Ferill 1183. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2216  —  1183. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um þjónustu við einstaklinga með endómetríósu.


     1.      Hversu margir starfa í endómetríósuteymi kvennadeildar Landspítala og hver er faglegur bakgrunnur þeirra?
    
Í teyminu starfa hjúkrunarfræðingur, sérfræðingur í kvensjúkdóma- og fæðingarlækningum, sálfræðingur, aðilar úr verkjateymi Landspítala (sérfræðilæknar og sérfræðingur í hjúkrun) og sérhæfðir sjúkraþjálfarar, og er félagsráðgjafi kvennadeildar hluti af teyminu. Fyrir utan þá sem sinna teymisvinnunni formlega kemur allt starfsfólk deildarinnar að umönnun sjúklinga með endómetríósu á einhverjum tímapunkti, við bráðainnlagnir, greiningaraðgerðir og einnig við flóknari skurðaðgerðir.
    Eitt stöðugildi hjúkrunarfræðings, eitt stöðugildi sérfræðilæknis og hálft stöðugildi sálfræðings eru alfarið tileinkuð teyminu. Annað fagfólk sinnir fleiri verkefnum á sjúkrahúsinu þessu samhliða.

     2.      Hvað eru margir einstaklingar á biðlista eftir þjónustu hjá teyminu?
    Hinn 22. júlí 2024 biðu níu einstaklingar eftir fyrsta tíma hjá endómetríósuteyminu. Af þeim voru þrír með bókaðan tíma og höfðu tveir fengið boð um tíma en afbókað eða frestað tímabókun. Hjá þeim fjórum sem ekki höfðu fengið boð um tíma var biðtími innan viðmiðunarmarka.

     3.      Hver hefur biðtími eftir þjónustu teymisins verið síðan það var sett á fót árið 2017? Svar óskast sundurliðað eftir árum og meðalbiðtíma, lengsta biðtíma og stysta biðtíma.

    Haldið er utan um biðlista í rauntíma en gögn um stöðu biðlista aftur í tímann með sundurliðun liggja ekki fyrir.
    Notast er við viðmið embættis landlæknis um biðtíma eftir heilbrigðisþjónustu sem á að vera innan 90 daga eftir meðferð hjá sérhæfðu teymi. Bráðleiki fer eftir ástandi sem lýst er í tilvísun og er þeim sem eru í bráðri þörf forgangsraðað í samræmi við ástand.
    Í eftirfarandi töflu má sjá stöðu biðlista á tilteknum dagsetningum sl. tvö ár.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.