Ferill 1108. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2186  —  1108. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um heilbrigðisþjónustu fyrir útlendinga sem sætt hafa niðurfellingu réttinda.


     1.      Hvaða heilbrigðisþjónusta er í boði fyrir útlendinga sem sætt hafa niðurfellingu réttinda á grundvelli 8. mgr. 33. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016?
    Á grundvelli c-liðar 1. mgr. 33. gr. laga um útlendinga stendur umsækjendum um alþjóðlega vernd til boða nauðsynleg heilbrigðisþjónusta. Í því felst að íslenska ríkið greiðir allan kostnað sem hlýst af þjónustu sem fellur undir ákvæðið.
    Með lögum nr. 14/2023 tóku gildi ýmsar breytingar á lögum um útlendinga, svo sem um niðurfellingu réttinda. Í 8. mgr. 33. gr. er kveðið á um að réttindi skv. 33. gr. falli niður að liðnum 30 dögum frá endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi. Hins vegar sé ekki heimilt að fella niður rétt til bráðaheilbrigðisþjónustu. Í nefndaráliti og breytingartillögu meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar (þskj. 1274, 382. mál 153. löggjafarþings) er fjallað um bráðaheilbrigðisþjónustu og kemur þar fram að taka þurfi af allan vafa um að ekki sé heimilt að fella niður rétt einstaklinga í þessari stöðu til slíkrar þjónustu. Vísar meiri hlutinn í áliti sínu til réttinda á grundvelli þágildandi reglugerðar nr. 1552/2022, um heilbrigðisþjónustu við þá sem ekki eru sjúkratryggðir á Íslandi og greiðslur fyrir þjónustuna. Lagði meiri hlutinn til breytingu á frumvarpinu þess efnis að skýrt væri að bráðaheilbrigðisþjónusta verði undanþegin niðurfellingu réttinda. Segir í álitinu að mat á því hvað telst til bráðaþjónustu byggist á læknisfræðilegu mati hverju sinni.
    Réttur til heilbrigðisþjónustu skv. 1. mgr. 33. gr. laga um útlendinga felur, eins og áður segir, í sér að stjórnvöld greiða fyrir heilbrigðisþjónustu sem talin er nauðsynleg. Umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem sækja sér þjónustu sem ekki er talin nauðsynleg, þurfa að standa straum af kostnaði hennar samkvæmt þeim reglum sem gilda um greiðslur ósjúkratryggðra. Hið sama gildir eftir að réttindi 1. mgr. 33. gr. hafa verið felld niður á grundvelli 8. mgr. ákvæðisins og útlendingar greiða þá fyrir þjónustu sem telst ekki til bráðaheilbrigðisþjónustu.
    Í lögum um útlendinga eru engin ákvæði um það að heilbrigðisstofnun beri eða hafi heimild til að synja einstaklingi um heilbrigðisþjónustu sem fellur utan hugtaksins „bráðaheilbrigðisþjónusta“. Þá er ekkert í frumvarpinu eða öðrum gögnum með því sem gefur slíkt til kynna. Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um að niðurfelling réttar til heilbrigðisþjónustu hafi haft meiri háttar áhrif í framkvæmd þar sem útlendingar sem hafi fengið niðurfellingu réttinda njóti áfram nauðsynlegrar þjónustu og bráðaheilbrigðisþjónustu með greiðsluþátttöku ríkisins. Er þannig ekki sérstaklega skilgreint hvaða þjónusta fellur undir „bráðaheilbrigðisþjónustu“ í skilningi 8. mgr. heldur ræðst slíkt af læknisfræðilegu mati hverju sinni. Ráðuneytið telur hins vegar ljóst að þeir útlendingar sem um ræðir eigi rétt á gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu vegna slysa og skyndilegra og/eða alvarlegra veikinda.

     2.      Hversu margir einstaklingar í þessari stöðu hafa leitað eftir heilbrigðisþjónustu og verið vísað frá eftir gildistöku laga nr. 14/2023?
    Eins og fram kemur í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar er engum útlendingi, sem fengið hefur réttindi sín sem umsækjandi felld niður, synjað eða neitað um heilbrigðisþjónustu. Niðurfelling réttinda lýtur að greiðsluþátttöku vegna veittrar heilbrigðisþjónustu. Þegar einstaklingar í þessari stöðu sækja heilbrigðisþjónustu eru þeir skráðir sem ósjúkratryggðir af viðeigandi heilbrigðisstofnun, en þeim hópi tilheyra allir þeir einstaklingar sem ekki uppfylla skilyrði laga um sjúkratryggingar, nr. 112/2008, fyrir því að teljast sjúkratryggðir hér á landi, sbr. 10. gr. laganna. Ráðuneytið býr því ekki yfir upplýsingum um það hversu margir einstaklingar í þessari stöðu hafa leitað eftir heilbrigðisþjónustu eða ákveðið að nýta sér ekki tiltekna þjónustu vegna kostnaðar sem það kynni að hafa í för með sér.

     3.      Hver greiðir veitta heilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga í þessari stöðu?
    Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið aflaði frá dómsmálaráðuneytinu greiðir ríkislögreglustjóri fyrir heilbrigðisþjónustu til einstaklinga sem hafa fengið réttindi sín felld niður af fjármagni sem hann hefur til umráða frá dómsmálaráðuneytinu vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd.

     4.      Telur ráðherra að fyrirkomulagið sé vænlegt til frambúðar?
    Í samræmi við svör við 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar á að vera tryggt að allir sem þurfa fá veitta aðstoð. Ákvörðun um réttindi útlendinga sem fengið hafa endanlega synjun á umsókn um alþjóðlega vernd heyrir undir málefnasvið dómsmálaráðuneytisins sem fer með málefni útlendinga og umsækjenda um alþjóðlega vernd. Frá gildistöku laga nr. 14/2023 hefur ráðuneytið ekki fengið upplýsingar sem benda til þess að greiðsluþátttaka vegna heilbrigðisþjónustu við þá útlendinga, sem fengið hafa endanlega synjun, hafi verið skert með slíkum hætti að það kunni að fara í bága við þær skuldbindingar sem heilbrigðisyfirvöld eru bundin af samkvæmt lögum og alþjóðlegum samningum. Hefur ráðuneytið þannig ekki talið tilefni til að óska eftir endurskoðun á þeim þætti sem snýr að heilbrigðisþjónustu við umrædda einstaklinga.

     5.      Eru einhverjar breytingar á fyrirkomulaginu í undirbúningi í ráðuneytinu? Ef svo er, hvers eðlis eru breytingarnar og hversu langt er undirbúningur kominn?
    Í samræmi við framangreind svör hafa ekki verið tilefni hingað til sem kalla á endurskoðun eða breytingar, enda áhersla lögð á að veita nauðsynlega heilbrigðisþjónustu.