Ferill 942. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2095  —  942. mál.

2. umræða.


Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Orkusjóð, nr. 76/2020 (Loftslags- og orkusjóður).

Frá meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, KÍO – félagi kvenna í orkumálum, Landsvirkjun, Landvernd, Rannís – Rannsóknamiðstöð Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði Íslands.
    Nefndinni bárust sjö umsagnir og eru gögnin aðgengileg undir málinu á vef Alþingis.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um Orkusjóð, nr. 76/2020, sem hafa það að markmiði að sameina tvo sjóði, Orkusjóð og Loftslagssjóð, sem heyra undir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti. Loftslags- og orkusjóði er ætlað að styrkja verkefni sem tengjast orkuskiptum og nýsköpun á sviði loftslagsmála auk þess sem styrkveitingar ráðuneytisins til verkefna á málefnasviði þess og til innleiðingar á hringrásarhagkerfinu munu falla undir nýjan sameinaðan sjóð.

Umfjöllun nefndarinnar.
Hlutverk Loftslags- og orkusjóðs.
    Við meðferð málsins í nefndinni var fjallað um markmið frumvarpsins. Umsagnaraðilar voru almennt jákvæðir gagnvart sameiningu Orkusjóðs og Loftslagssjóðs í nýjan Loftslags- og orkusjóð sem hefur það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Nýr sjóður verði deildaskiptur samkeppnissjóður og ferli til styrkveitingar verði einfaldað. Umsagnaraðilar lögðu hins vegar áherslu á að nýr sjóður fengi nægilegt fjármagn til að sinna hlutverki sínu og til að árangur næðist í losun gróðurhúsalofttegunda og tekur meiri hlutinn undir það.
    Fyrir nefndinni var rætt um hlutverk nýs sameinaðs sjóðs og bent á að eitt af hlutverkum Loftslagssjóðs skv. 29. gr. laga um loftslagsmál, nr. 70/2012, væri að styðja verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga. Í frumvarpinu er hins vegar ekki vikið að styrkjum Loftslags- og orkusjóðs á sviði fræðslumála. Við meðferð málsins var rætt um mikilvægi þess að sjóðurinn styrkti verkefni á sviði fræðslu þar sem markmið sjóðsins er einkum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og ná ávinningi í þeim efnum. Meiri hlutinn undirstrikar að fræðsla á sviði loftslagsmála er nauðsynleg til að ná árangri í loftslagsmálum og leggur til breytingu á frumvarpinu því til áréttingar.
    Þá var einnig rætt um hringrásarhagkerfið og frekari innleiðingu þess en í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að styrkveitingum til verkefna til innleiðingar á hringrásarhagkerfinu er ætlað að falla undir sjóðinn. Fyrir nefndinni var jafnframt rætt um mikilvægi rannsókna og nýsköpunar, en Loftslagssjóður hefur styrkt nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála. Bent var á mikilvægi rannsókna til að vinna að mögulegum lausnum og aðgerðum sem hafa áhrif á loftslagsmál. Til eru sjóðir sem styrkja rannsóknir, svo sem Rannsóknasjóður, sem er opinn samkeppnissjóður sem hefur það hlutverk að styrkja vísindarannsóknir. Nauðsynlegt er hins vegar að stuðla að því að rannsóknir og nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála hljóti framgang og því leggur meiri hlutinn til breytingu á hlutverki sjóðsins þar sem kemur skýrt fram að hlutverk hans sé m.a. að styrkja nýsköpunar- og innviðaverkefni á sviði loftslagsmála og í þágu hringrásarhagkerfisins.

Stjórn sjóðsins, framkvæmd styrkveitinga og umsýsla.
    Við umfjöllun málsins í nefndinni var m.a. rætt um skipan stjórnar Loftslags- og orkusjóðs, faglegt mat umsókna hjá sjóðnum og umsýslu sjóðsins.
    Um stjórn Loftslags- og orkusjóðs mun fara samkvæmt ákvæði 1. mgr. 3. gr. laga um Orkusjóð, þ.e. ráðherra skipar þrjá einstaklinga í stjórn sjóðsins til fjögurra ára, þar af skal einn skipaður formaður. Fyrir nefndinni var bent á að í lögum um loftslagsmál væru ítarlegri ákvæði um stjórn Loftslagssjóðs, m.a. að því er varðar þekkingu stjórnarmanna og tilnefningaraðila. Bent var á mikilvægi þess að faglegt og hlutlaust mat réði för við úthlutun styrkja. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið og leggur áherslu á að fagleg þekking og reynsla af þeim málefnum sem sjóðnum er ætlað að styrkja endurspeglist í skipan stjórnar sjóðsins. Meiri hlutinn leggur því til breytingartillögu um skipan stjórnar sjóðsins sem fjallað er um í kafla um breytingartillögur síðar í áliti þessu. Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að umsækjendur um styrki geti leitað skýrra fyrirmæla um framlög og úthlutun úr sjóðnum.
    Við umfjöllun um umsýslu sjóðsins var m.a. rætt um að Rannís hefði annast umsýslu Loftslagssjóðs en umsýsla Orkusjóðs hefur verið hjá Orkustofnun og gert er ráð fyrir að stofnunin annist jafnframt daglega umsýslu nýs Loftslags- og orkusjóðs. Með sameiningu sjóðanna í einn sjóð er stefnt að aukinni hagræðingu og því er mikilvægt að ná fram skilvirkni í daglegum rekstri sjóðsins. Þrátt fyrir að mælt sé fyrir um að dagleg umsýsla sjóðsins verði hjá stjórnsýslustofnun telur meiri hlutinn mikilvægt að stjórn sjóðsins geti framselt faglega umsýslu sjóðsins til óháðs aðila samkvæmt samningi. Þetta gæti einkum átt við um styrkveitingar til tiltekinna verkefna, svo sem á sviði nýsköpunar og rannsókna, vegna faglegs mats á umsóknum og gæðum verkefna. Því þykir rétt að þessi möguleiki sé fyrir hendi ef hagfelldara eða nauðsynlegt þykir að framselja faglega umsýslu til aðila sem reynslu hafa af slíku, t.d. Rannís. Meiri hlutinn leggur því til breytingartillögu þess efnis en undirstrikar að ákvarðanataka og stefnumótun liggur hjá stjórn sjóðsins.

