Ferill 732. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 2269  —  732. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Líneik Önnu Sævarsdóttur um mat á menntun innflytjenda.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvaða stofnanir á málefnasviði ráðuneytisins koma að mati á menntun innflytjenda?
     2.      Hverjar eru skyldur háskóla við mat á námi innflytjenda?
     3.      Hverjar eru skyldur háskóla til að leiðbeina fólki með prófgráður frá erlendum skólum um leiðir til að bæta við sig námi til að öðlast starfsréttindi hér á landi?
     4.      Hverjar eru skyldur háskóla til að bjóða upp á eða benda á námskeið eða námsleiðir sem fólk með menntun frá erlendum skólum kann að vanta til að öðlast starfsréttindi hér á landi?


    Almennt gildir sú regla að mat á erlendu námi fer fram á sama hátt hvort sem um er að ræða erlenda eða íslenska ríkisborgara, enda hafa fjölmargir Íslendingar lært iðn og stundað nám erlendis og hafa því einnig þörf fyrir að fá menntun sína metna. Fjölmargir aðilar koma að mati á menntun hér á landi, hvort sem um er að ræða háskólamenntun, iðnmenntun eða aðra menntun. ENIC/NARIC skrifstofan á Íslandi sinnir akademísku mati á erlendu námi fyrir stofnanir, háskóla, ráðuneyti, einstaklinga og fyrirtæki. ENIC/NARIC sér einstaklingum, háskólum, vinnuveitendum, fagfélögum, yfirvöldum og öðrum hagsmunaaðilum fyrir áreiðanlegum og nákvæmum upplýsingum um prófgráður, menntakerfi og matsferli. Henni er ætlað að vera meginupplýsingamiðstöð Íslands um prófgráður og mat á námi.
    Frá og með 1. febrúar sl. tók ENIC/NARIC skrifstofan við umsýslu með mati á öllu erlendu iðnnámi. Faglega matið er þó eftir sem áður hjá fagfélögum og réttindin eru veitt af þar til bærum aðilum, sem flestir falla undir ábyrgð annarra ráðuneyta. Þessu verkefni var áður sinnt hjá Menntamálastofnun og heyrði undir mennta- og barnamálaráðuneyti, en fluttist til háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis með breytingu á forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands í febrúar 2023.
    Hlutverk ráðuneytisins er ekki að leggja mat á menntun heldur að gefa út leyfisbréf að undangenginni málsmeðferð þar sem m.a. er leitað umsagnar fagfélaga. Þegar slík umsókn berst ráðuneytinu, hvort sem hún er frá íslenskum eða erlendum ríkisborgara, er umsóknin send viðeigandi fagfélagi sem hefur tvo mánuði til að veita ráðuneytinu umsögn. Jafnframt eru aðrir aðilar sem veita leyfi, m.a. stofnanir og ráðuneyti eins og mennta- og barnamálaráðuneyti, embætti landlæknis, sýslumaðurinn á Austurlandi og fleiri aðilar.
    Ráðuneytið fer einnig með framkvæmd laga um löggildingu nokkurra starfsheita sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum, nr. 8/1996, og gefur út leyfi til að nota ýmis starfsheiti sérfræðinga í tækni- og hönnunargreinum. Þar er einnig leitað umsagnar fagfélaga eins og Verkfræðingafélags Íslands, Félags tölvunarfræðinga o.fl. Í þessu sambandi er rétt að vísa til átaks ráðherra um fækkun lögverndaðra iðngreina sem ýmist voru ekki lengur kenndar eða stundaðar hér á landi. Helstu rökin fyrir því að viðhalda lögverndun starfsheita eru þegar það þjónar almannahagsmunum eins og að stuðla að velferð almennings.
    Stór þáttur í þeirri þróun sem átt hefur sér stað við mat á menntun hér á landi er vegna ýmissa alþjóðlegra skuldbindinga sem Ísland hefur gengist undir á undanförnum áratugum. Ísland hefur tekið virkan þátt í því samstarfi sem á sér stað á alþjóðlegum vettvangi sem viðkemur mati á námi. Má hér nefna Lissabon-sáttmálann um viðurkenningu prófgráða erlendis sem undirrituð var árið 1997. Í henni er m.a. kveðið á um að þau ríki sem koma að sáttmálanum viðurkenni framhalds- og háskólamenntun sem sambærilega milli landa nema sýnt sé fram á verulegan mun á náminu (e. substantial difference). Í 7. gr. Lissabon-sáttmálans er einnig kveðið á um að öll aðildarríki þrói verkferla til að meta fyrra nám flóttafólks, jafnvel þótt flóttamaður geti ekki lagt fram fullnægjandi gögn um nám sitt. ENIC/NARIC skrifstofan býður fólki með stöðu flóttamanns hér á landi (ekki hælisleitendum), sem hefur enga leið til að nálgast gögnin sín, bakgrunnsskýrslu.
