Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1992, 154. löggjafarþing 689. mál: hollustuhættir og mengunarvarnir (geymsla koldíoxíðs).
Lög nr. 78 1. júlí 2024.

Lög um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998 (geymsla koldíoxíðs).


1. gr.

     1. mgr. 33. gr. a laganna orðast svo:
     Þessi kafli gildir um geymslu koldíoxíðs í jörðu á yfirráðasvæði Íslands, þ.e. á landi, innsævi, í landhelgi, efnahagslögsögu og á landgrunni.

2. gr.

     1. tölul. 33. gr. b laganna orðast svo: Könnunarleyfi og starfsleyfi til geymslu, þ.m.t. um form og efni umsóknar og leyfis, fjárhagslega tryggingu, breytingar á útgefnum leyfum, kröfur vegna aðilaskipta, niðurfellingu leyfis þegar starfsemi er hætt eða forsendur leyfis bresta og málsmeðferð við veitingu leyfis.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. c laganna:
  1. 3. mgr. orðast svo:
  2.      Í þeim tilvikum þegar könnun þarf að fara fram hefur handhafi könnunarleyfis einkarétt til könnunar á hugsanlegum geymslugeymi, auk forgangsréttar til starfsleyfis til geymslu á sama svæði að því tilskildu að könnun á svæðinu sé lokið, að öll skilyrði könnunarleyfis séu uppfyllt og að sótt sé um starfsleyfi til geymslu á gildistíma könnunarleyfis. Sækja skal um könnunarleyfi hjá Umhverfisstofnun.
  3. Í stað orðanna „á meðan könnun stendur yfir“ í 4. mgr. kemur: á gildistíma könnunarleyfis.
  4. 5. mgr. fellur brott.


4. gr.

     33. gr. d laganna orðast svo:
     Koldíoxíðsstraumur skal vera að langmestu leyti úr koldíoxíði. Af þeim sökum má ekki bæta í hann úrgangi eða öðru efni í því skyni að farga úrganginum eða öðru efni. Koldíoxíðsstraumur getur þó innihaldið tilfallandi tengd efni úr uppsprettunni, fönguninni eða niðurdælingarferlinu og snefilefni sem bætt er í hann til að auðvelda vöktun og sannprófun á flæði koldíoxíðs. Styrkur allra tilfallandi og viðbættra efna skal ekki vera svo hár að hann:
  1. hafi skaðleg áhrif á áreiðanleika geymslusvæðis eða tengdra innviða,
  2. stofni umhverfinu eða heilbrigði fólks í hættu,
  3. brjóti í bága við kröfur annarrar viðeigandi löggjafar.

     Rekstraraðili skal sjá til þess að innihald koldíoxíðsstraums sé efnagreint og að fram fari áhættumat sem staðfesti að mengunarstig koldíoxíðsstraums sé í samræmi við kröfur 1. mgr.

5. gr.

     Í stað „33. gr. j“ í 1. mgr. 33. gr. f laganna kemur: 33. gr. k.

6. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 33. gr. g laganna:
  1. 1. tölul. orðast svo: Öll tiltæk gögn benda til þess að koldíoxíð sé fullkomlega og varanlega aflokað.
  2. Við bætist nýr töluliður sem verður 2. tölul., svohljóðandi: Lágmarkstími sem Umhverfisstofnun ákvarðar er liðinn. Sá lágmarkstími skal ekki vera styttri en 20 ár nema unnt sé að sýna fram á að koldíoxíð sé fullkomlega og varanlega aflokað áður en því tímabili lýkur.
  3. Í stað „33. gr. j“ í 2. tölul. kemur: 2. mgr. 33. gr. k.
  4. Orðin „og geymslu“ í 3. tölul. falla brott.


7. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. h laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Aðgangur sem um getur í 1. mgr. skal veittur á gagnsæjan hátt og án mismununar. Aðgangur skal veittur með sanngjörnum hætti án hindrana og hliðsjón skal höfð af:
    1. geymslugetu sem eðlilegt er að sé tiltæk á geymslusvæði,
    2. markmiði íslenskra stjórnvalda samkvæmt alþjóðlegum skuldbindingum um samdrátt í losun koldíoxíðs og reglum um föngun og geymslu koldíoxíðs í jörðu,
    3. nauðsyn þess að synja um aðgang í tilvikum þegar tækniforskriftir eru ósamrýmanlegar og erfitt er að bæta úr,
    4. nauðsyn þess að virða tilhlýðilega rökstuddar og eðlilegar þarfir eiganda eða rekstraraðila geymslusvæðis eða flutningskerfis og hagsmuni allra annarra sem nota geymsluna eða netið eða viðkomandi vinnslu- eða meðhöndlunarbúnað og kunna að verða fyrir áhrifum.

  3. 3. mgr. fellur brott.


8. gr.

     Við 3. mgr. 33. gr. i laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Falli viðkomandi flutningskerfi eða geymslusvæði undir fleiri en eitt ríki í deilumáli sem nær yfir landamæri skulu hlutaðeigandi ríki hafa samráð sín á milli til þess að ákvæðum þessa kafla sé beitt á samræmdan hátt.

9. gr.

     Á eftir 33. gr. i laganna kemur ný grein, 33. gr. j, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi, og breytist greinatala samkvæmt því:
Samstarf yfir landamæri.
     Ef koldíoxíð er flutt yfir landamæri eða ef geymslusvæðin eða geymslusamstæðurnar liggja yfir landamæri skulu lögbær yfirvöld hlutaðeigandi ríkja í sameiningu uppfylla kröfur laga þessara og annarrar viðeigandi löggjafar þeirra ríkja sem í hlut eiga.

10. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. j laganna:
  1. Í stað orðanna „tryggingu fyrir allri starfsemi á geymslusvæði“ í 1. mgr. kemur: fjárhagslega tryggingu fyrir allri starfsemi á geymslusvæði eða jafngildi tryggingar.
  2. 2. mgr. orðast svo:
  3.      Rekstraraðili skal, áður en ábyrgð á geymslusvæði flyst til Umhverfisstofnunar, greiða fyrirsjáanlegan kostnað við vöktun þar til koldíoxíð er fullkomlega og varanlega aflokað. Miða skal við áætlaðan kostnað af vöktun í a.m.k. 30 ár.


11. gr.

     Við 1. mgr. 53. gr. laganna bætist nýr töluliður, 3. tölul., svohljóðandi: Könnunarleyfi, sbr. VI. kafla A.

12. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 21. júní 2024.