Ferill 920. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.








Lög



um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka hf.


________




1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að ríkið ráðstafi eignarhlut sínum í Íslandsbanka hf.

2. gr.

Heimild til sölu eignarhluta.

    Ráðherra er heimilt að ráðstafa að hluta eða öllu leyti eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka hf., að fenginni heimild í fjárlögum, með markaðssettu útboði sem opið er bæði almennum fjárfestum og fagfjárfestum, sbr. 5. og 14. tölul. 1. mgr. 4. gr. laga um markaði fyrir fjármálagerninga, nr. 115/2021.

3. gr.

Meginreglur við ráðstöfun.

    Við ráðstöfun eignarhlutar skal horft til gagnsæis, hagkvæmni, hlutlægni og jafnræðis í skilningi laga um opinber fjármál.

4. gr.

Framkvæmd markaðssetts útboðs.

    Markaðssett útboð skal auglýst með tveggja daga fyrirvara hið minnsta með birtingu útboðslýsingar. Semja skal við þar til bæran eða þar til bæra aðila um gerð útboðslýsingar og utanumhald um tilboðsbækur. Heimilt er að fela einum aðila eða fleirum að annast skipulagningu og yfirumsjón útboðsins.
    Umsjón með markaðssettu útboði hafa lögaðilar sem er heimilt að hafa umsjón með útboði fjármálagerninga án sölutryggingar hér á landi samkvæmt lögum um markaði fyrir fjármálagerninga og hafa óskað eftir þátttöku innan hæfilegs frests sem ráðherra tiltekur, enda gangist þeir undir fyrirkomulag útboðsins. Söluþóknun til söluaðila skal nema 0,75% af heildarverðmæti seldra hluta.
    Markaðssettu útboði skal skipt í tilboðsbók A og tilboðsbók B. Sala samkvæmt tilboðsbók A skal hafa forgang við úthlutun. Lágmarkstilboð skal vera 100.000 kr. í tilboðsbók A og 2.000.000 kr. í tilboðsbók B:
     a.      Tilboðsbók A skal taka við sölutilboðum á föstu verði, sem skal nema meðalverði hlutabréfa í Íslandsbanka hf. síðustu 15 daga fyrir birtingu útboðslýsingar, eða síðasta dagslokagengi, með að hámarki 5% fráviki til lækkunar. Í tilboðsbókina skal vera heimilt að gera tilboð að 20.000.000 kr. Einungis einstaklingum skal vera heimilt að gera tilboð. Reynist nauðsynlegt að skerða áskriftir til að mæta eftirspurn skal það gert hlutfallslega, svo að allt hlutafé seljist. Þó skal ekki skerða áskriftir niður fyrir 2 millj. kr., nema slíkt reynist nauðsynlegt til að mæta eftirspurn og skal það þá gert hlutfallslega.
     b.      Í tilboðsbók B skal vera heimilt að gera tilboð umfram 20.000.000 kr. Söluverð skal vera lægsta tilboðsverð sem nær heildarmagni útboðsins en lágmarksverð skal þó ekki vera lægra en fasta verðið í tilboðsbók A. Reynist nauðsynlegt að skerða áskriftir til að mæta eftirspurn skal það gert á grundvelli tilboðsverðs eingöngu. Reynist nauðsynlegt að skerða lægstu samþykktu tilboð skal það gert hlutfallslega.
    Tilboð sem háð eru fyrirvörum eru ógild. Hið sama á við um tilboð þeirra sem hafa verið með tilkynnta skortstöðu í Íslandsbanka hf. á 30 daga tímabili áður en útboð hefst. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands skal upplýsa ráðuneytið um tilkynntar skortstöður í bankanum skv. 2. málsl. daginn sem útboð hefst. Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. skal Íslandsbanki hf. ekki hafa umsjón með útboðinu.

5. gr.

Sérstakt hæfi, upplýsingagjöf og úttekt.

    Ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um sérstakt hæfi til meðferðar mála gilda ekki ef farið er með ráðstöfun hluta í samræmi við 4. gr. um markaðssett útboð.
    Í aðdraganda markaðssetts útboðs skal ráðherra tryggja virka upplýsingagjöf um undirbúning og framkvæmd ráðstöfunar eignarhlutar.
    Að loknu markaðssettu útboði skal ráðherra, án tillits til þagnarskyldu skv. 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, birta opinberlega sundurliðaðar upplýsingar um hver og ein viðskipti með eignarhluti, þ.m.t. kennitölur í þeim tilvikum sem fjárfestar hafa íslenska kennitölu, og nöfn endanlegra kaupenda. Þagnarskyldan skal auk þess ekki standa í vegi fyrir nauðsynlegri miðlun upplýsinga til söluaðila sem hafa með höndum yfirumsjón útboðsins skv. 2. mgr. 4. gr.
    Að loknu markaðssettu útboði skal ráðherra fela óháðum aðila að gera úttekt á því hvort meginreglum 3. gr. hafi verið fylgt.

6. gr.

Gildistaka o.fl.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.
    Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum, nr. 155/2012. Um leið falla úr gildi i- og j-liður 4. gr. laga um Bankasýslu ríkisins, nr. 88/2009.
    Lög þessi falla úr gildi þegar ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka er að fullu lokið.



_____________




Samþykkt á Alþingi 22. júní 2024.