Ferill 1150. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2258  —  1150. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um misnotkun á kennitölum í tengslum við þjónustu og fyrirgreiðslu af hálfu undirstofnana ráðuneytisins.


     1.      Hvernig er eftirliti háttað með því að fyrirgreiðsla og þjónusta af hálfu stofnana sem heyra undir ráðherra sem veitt er á grundvelli kennitölu sé ekki misnotuð?
    Ráðuneytið hefur leitað upplýsinga hjá stofnunum sínum um fyrirkomulag eftirlits með misnotkun á kennitölum svo að upplýsingar eða greiðslur renni ekki til rangra aðila. Eðli og starfsemi stofnana ræður hér nokkru en sumar þeirra veita enga þjónustu á grundvelli kennitölu, svo sem úrskurðarnefnd velferðarmála og ríkissáttasemjari, og eftirlit því óþarft.
    Þær stofnanir sem þurfa sérstaklega að gæta að þessu eftirliti í starfsemi sinni eru Tryggingastofnun og Vinnumálastofnun.
    Hjá Tryggingastofnun fara allar umsóknir um greiðslur í gegnum Mínar síður TR en til þess að sækja um þarf rafræn skilríki og auðkenni. Tryggingastofnun er með virkt eftirlit á mismunandi stigum eftir ferli umsókna. Sem dæmi er eftirliti m.a. háttað þannig að einu sinni á ári er kallað eftir lífsvottorðum einstaklinga sem búsettir eru erlendis. Þá eru reglulega teknir út listar yfir ákveðna greiðsluflokka sem eftirlitsteymi stofnunarinnar fer yfir og sendir hún bréf vegna þeirra ef grunur vaknar um eitthvað athugavert. Þá er fólk kallað til viðtals ef grunur vaknar um ólögmæti greiðslna.
    Hjá Vinnumálastofnun er jafnframt stuðst við rafræn skilríki við umsóknir til stofnunarinnar og umsækjandi verður að gera grein fyrir sjálfum sér með óyggjandi hætti.
    Flestar umsóknir um atvinnuleysistryggingar berast rafrænt þar sem notast er við rafræn skilríki. Stofnunin skilgreinir eftirlit sitt með umsóknum um atvinnuleysisbætur og greiðslu þeirra með eftirfarandi hætti:
     a.      Forvirkt eftirlit.
                      Sannreynt er að umsækjandi sé sá er hann segist vera, m.a. með notkun rafrænna skilríkja. Við umsókn eru umsækjanda kynntar helstu reglur sjóðsins. Sannreynt er með vefkalli við Reiknistofu bankanna að uppgefið reikningsnúmer sem greiðslur eigi að berast til sé í eigu viðkomandi umsækjanda. Vefkall til Skattsins sannreynir hvort uppgefin vinnusaga í umsókn samræmist greiðslum á staðgreiðslu.
     b.      Samtímaeftirlit.
                      Umsókn viðkomandi er yfirfarin og eftir atvikum er óskað frekari gagna. Dæmi um gögn sem óskað er eftir eru staðfesting starfstímabils frá vinnuveitanda, upplýsingar frá viðkomandi stéttarfélagi og upplýsingar frá menntastofnunum. Mæti umsækjandi á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar þarf hann að framvísa gildum skilríkjum áður en honum er veitt aðstoð við að sækja um atvinnuleysistryggingar.
     c.      Eftirlit framkvæmt eftir á.
                      Eftirlit með atvinnuleysistryggingum sem framkvæmt er eftir á er mjög fjölbreytt. Stofnunin á í reglulegu samtali við þjónustuþega á yfirstandandi bótatímabili. Einstaklingum er boðið að taka þátt í ýmiss konar vinnumarkaðsaðgerðum sem ávallt kalla á að viðkomandi geri grein fyrir sjálfum sér, annað hvort beint til Vinnumálastofnunar eða til þriðja aðila. Á skyldubundnum fundum og í vinnumarkaðsúrræðum stofnunarinnar ber atvinnuleitanda alltaf að framvísa gildum skilríkjum. Enn fremur viðhefur stofnunin reglubundið eftirlit með samkeyrslum við opinbera aðila á borð við Skattinn, menntastofnanir og Samgöngustofu, sem felur m.a. í sér að sannreynt sé hver viðkomandi er.

