Ferill 1167. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2255  —  1167. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Bergþóri Ólasyni um svindl á ökuprófi.


     1.      Hefur verið gripið til aðgerða vegna frétta af svindli manna á ökuprófi með notkun hjálpartækja, svo sem farsíma, og/eða með hjálp aðstoðarmanns?
    Í kjölfar umfjöllunar Morgunblaðsins 13. mars sl. um svindl á leyfishafanámskeiðum til leigubifreiðaaksturs sendi Samgöngustofa erindi á Ökuskólann í Mjódd og óskaði eftir upplýsingum og viðbrögðum og ítrekaði að notkun síma í prófum væri bönnuð. Í framhaldinu hefur stofnunin farið í tvær eftirlitsheimsóknir og gert athugasemdir og átt samtal við námskeiðshaldara um hvað betur megi fara.
    Lokaskýrsla sem unnin var í kjölfar eftirlitsins var send Ökuskólanum sem greip til aðgerða í kjölfarið, m.a. með því að setja fram próf á bæði íslensku og ensku, banna síma og auka eftirlit með próftöku.

     2.      Kemur til greina að ógilda réttindi þar sem svo háttaði til og láta viðkomandi endurtaka prófið?
    Ekki liggja fyrir staðfestar upplýsingar um tiltekna atvinnu- eða rekstrarleyfishafa sem hafa svindlað á prófum og hefur þar af leiðandi ekki verið tekin ákvörðun um að ógilda réttindi.