Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 2086, 154. löggjafarþing 1114. mál: tekjustofnar sveitarfélaga (gjaldfrjálsar skólamáltíðir).
Lög nr. 75 1. júlí 2024.

Lög um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 (gjaldfrjálsar skólamáltíðir).


1. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Við tekjur Jöfnunarsjóðs skv. 8. gr. a á árunum 2024–2027 bætist árlegt framlag úr ríkissjóði sem Jöfnunarsjóður úthlutar til þeirra sveitarfélaga sem bjóða öllum nemendum upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum.
     Framlag skv. 1. mgr. skal skiptast hlutfallslega á milli sveitarfélaga eftir heildarnemendafjölda í grunnskólum í hverju sveitarfélagi 1. janúar skólaárið á undan og greiðist mánaðarlega til sveitarfélaga frá 1. ágúst 2024 til loka árs 2027, að undanskildum júlímánuði ár hvert. Ef ekki kemur til úthlutunar til sveitarfélags á grundvelli ákvæðisins skal reiknað framlag Jöfnunarsjóðs til viðkomandi sveitarfélags endurgreitt ríkissjóði.
     Ákveði sveitarfélag að taka gjald fyrir skólamáltíðir á grundvelli 23. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, eftir að Jöfnunarsjóður hefur úthlutað framlagi til þess á grundvelli 1. og 2. mgr., skal sveitarfélagið endurgreiða Jöfnunarsjóði úthlutað framlag til þess fyrir það tímabil sem sveitarfélagið hefur tekið gjald fyrir skólamáltíðir, og skal fjárhæðin renna í ríkissjóð. Sama á við ef sjálfstætt rekinn grunnskóli, sem gert hefur þjónustusamning við sveitarfélag á grundvelli 43. gr. a laga um grunnskóla, ákveður að taka gjald fyrir skólamáltíðir.
     Jöfnunarsjóði er heimilt að halda eftir öðrum framlögum sjóðsins til sveitarfélags hafi sveitarfélagið fengið ofgreitt framlag, sbr. 3. mgr.
     Ráðherra skal skipa starfshóp skipaðan einum fulltrúa ráðherra sem fer með sveitarstjórnarmál, sem jafnframt er formaður, einum fulltrúa ráðherra sem fer með málefni grunnskóla og tveimur fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem skal leggja mat á nýtingu og áhrif framlags skv. 1. mgr. Meðal annars skal meta áhrif á markmið um að auka jöfnuð og draga úr fátækt meðal barna, hvort allir árgangar nýti sér gjaldfrjálsar skólamáltíðir og hver sé ávinningur einstakra sveitarfélaga og landshluta. Þá skal meta reynslu og ánægju nemenda og foreldra. Niðurstaða hópsins skal liggja fyrir eigi síðar en 30. júní 2025.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 22. júní 2024.