Ferill 1010. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2152  —  1010. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um atvinnuréttindi kvenna að loknu fæðingarorlofi.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Er það mat ráðherra að atvinnuréttindi kvenna sem snúa til vinnu að loknu fæðingarorlofi séu nægilega tryggð í lögum?
     2.      Ef svo er ekki, hyggst ráðherra beita sér fyrir því að svo verði?


    Um réttindi kvenna sem snúa aftur til vinnu að loknu fæðingarorlofi er meðal annars fjallað í lögum nr. 144/2020, um fæðingar- og foreldraorlof. Í því sambandi má nefna að skv. 14. gr. laganna reiknast fæðingarorlof til starfstíma við mat á starfstengdum réttindum, svo sem orlofstöku og lengingar orlofs, starfsaldurshækkana, veikindaréttar, uppsagnarfrests og atvinnuleysisbóta en ekki er um tæmandi talningu að ræða í ákvæðinu. Þá kemur fram í 49. gr. laganna að ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda skuli haldast óbreytt í fæðingar- og foreldraorlofi og að starfsmaður eigi rétt á því að hverfa aftur til starfs síns að loknu fæðingar- eða foreldraorlofi. Sé þess ekki kostur skuli hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning. Þá kemur fram í 51. gr. laganna að komi vinnuveitandi í veg fyrir að foreldri njóti þeirra réttinda sem því ber samkvæmt lögunum varði það skaðabótaskyldu samkvæmt almennum reglum.
    Foreldrar sem nýta rétt sinn til fæðingarorlofs njóta jafnframt tiltekinnar uppsagnarverndar en skv. 50. gr. fyrrnefndra laga um fæðingar- og foreldraorlof er óheimilt að segja starfsmanni upp störfum á grundvelli þess að hann hafi tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingar- eða foreldraorlofs eða er í fæðingar- eða foreldraorlofi nema gildar ástæður séu fyrir hendi og skal þá skriflegur rökstuðningur fylgja uppsögninni. Sama gildir um uppsagnir barnshafandi starfsmanns og starfsmanns sem nýlega hefur fætt barn. Þá er samkvæmt lögum nr. 27/2000, um bann við uppsögnum vegna fjölskylduábyrgðar starfsmanna, óheimilt að segja manni upp störfum eingöngu vegna fjölskylduábyrgðar sem hann ber. Með fjölskylduábyrgð samkvæmt lögunum er meðal annars átt við skyldur starfsmanns gagnvart börnum.
    Þá er einnig fjallað um réttindi foreldra sem snúa aftur til vinnu að loknu fæðingarorlofi í lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, en þau lög falla undir málefnasvið forsætisráðherra.
    Það er því mat ráðherra að löggjöf hér á landi kveði með skýrum hætti á um að foreldrar skuli ekki missa réttindi sín á vinnumarkaði sökum þess að þeir nýta rétt sinn til fæðingarorlofs.