    Með aðild Íslands að samningi UNESCO um gagnkvæma viðurkenningu námsgráða á heimsvísu (e. Global Convention on the Recognition of Qualifications concerning Higher Education) árið 2022 fylgir skuldbinding um að framfylgja reglum um viðurkenningu menntunar, prófgráða og skírteina milli aðildarlanda samningsins. Markmið samningsins er að auðvelda fólki að flytja menntun sína á milli landa og fá hæfnismat fyrir það nám sem það hefur lokið í öðrum löndum. Í svonefndri Reykjavíkuryfirlýsingu frá árinu 2004 um aukna samvinnu þegar kemur að akademísku mati á námi íbúa á Norðurlöndunum er fjallað um aukna samvinnu við viðurkenningu á menntun á Norðurlöndunum, samstarf Norðurlandanna til að viðhalda gegnsæi og trausti sem nauðsynlegt er fyrir framkvæmd viðurkenningar, öflugra samstarf o.s.frv.
    Þegar erlendur ríkisborgari sækir um nám á háskólastigi hér á landi senda háskólarnir í flestum tilvikum fylgigögnin til ENIC/NARIC skrifstofunnar sem metur það nám sem einstaklingurinn hefur þegar aflað sér. Mat ENIC/NARIC er ráðgefandi, enda er innritun í háskóla lögum samkvæmt að öllu leyti á ábyrgð rektors þess skóla sem einstaklingurinn hefur sótt um nám í. Í einhverjum tilfellum þarf ekki að leita slíkrar umsagnar og á það m.a. við um einstaklinga frá ríkjum þar sem námið er vel þekkt og tekur þá viðkomandi háskóladeild sjálf fyrir umsókn einstaklings.
    Háskólum ber almennt ekki skylda til að leiðbeina fólki með prófgráður. Þær deildir innan háskóla hér á landi sem hafa með mat á námi að gera fara fyrst og fremst eftir þeim lögum og alþjóðaskuldbindingum sem um þær gilda. Matið greinir í flestum tilvikum frá því hvað umsækjanda vantar upp á til að uppfylla skilyrði. Ekki er nákvæmlega farið yfir það hvað einstaklingur þarf að gera til að öðlast þau réttindi sem honum kann að hafa verið synjað um. Í einhverjum tilfellum getur einstaklingur óskað eftir frekari leiðbeiningum en mjög mismunandi er hvaða leiðir eru í boði ef um slíkt er að ræða. Einstaklingur þarf í flestum tilvikum að leita til deildar sem kennir það nám sem veitir þau starfsréttindi sem viðkomandi hefur áhuga á og óska eftir mati á fyrra námi og aðstoð við að ljúka því sem upp á vantar til að öðlast starfsréttindin.
    Rétt er að taka fram að einstaklingar geta leitað til háskóladeilda eftir leiðbeiningum um hvaða námi þarf að ljúka til að öðlast starfsréttindi ef mat á fyrra námi til starfsréttinda hefur leitt til synjunar.
    Að endingu er rétt að taka fram að unnið er að einfaldaðri framsetningu upplýsinga fyrir mat á námi innflytjenda í gegnum island.is og verða þær upplýsingar aðgengilegar á helstu erlendu málum svo að þær nái til sem flestra. Þar á meðal eru upplýsingar um hvert skuli leita í hverju tilviki með mat á námi og starfsréttindum, hvaða stjórnvald annist útgáfu starfsréttinda að undangengnu mati á námi og fleiri upplýsingar þessu tengdar. Vonast er til að nýta megi ENIC/NARIC landsskrifstofuna sem aðalviðkomustað þeirra sem þurfa að fá nám sitt metið til starfa eða frekara náms hér á landi. Takist það vel upp er stigið stórt skref í þá átt að einfalda ferlið fyrir mat á námi innflytjenda.