Ferill 896. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2207  —  896. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Dagbjörtu Hákonardóttur um uppljóstrara.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margir uppljóstrarar hafa starfað fyrir lögreglu á grundvelli reglugerðar nr. 516/2011 frá setningu reglugerðarinnar, sbr. 89. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008? Svar óskast óháð því hvort um fast upplýsingasamband hefur verið að ræða eður ei.
     2.      Hversu margir sakborningar eða grunaðir hafa verið viðfang slíkra aðgerða?
     3.      Hversu margir sakborningar eða grunaðir hafa verið upplýstir um slíka aðgerð eftir að henni lauk?
     4.      Hversu margir sem sætt hafa slíkum aðgerðum hafa sætt ákæru í framhaldi af þeim?
    Svör í öllum töluliðum óskast sundurliðuð eftir kyni uppljóstrara, lögreglustjóraembættum sem og þeim árum sem upplýsingasamband hófst.


    Við vinnslu svars við fyrirspurninni óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra sem óskaði upplýsinga frá öllum lögregluembættunum og héraðssaksóknara. Eftirfarandi svar byggir á þeim upplýsingum.

    Tafla: Fjöldi uppljóstrara hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eftir ártali.

Ár Karl Kona Fjöldi
2011 11 1 12
2012 11 5 16
2013 14 4 18
2014 14 4 18
2015 12 6 18
2016 24 3 27
2017 8 3 11
2018 8 2 10
2019 5 1 6
2020 4 1 5
2021 5 2 7
2022 11 5 16
2023 16 7 23
jan–maí 2024 9 0 9

Samtals

152
44 196

    Uppljóstrarar hafa starfað fyrir embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu en engin önnur lögregluembætti. Fjöldi uppljóstrara hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá 2011 til og með því sem af er ári 2024 er 196 einstaklingar.
    Uppljóstrari er í mjög viðkvæmri stöðu og ber lögreglu að viðhafa leynd um hver hann er, sbr. 3. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 516/2011. Ekki er haldin skrá um það hvort grunaðir einstaklingar eða sakborningar í málum hafi fengið þá stöðu vegna upplýsinga sem stafa frá uppljóstrurum enda geta þær upplýsingar annaðhvort leitt til þess að rannsókn verði hafin eða nýst við rannsókn sem þegar er hafin. Einnig er vert að taka fram að upplýsingar frá uppljóstrurum geta annaðhvort borist lögreglu að frumkvæði uppljóstrara eða með þeim hætti að lögregla leiti eftir upplýsingum frá tilteknum uppljóstrurum sem ætla má að búi yfir upplýsingum um tiltekna háttsemi sem til rannsóknar er.
    Í 5. gr. reglugerðar nr. 516/2011 er að finna meginreglu þess efnis að þegar aðferð eða aðgerð lögreglu samkvæmt reglunum er lokið skuli lögregla tilkynna þeim sem aðgerðin beindist að um hana án tafar, þó þannig að það skaði ekki frekari rannsókn málsins. Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu lítur svo á að tilkynning, sbr. 5. gr. reglugerðarinnar, eigi ekki við um upplýsingar sem stafa frá uppljóstrara enda fái sú túlkun stoð í 3. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 516/2011 þar sem kemur fram að tryggja skuli nafnleynd og trúnað við uppljóstrara á öllum stigum rannsóknar og eftir að henni lýkur. Auðvelt getur verið fyrir grunaðan einstakling eða sakborning í máli að átta sig á hvaðan upplýsingar um hann hafi borist lögreglu, verði hann upplýstur um að þær stafi frá uppljóstrara, hvort sem það er meðan á rannsókn stendur eða eftir að henni er lokið.
    Gert er ráð fyrir að 2.–4. tölul. fyrirspurnarinnar varði fjölda einstaklinga sem hafa verið grunaðir um refsiverða háttsemi og/eða fengið réttarstöðu sakbornings við sakamálarannsókn sem til hefur verið stofnað vegna upplýsinga frá uppljóstrara. Í gögnum embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er ekki að finna tölfræði sem sýnir hversu margir sakborningar eða grunaðir hafi verið viðfang slíkra aðgerða né heldur yfir það hversu margir þeirra hafi sætt ákæru. Hvað snertir fjölda sakborninga eða grunaðra sem hafa verið upplýstir um slíka aðgerð eftir að henni lauk vísast til þess sem að framan greinir.