskiptaþjónustu sem felur einnig í sér þjónustu frá þeim aðilum sem veita aðgang að framangreindri þjónustu auk aðgangs að rafrænum fjarskiptanetum og samtengingu þeirra,
                      c.      útvarps- og sjónvarpsþjónustu, þ.e. þjónustu sem samanstendur af hljóði eða mynd og miðlað er til almennings um samskiptamiðla í rauntíma samkvæmt ákveðinni dagskrá á ritstjórnarlegri ábyrgð viðkomandi fjölmiðils,
                      d.      framsali á höfundarétti, rétti til einkaleyfis, vörumerkis og hönnunar, svo og framsali annarra sambærilegra réttinda,
                      e.      auglýsingaþjónustu,
                      f.      ráðgjafarþjónustu, verkfræðiþjónustu, lögfræðiþjónustu, þjónustu endurskoðenda og annarri sambærilegri sérfræðiþjónustu, sem og gagnavinnslu og upplýsingamiðlun,
                      g.      þjónustu banka, fjármálafyrirtækja og tryggingafélaga, annarri þjónustu en þeirri sem talin er undanþegin virðisaukaskatti skv. 10. tölul. 3. mgr. 2. gr.,
                      h.      atvinnumiðlun,
                      i.      leigu lausafjármuna, þó ekki neins konar flutningatækja,
                      j.      kvöðum og skyldum varðandi atvinnu- eða framleiðslustarfsemi eða hagnýtingu réttinda sem kveðið er á um í þessum tölulið.
                     Þrátt fyrir 1. mgr. þessa töluliðar telst þjónusta sem varðar fasteignir, þ.m.t. fylgifé þeirra, mannvirki eða lausafé hér á landi ávallt skattskyld hér á landi. Hér undir fellur m.a. þjónusta um milligöngu um sölu, leigu og annars konar afnot eða réttindi yfir fasteign, mannvirki eða lausafé, sem og þjónusta sérfræðinga og annarra sem tengist rekstri, hönnun, byggingu, viðhaldi, endurbótum og niðurrifi.
     b.      Á eftir orðinu „grund“ í 4. tölul. kemur: sem verður ekki felld undir 2. og 3. tölul.
     c.      9. og 10. tölul. falla brott.
     d.      Við bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Þjónusta ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda að því leyti sem hún varðar fólksflutninga milli landa. Sama gildir um vöru eða þjónustu sem ferðamaður nýtir utan Íslands.

2. gr.

    Í stað orðanna „2. mgr. 10. tölul.“ í 1. málsl. 3. mgr. 35. gr. laganna kemur: 3. tölul.

3. gr.

    Í stað orðanna „6. tölul.“ í 3. tölul. 1. mgr. 36. gr. laganna kemur: 8. tölul.

4. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða XLVIII í lögunum bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nýti skattaðili sér heimild skv. 1. mgr. ber honum samhliða skilum á virðisaukaskattsskýrslu að tilkynna Skattinum á hverju uppgjörstímabili um að slík sala hafi átt sér stað á því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.

II. KAFLI

Breyting á lögum um kílómetragjald vegna notkunar hreinorku- og tengiltvinnbifreiða, nr. 101/2023.

5. gr.

    Á eftir orðunum „greiðslu kílómetragjalds“ í 3. mgr. 3. gr. laganna kemur: og vanskráningargjalds ásamt dráttarvöxtum og innheimtukostnaði.


6. gr.

    Við 1. mgr. 5. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Þegar ákvarðað kílómetragjald, hvort heldur bráðabirgðagreiðsla eða álagt gjald, er jafnt eða lægra en 100 kr.

7. gr.

