Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 2091, 154. löggjafarþing 939. mál: samvinnufélög o.fl. (fjöldi stofnenda, slit, reglugerðarheimild).
Lög nr. 109 5. júlí 2024.

Lög um breytingu á lögum um samvinnufélög og fleiri lögum (fjöldi stofnenda, slit, reglugerðarheimild).


I. KAFLI
Breyting á lögum um samvinnufélög, nr. 22/1991.

1. gr.

     2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 5. mgr. 4. gr. laganna:
  1. Í stað tölunnar „15“ í 2. málsl. kemur: þrír.
  2. 4. málsl. fellur brott.


3. gr.

     Við 8. tölul. 5. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fjárhæð aðildargjalds skal ekki vera hærri en 10.000 kr. í samvinnufélögum þar sem félagsmenn eru fleiri en 100, en breyta má fjárhæðinni miðað við 1. júní ár hvert í samræmi við vísitölu neysluverðs.

4. gr.

     Í stað orðsins „hluthafafundi“ í 3. málsl. 1. mgr. 36. gr. laganna kemur: félagsfundi.

5. gr.

     Við 1. mgr. 37. gr. laganna bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í samvinnufélögum þar sem félagsmenn eru fleiri en 100 skal óheimilt að ráðstafa hærra hlutfalli en 1% af hagnaði hvers árs til greiðslu í stofnsjóð eða, þar sem við á, A-deild stofnsjóðs, sbr. 4. málsl., þó þannig að fjárhæðin verði aldrei hærri en 50.000 kr. á hvern félagsmann. Fjárhæðin breytist miðað við 1. júní ár hvert í samræmi við vísitölu neysluverðs.

6. gr.

     Í stað 6. mgr. 38. gr. laganna koma þrjár nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
     Gerð skal sérfræðiskýrsla skv. 6. og 7. gr. laga um hlutafélög, nr. 2/1995, þar sem fram kemur rökstutt álit á því hvort hækkun séreignarhluta félagsaðila í A-deild stofnsjóðs félagsins og skiptahlutfall á milli hluta í A-deild og B-deild sé eðlilegt og sanngjarnt. Sérfræðiskýrslunni skulu fylgja ársreikningar félagsins fyrir síðustu tvö reikningsár og efnahags- og rekstrarreikningur fyrir liðinn hluta yfirstandandi reikningsárs. Um hæfi og störf sérfræðinganna gilda að öðru leyti ákvæði laga um hlutafélög.
     Hluthafar í B-deild félags, er verið hafa á móti breytingartillögu, eiga kröfu á að hlutir þeirra verði innleystir ef skrifleg krafa er gerð um það innan mánaðar frá því að fundurinn var haldinn. Ef þess hefur verið farið á leit við hluthafa fyrir ákvarðanatöku að þeir sem vilja nota innlausnarréttinn gefi til kynna vilja sinn í því efni er innlausnarrétturinn bundinn því skilyrði að hlutaðeigendur hafi gefið yfirlýsingu þar um á fundinum. Félagið skal kaupa hlutina af þeim á verði sem svarar til verðmætis hlutanna. Sé ekki um samkomulag að ræða skal verðið ákveðið af matsmönnum, dómkvöddum á heimilisvarnarþingi félagsins. Hvor aðili um sig getur borið ákvörðun matsmanna undir dómstóla. Mál verður að höfða innan þriggja mánaða frá því að mat hefur farið fram.
     Félagsmenn og hluthafar í B-deild stofnsjóðs geta krafist skaðabóta af viðkomandi félagi ef þeir hafa gert fyrirvara um það á fundi sem fjallar um breytingartillöguna enda sé skiptahlutfall á milli félagsmanna og hluthafa hvorki sanngjarnt né efnislega rökstutt.

7. gr.

     61., 61. gr. a og 61. gr. b laganna falla brott.

8. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 62. gr. a laganna:
  1. Við 1. tölul. bætast tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í samvinnufélögum þar sem félagsmenn eru fleiri en 100 skal ályktun um slit samþykkt með 3/4 atkvæðisbærra fundarmanna á tveimur félagsfundum með a.m.k. tólf mánaða millibili. Í félagi, sem skiptist í deildir, skulu deildarfundir fjalla um og samþykkja ályktun um slit með 3/4 atkvæðisbærra fundarmanna áður en til félagsfundar kemur.
  2. 2. tölul. orðast svo: Félagsaðilar samvinnufélags eða samvinnusambands verða færri en þrír eða ef félagið fullnægir ekki ákvæðum laga þessara.
  3. 6. tölul. fellur brott.


9. gr.

     Í stað 4. málsl. 3. mgr. 65. gr. laganna koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Í samvinnufélögum þar sem félagsmenn eru fleiri en 100 og eigið fé er að lágmarki 750.000.000 kr. skulu félagsaðilar sem eiga hlut í stofnsjóði eða, þar sem við á, A-deild stofnsjóðs, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 37. gr., aldrei fá greidda til sín hærri fjárhæð en sem nemur eign þeirra í sjóðnum, með að hámarki 15% álagi. Jafnframt skal í tillögunni um slit félagsins kveðið á um stofnun sjálfseignarstofnunar sem til skulu falla allar óráðstafaðar eftirstöðvar af eigin fé félagsins, sem skal hafa það að verkefni að styðja við samfélagsverkefni til almannaheilla á fyrrum félagssvæði hins slitna félags samkvæmt nánari ákvæðum í hinni samþykktu tillögu um slitin.

10. gr.

     Fyrirsögn XII. kafla laganna verður: Slit samvinnufélaga.

11. gr.

     Ákvæði til bráðabirgða II í lögunum fellur brott.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Evrópufélög, nr. 26/2004.

12. gr.

     Á eftir 28. gr. laganna kemur ný grein, 28. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Reglugerðarheimild.
     Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, sbr. þó 2. mgr. 8. gr.

III. KAFLI
Breyting á lögum um evrópsk samvinnufélög, nr. 92/2006.

13. gr.

     Á eftir 29. gr. laganna kemur ný grein, 29. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:
Reglugerðarheimild.
     Ráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, sbr. þó 2. mgr. 9. gr.

IV. KAFLI
Breyting á lögum um húsnæðissamvinnufélög, nr. 66/2003.

14. gr.

     3. gr. laganna orðast svo:
     Ef 15 aðilar eða fleiri koma sér saman um stofnun húsnæðissamvinnufélags og bindast samtökum og gerast félagsmenn setja þeir félaginu samþykktir í samræmi við lög þessi. Kjósa skal félaginu stjórn og endurskoðendur eða skoðunarmenn. Er þá félagið löglega stofnað. Ráðherra eða sá sem hann framselur vald sitt getur heimilað frávik frá lágmarksfjölda stofnenda samkvæmt þessari grein.

15. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 22. júní 2024.