Ferill 1138. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2168  —  1138. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um búðarhnupl.


    Við vinnslu svarsins var óskað upplýsinga frá embætti ríkislögreglustjóra. Eftirgreind svör við 1.–3. tölul. fyrirspurnarinnar byggjast á þeim upplýsingum sem fengust þaðan.

     1.      Hvernig hefur umfang búðarhnupls í verslunum sem tilkynnt hefur verið til lögreglu þróast síðastliðin fimm ár?
    Eftirfarandi tafla og myndrit sýna upplýsingar um fjölda tilvika, sem tilkynnt voru til lögreglu, vegna hnupls úr verslunum árin 2019–2023:

Ártal 2019 2020 2021 2022 2023
Fjöldi tilvika 776 671 776 745 641


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     2.      Hefur lögreglan upplýsingar um umfang óupplýsts búðarhnupls í verslunum, og ef svo er, hvernig hefur áætlað umfang óupplýsts búðarhnupls í verslunum þróast síðastliðin fimm ár?
    Lögreglan hefur ekki upplýsingar um umfang óupplýsts búðarhnupls sem ekki er tilkynnt til lögreglu.

     3.      Hefur sjálfvirknivæðing í verslunum haft áhrif á umfang búðarhnupls á síðustu fimm árum, og ef svo er, hvernig?
    Lögreglan hefur ekki upplýsingar um það hvort sjálfvirknivæðing í verslunum hafi haft áhrif á umfang búðarhnupls á síðustu árum.

     4.      Hversu stóran hluta vöruverðs má rekja til kostnaðar sem framleiðendur, heildsalar og verslanir þurfa að standa undir vegna búðarhnupls?
     5.      Við hvaða erlendar rannsóknir, þar á meðal á Norðurlöndunum, er stuðst til að meta efnahagslegt og fjárhagslegt umfang og áhrif búðarhnupls?
    Hvað snertir svar við 4. og 5. tölul. fyrirspurnarinnar þá fellur ekki undir dómsmálaráðuneytið eða stofnanir þess að svara þeim og lögreglan hefur ekki þær upplýsingar sem þar er óskað eftir.

     6.      Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa í því skyni að takmarka búðarhnupl?
    Lögreglan hefur á ábyrgðarsviði sínu tiltekin lögbundin verkefni sem eru tilgreind í lögreglulögum, nr. 90/1996, lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008, og ýmsum sérlögum. Meðal þeirra verkefna er til dæmis að halda uppi lögum og reglu, tryggja réttaröryggi borgaranna, stemma stigu við afbrotum og vinna að uppljóstrun brota. Á síðustu árum hefur lögreglan fengið ýmsar viðbótarfjárheimildir til þess að styrkja starfsemi lögregluembættanna með margvíslegum hætti. Ríkisstjórnin og ráðherra hafa lagt áherslu á tiltekin mál innan lögreglunnar, til að mynda styttri málsmeðferðartíma kynferðisbrotamála og mönnun og menntun lögreglumanna, en að öðru leyti eftirlætur ráðherra lögreglunni að forgangsraða rannsóknarstarfsemi sinni með tilliti til fjármuna, mannafla og þarfa samfélagsins hverju sinni.