    7. gr. laganna orðast svo:
    Innflytjandi bifreiðar, sbr. 4. mgr. 3. gr., sem flytur inn gjaldskylda bifreið skv. 3. tölul. 2. gr. hingað til lands samkvæmt heimild tollyfirvalda skal greiða akstursgjald vegna tímabundinnar notkunar innan lands. Gjaldið skal nema 10.000 kr. vegna bifreiðar sem alfarið er knúin rafmagni eða vetni og 5.000 kr. vegna tengiltvinnbifreiðar.
    Farmflytjanda ber skylda til að innheimta akstursgjald skv. 1. mgr. og standa skil á því í ríkissjóð. Gjalddagi akstursgjalds er 30 dögum eftir komu bifreiðar til landsins og eindagi 14 dögum síðar. Ef farmflytjandi hefur ekki greitt á eindaga skal greiða ríkissjóði dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, af þeirri fjárhæð sem gjaldfallin er frá gjalddaga.
    Ef bifreið er lengur en 30 daga hér á landi í hvert sinn skal innflytjandi greiða kílómetragjald út frá skráningu á stöðu akstursmælis bifreiðar við komu til landsins og við brottför frá landinu. Innflytjandi skal gera upp álagt kílómetragjald við brottför bifreiðar frá landinu. Akstursgjald skv. 1. mgr. sem skilað hefur verið í ríkissjóð vegna bifreiðar skal koma til frádráttar álögðu kílómetragjaldi. Kílómetragjald samkvæmt þessari málsgrein skal þó aldrei ákvarðað lægra en sem nemur akstursgjaldi skv. 1. mgr.
    Hafi skráning á stöðu akstursmælis við komu bifreiðar til landsins ekki farið fram skal innflytjandi greiða fullt akstursgjald skv. 1. mgr. fyrir hvert hafið 30 daga tímabil sem bifreið er á landinu.
    Ríkisskattstjóra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd og tilhögun innheimtu og skráningu þeirra bifreiða sem falla undir þessa grein.


8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „umsjón með“ í 1. mgr. kemur: rafrænni móttöku, varðveislu og miðlun gagna um.
     b.      Á eftir 2. málsl. 3. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Gjaldskyldum aðila er ávallt heimilt að láta skrá stöðu akstursmælis hjá faggiltri skoðunarstofu.
     c.      Orðið „þó“ í 3. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     d.      Í stað orðsins „Samgöngustofa“ í 5. mgr. og 1. málsl. 6. mgr. kemur: ríkisskattstjóri.
     e.      7. mgr. orðast svo:
                  Ríkisskattstjóra er heimilt að skrá stöðu akstursmælis samkvæmt beiðni gjaldskylds aðila vegna skráningarskekkju ef óviðráðanleg atvik eða aðrar gildar ástæður að mati ríkisskattstjóra standa í vegi fyrir skráningu gjaldskylds aðila og faggiltrar skoðunarstofu á stöðu akstursmælis.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      Á eftir orðunum „nýja áætlun“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: samhliða skráningu á stöðu akstursmælis.
     b.      Í stað orðsins „fyrirframgreiðslu“ í 2. málsl. 3. mgr. og 1. málsl. 7. mgr. kemur: bráðabirgðagreiðslu.
     c.      Í stað orðanna „fyrir fram“ í 5. mgr. kemur: bráðabirgðagreiðslu.
     d.      Í stað orðsins „Fyrirframgreiðsla“ í 6. mgr. kemur: Bráðabirgðagreiðsla.
     e.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Ríkisskattstjóra er ávallt heimilt að lækka bráðabirgðagreiðslu hjá gjaldskyldum aðila fyrir álagningu ef í ljós kemur við skoðun ríkisskattstjóra að bráðabirgðagreiðsla hefur augljóslega byggst á röngum forsendum og ákvörðuð bráðabirgðagreiðsla er verulega frábrugðin því sem ætla mætti að rétt væri.
     f.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Áætlun á meðalakstri og bráðabirgðagreiðsla.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:
     a.      Orðin „innheimtumenn ríkissjóðs annast“ í 1. mgr. falla brott.
     b.      Í stað orðsins „fyrirframgreiðslu“ tvívegis í 6. mgr. og í 7. mgr. kemur: bráðabirgðagreiðslu.

11. gr.

    Í stað orðsins „aðila“ í 1. og 2. mgr. 12. gr. laganna kemur: einstaklingi.

12. gr.

    Í stað orðanna „fyrirframgreiðsla“ og „fyrirframgreiðslu“ í 4. mgr. 13. gr., 4. mgr. 15. gr., þrívegis í ákvæði til bráðabirgða II og tvívegis í ákvæði til bráðabirgða V í lögunum kemur, í viðeigandi beygingarmynd: bráðabirgðagreiðsla.

13. gr.

     Á eftir orðunum „og vanskráningargjald“ í 2. mgr. 21. gr. laganna kemur: ásamt dráttarvöxtum og innheimtukostnaði.

14. gr.

    Á eftir 21. gr. laganna kemur ný grein, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi, og breytist röð annarra greina samkvæmt því:

Refsingar.

