Ferill 1071. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2233  —  1071. mál.




Svar


forsætisráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um aðgerðir gegn kynskiptum vinnumarkaði.


     1.      Hver eru næstu skref sem ráðherra sér fyrir sér í tengslum við endurmat á virði kvennastarfa?
    Í tengslum við kjarasamninga á almennum markaði var undirrituð yfirlýsing ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga 7. mars sl. Í yfirlýsingunni segir að til að útrýma launamun sem skýrist af kynskiptum vinnumarkaði og kerfisbundnu vanmati á hefðbundnum kvennastörfum verði unnið að virðismatskerfi sem byggist á tillögum aðgerðahóps um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði. Forsætisráðuneytið hefur óskað eftir tilnefningum frá aðilum vinnumarkaðarins í nýjan stýrihóp sem mun hafa það hlutverk að fylgja eftir yfirlýsingunni.

     2.      Hvaða beinu aðgerðir telur ráðherra best fallnar til að vinna gegn kynskiptum vinnumarkaði?
    Aðgerðahópur um launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði skilaði forsætisráðherra tillögum sínum í janúar 2024 þar sem kemur fram að ein meginástæða kynbundins launamunar sé hinn kynskipti vinnumarkaður og vanmat á störfum kvenna. Þannig kemur fram í rannsókn Hagstofu Íslands frá 2021 að „kynbundin skipting vinnumarkaðarins í störf og atvinnugreinar skýrir að miklu leyti þann launamun sem enn er til staðar en áhrif menntunarstigs og lýðfræðilegra þátta á launamun hafa minnkað, einkum seinni árin.“
    Líkt og kemur fram í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar stendur til að byggja virðismatskerfi sem spornar gegn óeðlilegum launamun sem getur hlotist af kynskiptum vinnumarkaði. Slíkt kerfi kemur þó aldrei í stað þess að tryggja almenn réttindi einstaklinga til þess að allir geti fundið hæfileikum sínum sem bestan farveg. Þá er álitamál hversu mikil kynskipting, í hlutfalli kynja í tilteknum stéttum, er tilefni til þess vinna gegn henni.

     3.      Hefur verið metið hvernig ólíkar leiðir til launasetningar samræmast aðferðafræði við virðismat starfa og sérstaklega hvaða áhrif stofnanasamningar hafa á kynbundinn launamun?
    Þeir þættir sem spurt er um í 3. og 4. lið fyrirspurnarinnar hafa ekki verið skoðaðir í forsætisráðuneytinu. Fjármála- og efnahagsráðuneytið, nánar tiltekið Kjara- og mannauðssýsla ríkisins, fer samkvæmt forsetaúrskurði með starfsmannamál ríkisins, þar á meðal launa- og kjaramál. Fyrirspyrjanda er bent á að leita þangað.

     4.      Hvaða mat fer fram á áhrifum kjarasamninga ríkisins á launamun kynjanna?
    Sjá svar við 3. lið fyrirspurnarinnar.