Ferill 1188. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2225  —  1188. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni um kennslu í kynhlutlausu máli.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Eru dæmi um að í grunnskólum hafi verið tekin upp kennsla í breyttri íslenskri málfræði, svokölluðu kynjamáli eða kynhlutlausu máli, eða lögð fyrir próf í því?

    Samkvæmt forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022, fer menningar- og viðskiptaráðuneyti með málefni íslenskunnar en áður heyrði málefnið undir mennta- og menningarmálaráðuneyti. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, nr. 61/2011, bera ríki og sveitarfélög ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð. Um málstefnu og stöðu íslenskrar tungu skal leitað samvinnu við Íslenska málnefnd. Hlutverk þeirrar nefndar er að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli og gera tillögur til ráðherra um málstefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 6. gr. laganna. Þingsályktun um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi, nr. 36/149, er frá árinu 2019 og þá fór fram endurskoðun á íslenskri málstefnu á vettvangi Íslenskrar málnefndar árin 2020–2021 sem gildir fyrir árin 2021–2030. Með hliðsjón af tillögum Íslenskrar málnefndar að endurskoðaðri málstefnu voru forgangsverkefni stjórnvalda skilgreind í aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2024–2026, sbr. þingsályktun nr. 15/154. Ekki er vikið að kynhlutlausu máli í ályktunum og engin aðgerð tengist því sérstaklega.
    Í þessu samhengi má benda á að Alþingi samþykkti árið 2020 ný heildarlög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020. Með lögunum var m.a. gildissvið laganna útvíkkað svo þau taki til fólks með hlutlausa kynskráningu. Samkvæmt 1. gr. laganna er markmið þeirra að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Markmiði þessu skal náð með því m.a. að gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins. Alþingi samþykkti einnig árið 2019 lög um kynrænt sjálfræði, nr. 80/2019, sem kveða á um rétt einstaklinga til að skilgreina eigið kyn, þar á meðal með hlutlausri skráningu kyns. Í framangreindum lögum er leitast við að hafa málsniðið kynhlutlausara og hefur slíkt málsnið m.a. átt sinn þátt í áframhaldandi umræðu um kynhlutlausa málnotkun, sbr. t.d. fyrirspurn til forsætisráðherra um kynhlutlausa málnotkun á 151. löggjafarþingi (þskj. 73, 73. mál) og skýrslu Íslenskrar málnefndar um kynhlutlausa málnotkun frá árinu 2021 1 . Í skýrslu Íslenskrar málnefndar er tekið fram að engar einfaldar lausnir séu til og að yfirvöld menntamála þurfi að marka stefnu sem nái til allra skólastiga. Í skýrslunni er auk þess bent á ýmsar leiðir sem hægt er að fara þegar stefnt er að kynhlutleysi í máli.
    Ráðuneytinu er ekki kunnugt um að í grunnskólum hafi farið fram kennsla um breytta íslenska málfræði eða að námsefni á vegum opinberra aðila um kynhlutlausa málnotkun hafi verið gefið út fyrir grunnskóla. Þá hefur hið opinbera ekki lagt fyrir grunnskólanemendur próf þar sem reynir á hæfni í að beita kynhlutlausu máli og ráðuneytinu er ekki kunnugt um að slík próf hafi verið lögð fyrir í einstökum grunnskólum.


1    Skýrsla um kynhlutlaust mál frá ágúst 2021:
islenskan.is/wp-content/uploads/2022/12/Skyrsla-um-kynhlutlaust-mal.pdf. Töluverð umræða skapaðist um skýrsluna, sjá t.d.:
.islenskan.is/wp-content/uploads/2022/12/Bref-til-malnefndar-kynhlutlaust_mal.pdf.