    Hver sá gjald- eða skilaskyldur aðili sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi skýrir rangt eða villandi frá einhverju því sem máli skiptir um kílómetragjald skal greiða fésekt allt að tífaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem undan var dreginn og aldrei lægri fésekt en nemur tvöfaldri skattfjárhæðinni. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Hafi gjald- eða skilaskyldur aðili af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi vanrækt að skrá stöðu akstursmælis varðar það brot fésektum sem aldrei skulu nema lægri fjárhæð en tvöfaldri skattfjárhæð af þeim skattstofni sem á vantar ef áætlun ríkisskattstjóra reynist of lág við endurreikning skatts. Stórfellt brot gegn ákvæði þessu varðar við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Skýri gjald- eða skilaskyldur aðili rangt eða villandi frá einhverju er varðar kílómetragjald má gera honum sekt þótt upplýsingarnar geti ekki haft áhrif á gjald- eða skilaskyldu hans eða greiðsluskil.
    Hver sá sem af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi lætur skattyfirvöldum í té rangar eða villandi upplýsingar eða gögn varðandi gjald- eða skilaskyldu annarra aðila eða aðstoðar við ranga eða villandi skýrslugjöf til skattyfirvalda skal sæta þeirri refsingu er segir í 1. mgr.
    Tilraun til brota eða hlutdeild í brotum á lögum þessum er refsiverð eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og varðar fésektum allt að hámarki því sem ákveðið er í öðrum ákvæðum þessarar greinar.
    Gera má lögaðila fésekt fyrir brot á lögum þessum óháð því hvort brotið megi rekja til saknæms verknaðar fyrirsvarsmanns eða starfsmanns lögaðilans. Hafi fyrirsvarsmaður hans eða starfsmaður gerst sekur um brot á lögum þessum má auk refsingar sem hann sætir gera lögaðilanum sekt og svipta hann starfsréttindum, enda sé brotið framið til hagsbóta fyrir lögaðilann eða hann notið hagnaðar af brotinu.
    Ríkisskattstjóri leggur á sektir samkvæmt þessari grein.

15. gr.

    Í stað orðanna „fyrir fram“ í 1. málsl. 4. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II í lögunum kemur: bráðabirgðagreiðslu.

16. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

    a. (VI.)
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. skulu eigendur og umráðamenn bifreiða sem falla undir 1. gr. laga um bifreiðagjald, nr. 39/1988, og eru ekki gjaldskyldar samkvæmt lögum þessum skrá stöðu akstursmælis rafrænt við eigendaskipti og breytta skráningu umráðamanns, sbr. 5. og 13. gr.

    b. (VII.)
    Þrátt fyrir ákvæði 2. gr. skulu eigendur og umráðamenn bifreiða sem falla undir 1. gr. laga um bifreiðagjald, nr. 39/1988, og eru ekki gjaldskyldar samkvæmt lögum þessum skrá stöðu akstursmælis rafrænt á tímabilinu 1. október til og með 31. desember 2024, sbr. 8. gr.
    Hafi skráning ekki farið fram innan tímamarka skv. 1. mgr. skal ríkisskattstjóri senda aðila ítrekun um skráningu.
    Ef skráning á stöðu akstursmælis liggur ekki fyrir 20. janúar 2025 skal skráningaraðili láta skrá stöðu akstursmælis hjá faggiltri skoðunarstofu.
    Liggi skráning á stöðu akstursmælis ekki fyrir 31. janúar 2025 skal skráningaraðili greiða vanskráningargjald. Fjárhæð vanskráningargjalds samkvæmt þessu ákvæði skal vera 20.000 kr.
    Vanskráningargjald fellur niður ef aðili lætur skrá stöðu akstursmælis á faggiltri skoðunarstofu innan 20 daga frá álagningu gjaldsins. Fella má niður vanskráningargjald hafi óviðráðanleg atvik staðið í vegi fyrir skráningu á stöðu akstursmælis eða ef gjaldskyldur aðili færir gildar ástæður fyrir því að skráning hafi ekki átt sér stað. Ríkisskattstjóri metur í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.
    Faggilt skoðunarstofa skal senda Samgöngustofu rafrænt upplýsingar um stöðu akstursmælis á álestrardegi.

III. KAFLI

17. gr.

Breyting á lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. tölul. 3. mgr. 14. gr. laganna:
     a.      Í stað „40“ í a-lið kemur: 45.
     b.      Í stað „80“ í b-lið kemur: 90.

18. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.