Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 2119, 154. löggjafarþing 910. mál: fæðingar- og foreldraorlof og sorgarleyfi (stuðningur við kjarasamninga).
Lög nr. 73 1. júlí 2024.

Lög um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof og lögum um sorgarleyfi (stuðningur við kjarasamninga).


I. KAFLI
Breyting á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 144/2020.

1. gr.

     Í stað „600.000 kr.“ í 1. mgr. 24. gr. laganna kemur: 900.000 kr.

2. gr.

     Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (I.)
     Þrátt fyrir 1. mgr. 24. gr. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi, eftir 1. apríl 2024, aldrei nema hærri fjárhæð en 700.000 kr. vegna barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur fyrir 1. janúar 2025.
     
     b. (II.)
     Þrátt fyrir 1. mgr. 24. gr. skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi aldrei nema hærri fjárhæð en 800.000 kr. vegna barna sem fæðast, eru frumættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á tímabilinu 1. janúar 2025 til og með 31. desember 2025.

II. KAFLI
Breyting á lögum um sorgarleyfi, nr. 77/2022.

3. gr.

     Í stað „600.000 kr.“ í 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: 900.000 kr.

4. gr.

     Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     
     a. (I.)
     Þrátt fyrir 1. mgr. 16. gr. skal mánaðarleg greiðsla til foreldris í sorgarleyfi, eftir 1. apríl 2024, aldrei nema hærri fjárhæð en 700.000 kr. vegna barnsmissis, andvanafæðingar eða fósturláts fyrir 1. janúar 2025.
     
     b. (II.)
     Þrátt fyrir 1. mgr. 16. gr. skal mánaðarleg greiðsla til foreldris í sorgarleyfi aldrei nema hærri fjárhæð en 800.000 kr. vegna barnsmissis, andvanafæðingar eða fósturláts frá og með 1. janúar 2025 til og með 31. desember 2025.

5. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og gilda afturvirkt frá 1. apríl 2024.

Samþykkt á Alþingi 22. júní 2024.