Ferill 864. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Prentað upp.

Þingskjal 2034  —  864. mál.
Leiðréttur texti.

2. umræða.


Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyris almannatrygginga.

Frá 2. minni hluta velferðarnefndar.


    Annar minni hluti fagnar endurskoðun á örorkulífeyriskerfinu og styður málið með þeim athugasemdum sem hér greinir, ásamt breytingartillögum sem lagðar hafa verið fram, sbr. framhaldsnefndarálit nefndarinnar um málið. Markmið örorkulífeyriskerfis almannatrygginga er að tryggja rétt fólks með skerta starfsgetu til mannsæmandi framfærslu og tækifæra til þátttöku í samfélaginu til jafns við annað fólk. Við útfærslu kerfisins þarf því að vanda til verka og gæta þess að enginn lendi á milli kerfa eða verði af réttindum sínum vegna kerfisgalla.
    Í sáttmála um ríkisstjórnarsamstarf núverandi ríkisstjórnarflokka er tekið fram að auðvelda skuli þátttöku og endurkomu einstaklinga með skerta starfsgetu á vinnumarkaði þannig að fólk hafi fjárhagslegan hag af atvinnuþátttöku og fái tækifæri á vinnumarkaði án þess að afkomuöryggi þess sé ógnað. 2. minni hluti tekur heils hugar undir þau markmið. Aftur á móti eru nokkur atriði í frumvarpinu sem samrýmast þessum markmiðum ekki fyllilega að mati 2. minni hluta og ástæða er til að vekja athygli á.

Úrræði fyrir fólk með fjölþættan vanda.
    Annar minni hluti harmar hversu hljótt frumvarpið er um stöðu einstaklinga með fjölþættan vanda, þ.e. einstaklinga sem glíma við bæði líkamlegan og/eða andlegan heilsubrest og jafnvel fíknivanda að auki. Mikilvægt er að kerfið taki mið af þörfum notenda en ekki kerfisins og því verða fjölbreytt úrræði að vera fyrir hendi. Samtökin Hugarafl hafa lýst áhyggjum af því að kerfið gæti áfram reynst óþarflega flókið og þungt í vöfum þrátt fyrir breytingarnar sem gerðar eru með frumvarpinu, sem leiði til þess að einstaklingar falli á milli skips og bryggju eða sé vísað á milli mismunandi stofnana og endurhæfingaraðila án þess að finna lausn sem hentar. Bataferli fólks gengur mun betur ef það er á forsendum einstaklingsins sjálfs. Í kerfinu er lítið svigrúm fyrir bakslag, þótt vitað sé að bataferli einstaklinga sé sjaldnast línulegt. Einfaldara og einstaklingsmiðaðra kerfi kemur í veg fyrir að bakslag verði í bataferli einstaklings vegna skorts á stuðningi og eftirfylgni. Telur 2. minni hluti að betur hefði farið á því að vinna frumvarpið betur í samvinnu við samtök og fagaðila sem hafa sérþekkingu á stöðu einstaklinga með fjölþættan vanda.

Framfærsluuppbót.
    Í 17. gr. frumvarpsins er lagt til að fella niður 2. og 4. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, um uppbætur á lífeyri (sérstaka framfærsluuppbót). Í greinargerð með frumvarpinu segir að falli greinin brott þurfi að leita annarra leiða til að bæta framfærslu þeirra sem ekki hafa áunnið sér fullan rétt til lífeyris innan almannatryggingakerfisins vegna stuttrar búsetu hér á landi og tekið er fram að verið sé að skoða ýmsar leiðir til þess í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Ljóst er að falli framfærsluuppbótin niður mun það skerða greiðslur til þeirra einstaklinga sem ekki hafa fullan búseturétt. 2. minni hluti tekur undir með ÖBÍ réttindasamtökum að ótækt sé að fella uppbótina niður áður en framtíðarlausn er fundin og leggur áherslu á að félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hraði vinnu við að leysa úr þessu áður en lögin taka gildi.

Virknistyrkur.
    Í c-lið 23. gr. frumvarpsins er lagt til að svokallaður virknistyrkur falli niður hafni styrkþegi starfi eftir að hafa verið a.m.k. tvo mánuði í atvinnuleit. Í minnisblaði félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins til velferðarnefndar frá 31. maí 2024 segir að styrkþegar hafi ríkara svigrúm en almennir atvinnuleitendur innan atvinnuleysistryggingakerfisins þar sem virknistyrkur sé ekki felldur niður fyrr en í fyrsta lagi eftir tveggja mánaða atvinnuleit og að Vinnumálastofnun hafi mjög ríkar heimildir til að meta aðstæður viðkomandi atvinnuleitanda heildstætt áður en virknistyrkurinn er felldur niður. Umsagnaraðilar, svo sem ÖBÍ réttindasamtök og MS-félag Íslands, viðruðu áhyggjur af þessari auknu áherslu á þátttöku fólks með skerta starfsgetu á vinnumarkaði þar sem hingað til hefur ekki verið um auðugan garð að gresja þegar kemur að hlutastörfum almennt og ekki síst fyrir fólk með skerta starfsgetu. Þá hefur vinnumarkaðurinn ekki virst nægilega opinn fyrir þessu fyrirkomulagi og hvorki ríki né sveitarfélög sýnt frumkvæði hvað það varðar. Hætt er við að einstaklingar lendi þá aftur á milli kerfa falli virknistyrkurinn niður svo fljótt. Líkt og Landssamtökin Þroskahjálp benda á í umsögn sinni þá er fatlað fólk sem ekki hefur tök á að afla sér annarra tekna dæmt til ævilangrar fátæktar og félagslegrar jaðarsetningar. Þó að svigrúmið sé meira en gengur og gerist um almenna atvinnuleitendur þá er staða fatlaðra einstaklinga í leit að hlutastarfi að svo miklu leyti ósambærileg að ástæða er til að veita meira svigrúm. Þá er líka á það bent í umsögn Hugarafls að ef fólk upplifir sig tilneytt til að fara aftur út á vinnumarkað án þess að vera reiðubúið til þess eykur það hættuna á bakslagi í bataferli viðkomandi. Of skammur frestur kann líka að leiða til þess að fólki finnist það vera byrði á samfélaginu frekar en að geta einbeitt sér að bata og lifað með reisn.

    Að framansögðu virtu leggur 2. minni hluti því til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til á þingskjölum 1907 og 1849, sbr. framhaldsnefndarálit velferðarnefndar um málið.

Alþingi, 21. júní 2024.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir.