Ferill 737. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.








Lög



um breytingu á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998 (starfslok óbyggðanefndar o.fl.).


________




1. gr.

    Við skilgreiningu á hugtakinu þjóðlenda í 1. gr. laganna bætist: þ.m.t. ný landsvæði sem verða til utan eignarlanda og landsvæði þar sem einkaeignarréttur fellur niður.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 2. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Þá þarf leyfi ráðherra fyrir hvers kyns aðgerðum og verkefnum sem miða að því að auka bindingu kolefnis eða draga úr losun kolefnis á svæði innan þjóðlendu sem skilgreint er fyrir slíka nýtingu lands í skipulagsáætlun hlutaðeigandi sveitarfélags.
     b.      Í stað 3. og 4. málsl. 4. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Sveitarstjórn skal árlega gera ráðherra grein fyrir tekjum af leyfum skv. 3. mgr., sbr. 5. mgr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „málefni iðnaðar og málefni landbúnaðar“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: ferðamál, málefni iðnaðar og málefni landbúnaðar, fulltrúi Vatnajökulsþjóðgarðs.
     b.      Í stað orðanna ,,jafnræði og gagnsæi“ í 2. mgr. kemur: jafnræði, gagnsæi og umfang auglýsingaskyldu.


4. gr.

    2. málsl. 7. mgr. 10. gr. laganna fellur brott.

5. gr.

    2. mgr. 10. gr. a laganna fellur brott.

6. gr.

    6.–17. gr. og 2. mgr. 18. gr. laganna falla brott.

7. gr.

    Orðin „né heldur við þinglýsingar skv. 2. mgr. 10. gr.“ í 2. málsl. 3. mgr. 18. gr. laganna falla brott.

8. gr.

    Tilvísunin „skv. 2. mgr. 18. gr.“ í 1. málsl. 1. mgr. 19. gr. laganna fellur brott.

9. gr.

    Á eftir 2. málsl. 19. gr. a laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Mál verður þó ekki tekið til meðferðar á ný ef þrjú ár eru liðin frá uppkvaðningu úrskurðar.

10. gr.

    Fyrirsögn III. kafla laganna verður: Málsmeðferð þjóðlendumála.

11. gr.

    20. og 21. gr. laganna falla brott.

12. gr.

    Ákvæði til bráðabirgða I og II í lögunum falla brott.

13. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Komi fram beiðni um endurupptöku máls skv. 19. gr. a eftir að óbyggðanefnd hefur lokið störfum skal henni beint til ráðherra sem skipar þá þrjá menn í óbyggðanefnd til að fara með beiðnina. Einn þeirra skal vera formaður og annar varaformaður samkvæmt ákvörðun ráðherra. Ekki skal þó skipa óbyggðanefnd til að fara með beiðni hafi einkamál verið höfðað vegna viðkomandi svæðis, sbr. 1. mgr. 19. gr., og dómur fallið, enda fer þá um endurupptöku eftir ákvæðum laga um meðferð einkamála.
    Nefndarmenn skv. 1. mgr. skulu fullnægja skilyrðum til að gegna embætti héraðsdómara en þó er heimilt að víkja frá 70 ára aldurshámarki.
    Hlutverk óbyggðanefndar skv. 1. mgr. skal vera að:
     1.      Kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda.
     2.      Skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur.
     3.      Úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.
    Að fram kominni endurupptökubeiðni skal óbyggðanefnd gera þeim sem aðild áttu að viðkomandi máli viðvart og gefa þeim kost á að lýsa kröfum. Komi fram við meðferð endurupptekins máls að aðili sem kann að telja til eignarréttinda hafi ekki lýst kröfum skal nefndin hafa frumkvæði að því að kanna hvort hann falli frá tilkalli, en ella gefa honum kost á að gerast aðili máls.
    Hlutaðeigandi ráðherra fer með fyrirsvar fyrir hönd ríkisins og stofnana á vegum þess vegna krafna um eignarréttindi innan þjóðlendna og við úrlausn um hvort land teljist til eignarlands eða þjóðlendu.
    Mál sem er til umfjöllunar hjá óbyggðanefnd samkvæmt ákvæði þessu verður ekki borið undir dómstóla fyrr en eftir að nefndin hefur lokið umfjöllun sinni um það.
    Óbyggðanefnd leitar sátta með aðilum nema telja verði að sáttatilraun verði árangurslaus.
    Um form og efni úrskurða óbyggðanefndar sem fela í sér endanlegar lyktir máls fer eftir ákvæðum stjórnsýslulaga um úrskurði í kærumáli.
    Kostnaður vegna starfa óbyggðanefndar samkvæmt ákvæði þessu greiðist úr ríkissjóði. Auk kostnaðar við rekstur nefndarinnar fellur hér undir nauðsynlegur kostnaður annarra en ríkisins vegna hagsmunagæslu fyrir nefndinni.
    Óbyggðanefnd úrskurðar um kröfur aðila vegna kostnaðar skv. 2. málsl. 9. mgr. Við mat á því hvort um nauðsynlegan kostnað hafi verið að ræða er nefndinni heimilt að líta til þess hvort aðilar sem svipaðra hagsmuna eiga að gæta hafi sameinast um að nýta sér aðstoð sömu lögmanna og annarra sérfræðinga, enda rekist hagsmunir ekki á. Við mat á fjárhæð kostnaðar skal enn fremur litið til þess hvað telja má sanngjarnt og eðlilegt endurgjald fyrir hagsmunagæslu í viðkomandi máli.
    Óbyggðanefnd er heimilt að gera aðila að bera málskostnað sinn og gagnaðila að nokkru eða öllu leyti telji hún málatilbúnað hans gefa tilefni til slíks.
    Fullnægja má ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar um málskostnað með aðför.
    Birta skal úrskurði óbyggðanefndar fyrir þeim aðilum sem lýst hafa kröfum og þeim sem úrskurðað er að eigi réttindi á viðkomandi svæði. Útdráttur úr úrskurði skal birtur í Lögbirtingablaði ásamt uppdrætti.

14. gr.

    Heiti laganna verður: Lög um þjóðlendur.

15. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó skulu ákvæði 6.–11. og 13. gr. ekki öðlast gildi fyrr en 1. janúar 2026.

16. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Vatnalög, nr. 15/1923: Við 30. tölul. 4. mgr. 1. gr. laganna bætist: sbr. 1. gr. laga um þjóðlendur.
     2.      Lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998:
                  a.      Við 2. mgr. 2. gr. laganna bætist: sbr. 1. gr. laga um þjóðlendur.
                  b.      Í stað orðanna „laga um þjóðlendur o.fl.“ í 1. og 2. málsl. 2. mgr. 31. gr. laganna kemur: laga um þjóðlendur.
     3.      Raforkulög, nr. 65/2003: Í stað orðanna „laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta“ í 2. mgr. 38. gr. laganna kemur: laga um þjóðlendur.
     4.      Lög um þjóðgarðinn á Þingvöllum, nr. 47/2004: Í stað orðanna „laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta“ í 3. mgr. 5. gr. a laganna kemur: laga um þjóðlendur.
     5.      Lög um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006: Við 62. tölul. 3. gr. laganna bætist: sbr. 1. gr. laga um þjóðlendur.
     6.      Lög um Vatnajökulsþjóðgarð, nr. 60/2007: Í stað orðanna „laga um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta“ í 3. mgr. 15. gr. b laganna kemur: laga um þjóðlendur.
     7.      Lög um verndar- og orkunýtingaráætlun, nr. 48/2011: Við 7. tölul. 2. mgr. 2. gr. laganna bætist: sbr. 1. gr. laga um þjóðlendur.
     8.      Lög um náttúruvernd, nr. 60/2013: Í stað orðanna „sbr. lög nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta“ í 29. tölul. 5. gr. laganna kemur: sbr. 1. gr. laga um þjóðlendur.
     9.      Lög um nýtingu á landi í eigu ríkisins í atvinnuskyni, nr. 100/2021: Við 15. tölul. 4. gr. laganna bætist: sbr. 1. gr. laga um þjóðlendur.




_____________







Samþykkt á Alþingi 22. júní 2024.