Ferill 28. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


155. löggjafarþing 2024–2025.
Þingskjal 28  —  28. mál.




Frumvarp til laga


um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga (eingreiðsla).

Flm.: Inga Sæland, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon, Tómas A. Tómasson.


I. KAFLI
Breyting á lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007.
1. gr.

    Á eftir 23. gr. laganna kemur ný grein, 23. gr. a, sem orðast svo:
    Þeir einstaklingar sem eiga rétt á greiðslu ellilífeyris skv. 17. gr. og hafa óskertan ellilífeyri almannatrygginga skulu fá eingreiðslu að fjárhæð 70.364 kr. eigi síðar en 1. desember, ár hvert. Hafi lífeyrisþegi fengið greitt hluta úr ári skal eingreiðslan vera í hlutfalli við greiðsluréttindi hans á árinu. Eingreiðsla þessi skal ekki teljast til tekna greiðsluþega og ekki leiða til skerðingar annarra greiðslna.

2. gr.

    Á eftir 31. gr. laganna kemur ný grein, 31. gr. a, sem orðast svo:
    Þeir sem eiga rétt á greiðslu örorkulífeyris skv. 24. gr., sbr. 26. gr., eða endurhæfingarlífeyris skv. 7. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, skulu fá eingreiðslu að fjárhæð 70.364 kr. eigi síðar en 1. desember ár hvert. Hafi lífeyrisþegi fengið greitt hluta úr ári skal eingreiðslan vera í hlutfalli við greiðsluréttindi hans á árinu. Eingreiðsla þessi skal ekki teljast til tekna greiðsluþega og ekki leiða til skerðingar annarra greiðslna.

II. KAFLI
Breyting á lögum um breytingu á ýmsum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga, nr. 104/2024.
3. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist nýr stafliður, i-liður (31. gr. a), sem orðast svo:
    Þeir sem eiga rétt á greiðslu örorkulífeyris skv. 24. gr., hlutaörorkulífeyri skv. 25. gr. eða sjúkra- og endurhæfingargreiðslum skv. 27. gr. skulu fá greidda eingreiðslu að fjárhæð 70.364 kr. eigi síðar en 1. desember ár hvert. Hafi greiðsluþegi fengið greitt hluta úr ári skal eingreiðslan vera í hlutfalli við greiðsluréttindi hans á árinu. Eingreiðsla þessi skal ekki teljast til tekna greiðsluþega og ekki leiða til skerðingar annarra greiðslna.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.

    Undanfarin ár hefur Alþingi samþykkt eingreiðslu til örorkulífeyrisþega skömmu fyrir lok haustþings (hinn svokallaði jólabónus). Þessi eingreiðsla hefur reynst öryrkjum kærkomin en það verklag sem Alþingi hefur viðhaft hefur leitt til mikillar óvissu hjá öryrkjum um hvort eingreiðslan verði greidd hverju sinni, hve há eingreiðslan verður og jafnframt hvenær hún muni berast. Flutningsmenn frumvarps þessa telja mikilvægt að festa í sessi eingreiðsluna til að tryggja til frambúðar þá kjarabót sem í henni felst og jafnframt draga úr þeirri miklu óvissu sem fylgir því verklagi sem nú er viðhaft. Jafnframt er lagt til að sams konar eingreiðsla verði greidd til þeirra ellilífeyrisþega sem hafa svo lágar tekjur að þeir fá greiddan óskertan ellilífeyri. Lagt er til að eingreiðslan verði 70.364 kr. árið 2024, eða 6% hærri en fjárhæð eingreiðslunnar árið 2023, sem samsvarar spá Hagstofunnar um hækkanir á vísitölu neysluverðs milli ára. Verði frumvarpið að lögum mun fjárhæðin svo taka árlegum breytingum ásamt öðrum fjárhæðum laganna eins og mælt er fyrir um í 62. gr. þeirra.
    Vegna þess að búið er að samþykkja umfangsmiklar breytingar á lögum um almannatryggingar, sem munu taka gildi haustið 2025, er jafnframt nauðsynlegt að gera breytingar á þeim breytingalögum svo að eingreiðslan gildi áfram eftir gildistöku þeirra. Er því lögð til breyting þess efnis í 3. gr. frumvarpsins.