    Vinnumálastofnun skilgreinir eftirlit sitt með umsýslu Fæðingarorlofssjóðs með eftirfarandi hætti:
     a.      Forvirkt eftirlit.
                      Sannreynt er að umsækjandi sé sá er hann segist vera. Við umsókn eru umsækjanda kynntar helstu reglur sjóðsins. Upplýsingar eru sóttar um umsækjanda til Þjóðskrár. Sannreynt er með vefkalli við Reiknistofu bankanna að uppgefið reikningsnúmer sem greiðslur eigi að berast til sé í eigu viðkomandi umsækjanda. Samhliða umsókn þarf vinnuveitandi umsækjanda að staðfesta umsókn um fæðingarorlof. Vefkall við Heilsuveru staðfestir að umsækjandi eigi von á barni.
     b.      Samtímaeftirlit.
                      Vefkall er við Þjóðskrá sem staðfestir að barn umsækjanda hafi fæðst. Upplýsingar um tekjur eru sóttar til Skattsins. Við vinnslu umsókna berast iðulega gögn frá ytri aðilum um umsækjendur, svo sem menntastofnunum, heilbrigðisstofnunum, Sjúkratryggingum, Tryggingastofnun ríkisins, stéttarfélögum og vinnuveitendum.
     c.      Eftirlit framkvæmt eftir á.
                      Eftir að greiðslur hefjast eru framkvæmdar mánaðarlegar samkeyrslur við skrár skattyfirvalda og Atvinnuleysistryggingasjóð.

    Vinnumálastofnun skilgreinir eftirlit sitt með umsýslu Ábyrgðasjóðs launa með eftirfarandi hætti:
     a.      Forvirkt eftirlit.
                      Umsóknir til sjóðsins berast oftast frá umboðsmanni (lögmanni), stéttarfélagi eða lífeyrissjóði. Þessir aðilar eru ávallt að sækja réttindi á greiðslum fyrir hönd umbjóðenda. Það fer eftir eðli umsóknar hvort undirritað umboð fylgir með. Sannreynt er með aðstoð Reiknistofu bankanna að samsvörun sé á milli kennitölu þess sem greiðsla eigi að berast til og reikningsnúmers viðkomandi.
     b.      Samtímaeftirlit.
                      Samkeyrt er við Atvinnuleysistryggingasjóð hvort umsækjandi á grundvelli gjaldþrots fyrirtækis hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur á sama tímabili og sótt er um til Ábyrgðasjóðs launa. Með því er stuðst við auðkenningu á borð við innskráningu á island.is og þannig sannreynt, sbr. a- og b-lið Atvinnuleysistryggingasjóðs.
     c.      Eftirlit framkvæmt eftir á.
                      Sökum eðli umsókna og afgreiðslu réttinda hjá sjóðnum kemur þessi þáttur almennt ekki til skoðunar.

     2.      Hvaða upplýsingar liggja fyrir um fjölda tilvika þar sem misnotkun á kennitölu hefur verið staðfest hjá stofnunum sem heyra undir ráðherra og sinna þjónustu við borgarana?
    Tryggingastofnun telur örfá tilvik sem hafa komið upp þar sem einhvers konar misnotkun á kennitölum hefur verið staðfest til að fá greiddar bætur eða hærri bætur, sem viðkomandi átti ekki rétt á. Stofnunin nefnir eitt dæmi þar sem látinn einstaklingur hafði ekki verið skráður látinn svo að áfram yrðu greiddar bætur vegna hans sem ættingi eða annar nýtti sér. Þá hefur komið upp tilvik þar sem einstaklingur var sagður yngri en hann var, þ.e. röng kennitala var skráð í Þjóðskrá, til að sækja hærri bætur.
    Vinnumálastofnun nefnir tvö tilvik um misnotkun á kennitölum sem tengdist atvinnuleysistryggingum sem tilkynnt voru til lögreglu.
    Aðrar stofnanir ráðuneytisins geta ekki tiltekið nein tilvik um misnotkun.

     3.      Til hvaða ráðstafana hefur ráðherra gripið til að draga úr misnotkun af umræddu tagi hjá undirstofnunum sínum?
    Ráðuneytið fylgist reglubundið með starfsemi sinna stofnana, þar á meðal aðgerðum til að koma í veg fyrir misnotkun á greiðslum. Ekki hefur verið ástæða til að grípa til neinna sérstakra ráðstafana vegna þessa, umfram það sem stofnanirnar sjálfar hafa skipulagt og rakið er hér að framan.

     4.      Hvaða áform hefur ráðherra um frekari aðgerðir í þessu efni?
    Sjá svar við 3. tölul. fyrirspurnarinnar.