Ferill 938. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.








Lög



um breytingu á lögum um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014 (gjaldskrá, rafræn skil).


________




1. gr.

    3. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Standi til að hætta starfsemi héraðsskjalasafns skal tilkynna Þjóðskjalasafni Íslands þar um með hæfilegum fyrirvara. Ef starfsemi héraðsskjalasafns er hætt skal afhenda Þjóðskjalasafni Íslands safngögnin á kostnað þess sveitarfélags sem að því stóð, eða þeirra sveitarfélaga sem að því stóðu hafi byggðasamlag verið myndað um rekstur héraðsskjalasafns, sbr. 1. mgr. 11. gr. Um kostnað af móttöku, vörslu og meðhöndlun skjala fer samkvæmt gjaldskrá, sbr. 48. gr. a.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „skv. 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins“ í 7. tölul. 1. mgr. kemur: samkvæmt lögum um opinber fjármál.
     b.      4. málsl. 4. mgr. orðast svo: Þegar skjöl sveitarfélags eða afhendingarskylds aðila sem heyrir undir stjórnsýslu þess eru afhent Þjóðskjalasafni Íslands skal greiða fyrir móttöku þeirra, vörslu, ráðgjöf um skjalahald og eftirlit samkvæmt gjaldskrá, sbr. 48. gr. a.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      Í stað 1.–2. málsl. 1. mgr. koma þrír nýir málsliðir er orðast svo: Afhendingarskyld skjöl skal leitast við að afhenda opinberu skjalasafni á því formi sem skjölin urðu til á nema forstöðumaður opinbers skjalasafns ákveði annað og skal slík ákvörðun rökstudd. Skjöl á rafrænu formi skulu að jafnaði afhent eigi síðar en þegar þau hafa náð fimm ára aldri. Skjöl á pappír skal afhenda þegar þau hafa náð 30 ára aldri.
     b.      Við 5. mgr. bætist: samkvæmt gjaldskrá, sbr. 48. gr. a.
     c.      Við 8. mgr. bætist: samkvæmt gjaldskrá, sbr. 48. gr. a.
     d.      Á eftir orðinu „gjald“ í 9. mgr. kemur: samkvæmt gjaldskrá, sbr. 48. gr. a.
     e.      10. mgr. fellur brott.

4. gr.

    Við 20. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Þjóðskjalasafni Íslands er heimilt að krefja sveitarfélag, sem ekki starfrækir héraðsskjalasafn, um kostnað vegna miðlunar efnis frá því sveitarfélagi í samræmi við 1. málsl. Samráð skal haft við viðkomandi sveitarfélag um slíka miðlun. Um gjaldtöku vegna hennar fer samkvæmt gjaldskrá, sbr. 48. gr. a.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 44. gr. laganna:
     a.      Við 3. mgr. bætist: samkvæmt gjaldskrá, sbr. 48. gr. a. Eins er opinberu skjalasafni heimilt að taka gjald fyrir aukna rannsóknarvinnu við aðgang að gögnum í vörslu safnsins sé eftir henni óskað.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                 Opinberum skjalasöfnum er heimilt að innheimta gjald fyrir ljósritun og afritun gagna sem afhent eru samkvæmt lögum þessum í samræmi við gjaldskrá, sbr. 48. gr. a. Heimilt er að krefjast fyrirframgreiðslu þess kostnaðar.
     c.      5.–7. mgr. falla brott.

6. gr.

    Á eftir 48. gr. laganna kemur ný grein, 48. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Gjaldskrárheimild.

    Þjóðskjalasafn Íslands skal setja sér gjaldskrá þar sem kveðið er á um gjald fyrir eftirfarandi þjónustu:
     a.      móttöku skjala, vörslu þeirra og meðferð þegar héraðsskjalasafn hættir starfsemi, sbr. 3. mgr. 10. gr.,
     b.      móttöku, vörslu, ráðgjöf um skjalahald og eftirlit vegna skjala sem sveitarfélög afhenda safninu, sbr. 4. mgr. 14. gr.,
     c.      móttöku, frágang og flutning skjala afhendingarskylds aðila sem hættir starfsemi eða er lagður niður, sbr. 5. mgr. 15. gr.,
     d.      geymslu skjala á pappír sem afhent eru safninu áður en þau hafa náð 30 ára aldri þar til þau ná þeim aldri, sbr. 8. mgr. 15. gr.,
     e.      varðveislu og eyðingu skjala frá þrotabúum, sbr. 9. mgr. 15. gr.,
     f.      miðlun efnis frá sveitarfélagi sem ekki starfrækir héraðsskjalasafn, sbr. 20. gr.,
     g.      vinnu við að veita aðgang að gögnum þrotabús eða öðrum óflokkuðum skjölum, svo og fyrir aukna rannsóknarvinnu, sbr. 3. mgr. 44. gr.,
     h.      ljósritun og afritun gagna sem afhent eru, sbr. 4. mgr. 44. gr.
    Gjaldskrá Þjóðskjalasafns Íslands skal staðfest af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldskráin skal einnig birt á vef Þjóðskjalasafns Íslands. Heimilt er að kveða á um árlega verðlagsuppfærslu í gjaldskránni og skal þá gildandi verð á hverjum tíma birtast á vef safnsins.
    Héraðsskjalasöfnum er heimilt að setja sér gjaldskrá þar sem kveðið er á um gjaldtöku fyrir þjónustu skv. b-, c-, d-, g- og h-lið 1. mgr. Gjaldskrá héraðsskjalasafns skal sett af stjórn safns, sveitarstjórn eða stjórn byggðasamlags, eftir því sem við á, og birt á aðgengilegan hátt.
    Gjaldskrár opinberra skjalasafna skulu miða við þann kostnað sem hlýst af varðveislu skjala með hliðsjón af eðli þeirra og magni. Gjöld skulu ekki vera hærri en raunkostnaður af þeim kostnaðarliðum sem þeim er ætlað að standa undir að teknu tilliti til húsnæðiskostnaðar, launa starfsfólks sem sinnir þjónustunni, sérstaks efniskostnaðar vegna þjónustunnar og eðlilegra afskrifta af þeim búnaði sem notaður er við veitingu þjónustunnar.

7. gr.

    Fyrirsögn XI. kafla laganna verður: Viðurlög, reglugerðarheimild og gjaldskrá.

8. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ef starfsemi héraðsskjalasafns er hætt, sbr. 3. mgr. 10. gr., er þjóðskjalaverði heimilt að bjóða starfsfólki þess sem uppfyllir skilyrði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, starf hjá Þjóðskjalasafni Íslands. Um ráðningu og ráðningarsamband fer eftir lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins að því undanskildu að ákvæði um auglýsingaskyldu í 7. gr. laganna gildir ekki við ráðstöfun starfa samkvæmt þessu ákvæði.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Gjaldskrá Þjóðskjalasafns Íslands, nr. 1360/2021, heldur gildi sínu þar til ný gjaldskrá hefur verið sett, sbr. 6. gr. laga þessara. Hið sama gildir um reglugerð um gjaldskrá Þjóðskjalasafns Íslands, nr. 1236/2021.



_____________







Samþykkt á Alþingi 22. júní 2024.