Ferill 906. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.








Lög



um breytingu á lögum um sjúkraskrár, nr. 55/2009 (umsýsluumboð).


________




1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætast þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
     17.      Umsýsluumboð: Umboð sem felur í sér heimild til takmarkaðs aðgangs að heilbrigðisgáttum fyrir hönd einstaklings, 16 ára og eldri, sem er ófær um að nota rafræn skilríki og/eða rafrænar gáttir.
     18.      Einstaklingur sem er ófær um að veita umsýsluumboð: Sá einstaklingur sem sérfræðilæknir metur ófæran til að veita slíkt umboð vegna vitsmunalegrar, geðrænnar og/eða líkamlegrar skerðingar sem gerir honum ókleift að veita umboð.
     19.      Heilbrigðisgátt: Vefur eða smáforrit sem miðlar upplýsingum í og úr sjúkraskrá til einstaklinga og vistar þær og/eða veitir örugga rafræna heilbrigðisþjónustu eða heilbrigðisupplýsingar í tengslum við réttindi notanda heilbrigðisþjónustu og greiðsluþátttöku hins opinbera.

2. gr.

    Á eftir 14. gr. laganna kemur ný grein, 14. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Skráning, veiting og afturköllun umsýsluumboðs.

    Sérfræðilæknir hefur heimild til að skrá og eftir atvikum veita rafrænt umsýsluumboð til þriðja aðila fyrir hönd einstaklings sem er ófær um að nota rafræn skilríki og/eða rafrænar gáttir eða er ófær um að veita umboðið sjálfur vegna vitsmunalegrar, geðrænnar og/eða líkamlegrar skerðingar. Umsýsluumboðshafar geta ekki verið fleiri en þrír á hverjum tíma.
    Sérfræðilæknir skal meta hvort hægt er að leiða vilja einstaklingsins í ljós áður en umsýsluumboð skv. 1. mgr. er veitt. Nánar skal kveðið á um framkvæmd slíks mats í reglugerð sem ráðherra setur.
    Einstaklingur sem er fær um að veita umboð en er ófær um að nota rafræn skilríki eða rafrænar gáttir getur óskað eftir því við sérfræðilækni að umboð hans verði skráð sem rafrænt umsýsluumboð.
    Sérfræðilækni ber að hafa samráð við einstaklinginn sjálfan og nánustu ættingja eða aðstandendur hans eins og við getur átt og virða ber skoðanir einstaklingsins á vali á umsýsluumboðshafa, geti hann komið vilja sínum á framfæri, með hefðbundnum eða óhefðbundnum tjáskiptaleiðum og með eða án aðstoðar. Hafi einstaklingur persónulegan talsmann, sbr. lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, skal sérfræðilæknir einnig hafa samráð við hann. Eftir atvikum skal sérfræðilæknir leita til réttindagæslumanns fatlaðs fólks til að aðstoða einstaklinginn við að koma vilja sínum á framfæri.
    Umsýsluumboðshafi eða einstaklingurinn getur óskað eftir því við sérfræðilækni að umsýsluumboðið sé afturkallað. Umsýsluumboð getur verið afturkallað af öðrum sérfræðilækni en þeim sem gaf það út.
    Umsýsluumboð veitir umsýsluumboðshafa takmarkaðan aðgang að heilbrigðisgáttum, sbr. 17. og 19. tölul. 3. gr., og veitir ekki beinan aðgang að sjúkraskrá einstaklingsins.
    Embætti landlæknis hefur eftirlit með útgáfu og notkun á umsýsluumboðum og getur takmarkað, afturkallað eða bannað notkun og/eða útgáfu á umsýsluumboði.
    Embætti landlæknis er heimilt að miðla umsýsluumboði til annars aðila sem hefur heimild samkvæmt lögum til að taka ákvörðun um fleiri gerðir aðgangs, á grundvelli annarra umboða, fyrir hönd einstaklings með vitsmunalega, geðræna og/eða líkamlega skerðingu.
    Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um umsýsluumboð, m.a. um framkvæmd, veitingu, afturköllun, takmörk og gildistíma þess, miðlun upplýsinga um veitt umsýsluumboð, aðkomu persónulegs talsmanns og eftirlitsheimildir embættis landlæknis.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2024.



_____________







Samþykkt á Alþingi 22. júní 2024.