Aðgerðir til að stuðla að jafnari kynjahlutföllum.
    Við meðferð málsins í nefndinni var rætt um stöðu sjóðsins með tilliti til jafnréttissjónarmiða. Í umsögn KÍO – félags kvenna í orkumálum er vakin athygli á ójöfnu kynjahlutfalli í umsóknum og úthlutunum Orkusjóðs síðustu ár og bent á að þörf sé á að grípa til aðgerða vegna þess. Meiri hlutinn tekur undir það og telur nauðsynlegt að stjórn nýs Loftslags- og orkusjóðs sem og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti ráðist í sérstakar aðgerðir til að hvetja konur til að sækja um úthlutun úr sjóðnum, t.d. með aukinni kynningu og fræðslu um sjóðinn og ráðgjöf til umsækjenda.

Breytingartillögur.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á 3. gr. frumvarpsins sem varðar hlutverk Loftslags- og orkusjóðs. Meiri hlutinn leggur til að kveðið verði á um að hlutverk Loftslags- og orkusjóðs skuli vera að styðja nýsköpunar- og innviðaverkefni á sviði loftslagsmála, verkefni sem stuðla að innleiðingu hringrásarhagkerfisins og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga.
    Þá leggur meiri hlutinn til breytingar á 4. gr. frumvarpsins er varða stjórn sjóðsins. Lagt er til að ráðherra skipi fimm einstaklinga í stjórn Loftslags- og orkusjóðs til fjögurra ára. Formaður skal skipaður án tilnefningar og honum til viðbótar skipar ráðherra einn fulltrúa án tilnefningar, einn fulltrúa, sem hefur þekkingu á loftslagsmálum, samkvæmt tilnefningu háskólasamfélagsins, einn fulltrúa samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins og einn fulltrúa samkvæmt tilnefningu umhverfisverndarsamtaka.
    Þá leggur meiri hlutinn til breytingartillögu þess efnis að stjórn nýs Loftslags- og orkusjóðs geti framselt faglega umsýslu sjóðsins til óháðs aðila samkvæmt samningi. Líkt og áður segir telur meiri hlutinn nauðsynlegt að stjórn hafi þessa heimild þrátt fyrir að frumvarpið geri ráð fyrir að dagleg umsýsla verði hjá Orkustofnun.
    Í 4. gr. frumvarpsins er jafnframt lagt til að ákvarðanir um styrkveitingar séu endanlegar á stjórnsýslustigi. Í l. mgr. 4. gr. laga um Orkusjóð kemur hins vegar fram að stjórn geri tillögur til ráðherra um lánveitingar og framlög úr sjóðnum. Þar sem styrkveitingar geta fallið undir framlög leggur meiri hlutinn til að fella brott orðið „framlög“ úr 1. mgr. 4. gr. laga um Orkusjóð. Þannig verða ákvarðanir stjórnar sjóðsins um styrki endanlegar á stjórnsýslustigi en tillögur um lánveitingar bornar undir ráðherra.
    Þá leggur meiri hlutinn til tæknilegar breytingar sem ekki er ætlað að hafa efnisleg áhrif á frumvarpið.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      1. efnismálsgr. 3. gr. orðist svo:
             Loftslags- og orkusjóður skal enn fremur styðja við nýsköpunar- og innviðaverkefni á sviði loftslagsmála, verkefni sem stuðla að innleiðingu hringrásarhagkerfisins og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu um áhrif loftslagsbreytinga.
     2.      4. gr. orðist svo:
             Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
                  a.      1. mgr. orðast svo:
                      Ráðherra skipar fimm einstaklinga í stjórn Loftslags- og orkusjóðs til fjögurra ára. Formaður skal skipaður án tilnefningar og honum til viðbótar skipar ráðherra einn fulltrúa án tilnefningar, einn fulltrúa, sem hefur þekkingu á loftslagsmálum, samkvæmt tilnefningu háskólasamfélagsins, einn fulltrúa samkvæmt tilnefningu Samtaka atvinnulífsins og einn fulltrúa samkvæmt tilnefningu umhverfisverndarsamtaka.
                  b.      Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Stjórninni er þó heimilt að framselja óháðum aðila faglega umsýslu sjóðsins samkvæmt samningi.
                  c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Ákvarðanir sem teknar eru um að veita styrki úr Loftslags- og orkusjóði eru endanlegar á stjórnsýslustigi.
     3.      Á eftir 4. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Orðin „og framlög“ í 1. mgr. 4. gr. falla brott.
     4.      Við 7. gr. bætist tveir nýir liðir, svohljóðandi:
                  a.      4. mgr. 4. gr. laga um loftslagsmál, nr. 70/2012, fellur brott.
                  b.      Í stað heitisins „Orkusjóði“ í ákvæði til bráðabirgða LXXVII í lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, kemur: Loftslags- og orkusjóði.

    Jakob Frímann Magnússon, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, lýsir sig samþykkan áliti þessu.

Alþingi, 22. júní 2024.

Bjarni Jónsson,
form.
Vilhjálmur Árnason, frsm. Halla Signý Kristjánsdóttir.
Ingibjörg Isaksen. Njáll Trausti Friðbertsson. Orri Páll Jóhannsson.