Ferill 1132. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2201  —  1132. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um áhrif sölu áfengis á framleiðslustað.


     1.      Hver var niðurstaða lýðheilsumats á áhrifum laga um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998 (sala á framleiðslustað), sbr. umfjöllun í nefndaráliti á þskj. 1248 á 152. löggjafarþingi frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar?
    Í nefndaráliti meirihluta allsherjar- og menntamálanefndar er því beint til ráðherra að embætti landlæknis verði falið að framkvæma lýðheilsumat á áhrifum breytinganna sem af löggjöfinni leiddu og að farið verði í mótvægisaðgerðir er slíkt mat liggur fyrir. Dómsmálaráðuneytið bendir á að málefni er varða lýðheilsu og forvarnir, þar á meðal áfengis- og vímuvarnir, heyra undir heilbrigðisráðuneytið, sbr. b-lið 5. tölul. 6. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Er góðfúslega bent á að rétt sé að beina fyrirspurninni til þess ráðuneytis.

     2.      Hvaða mótvægisaðgerðir hefur verið farið í eftir lagabreytingarnar vegna forvarna og lýðheilsusjónarmiða?
    Sjá svar við 1. tölul. fyrirspurnar.

     3.      Hvaða fyrirmæli hefur ráðherra sett í reglugerð varðandi hámarksmagn drykkja sem heimilt er að selja í smásölu á framleiðslustað, sbr. 5. mgr. 5. gr. áfengislaga og umfjöllun í fyrrgreindu nefndaráliti?
    Í fyrrgreindu nefndaráliti er vísað til þess að rétt þætti að mæla fyrir um það að ráðherra setji reglugerð um hámarksmagn drykkja sem heimilt er að selja í smásölu á framleiðslustað hverju sinni, í ljósi markmiða frumvarpsins og með hliðsjón af lýðheilsusjónarmiðum. Þá væri eðlilegt að magntakmarkanir væru þær sömu og finna má í 4. gr. reglugerðar um ýmis tollfríðindi, nr. 630/2008, sem mæla fyrir um að ferðamönnum sé heimilt að flytja tollfrjálst inn áfengi, sbr. A-lið. Um er að ræða 1 lítra af sterku áfengi og 1 lítra af léttvíni, 3 lítra af léttvíni eða 1 lítra af sterku áfengi eða 1,5 lítra af léttvíni og 6 lítra af öli. Ráðherra hefur enn sem komið er ekki sett fyrirmæli um hámarksmagn drykkja sem heimilt er að kaupa.

     4.      Hversu margir framleiðendur hafa fengið leyfi til þess að selja áfengi á framleiðslustað?
    Samkvæmt aðgengilegum upplýsingum á vef Stafræns Íslands, island.is, hafa tíu framleiðendur fengið leyfi til smásölu áfengis á framleiðslustað.