Ferill 58. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


155. löggjafarþing 2024–2025.
Þingskjal 58  —  58. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um bætur vegna tvísköttunar lífeyrisgreiðslna.


Flm.: Diljá Mist Einarsdóttir, Birgir Þórarinsson, Jón Gunnarsson, Njáll Trausti Friðbertsson.


    Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að hefja vinnu við gerð frumvarps um að greiða skuli bætur sem samsvara áður skattlögðum inngreiðslum til einstaklinga sem greiddu tekjuskatt bæði við greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalda árin 1988 til 1997 og síðan aftur við útgreiðslu lífeyris sem þannig hafði áður verið skattlagður.

Greinargerð.

    Árið 1988 gengu í gildi breytingar á tekjuskattslögum sem höfðu það m.a. að meginmarkmiði að skattbyrði héldist sem næst óbreytt. Meðal breytinganna sem voru gerðar til einföldunar var að fella niður frádráttarbærni iðgjalda til lífeyrissjóða. Persónuafsláttur og lægri skatthlutföll áttu síðan að skila skattborgurum sömu niðurstöðu og frádráttarreglurnar höfðu gert áður. Þessar breytingar ollu nokkurri óánægju og samþykkti Alþingi m.a. árið 1991 þingsályktunartillögu Guðmundar H. Garðarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um skattalega meðferð á lífeyrissparnaði sem sneri m.a. að þessu atriði. Árið 1994 lögðu þrír þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Guðmundur Hallvarðsson, Sólveig Pétursdóttir og Vilhjálmur Egilsson, fram tillögu til þingsályktunar um afnám tvísköttunar á lífeyrisgreiðslum. Árið 1994 náðist loks samkomulag um að breyta þessu fyrirkomulagi, fyrst í tengslum við fjárlagagerð fyrir árið 1995. Tekjuskattur á inngreiðslur í lífeyrissjóði var síðan með öllu afnuminn 1. júlí 1997, en árin 1995 og 1996 var hluti inngreiðslna þó frádráttarbær frá tekjuskattsstofni.
    Við fyrrgreindar breytingar á tekjuskattslögum, þegar staðgreiðslu skatta var komið á, var tekjuskattur lagður á þær tekjur sem launþegi greiddi sem iðgjald í lífeyrissjóð og lífeyririnn var síðan skattlagður aftur við útgreiðslu. Því er hægt að færa fyrir því rök að við þetta hafi tvísköttun hafist á lífeyri.
    Kerfið sem sneri að tvísköttun tekna var vissulega lagfært í skrefum á árunum 1995 til 1997. Eftir stendur óuppgert óréttlæti sem þeir einstaklingar búa við sem greiddu iðgjöld á þessum árum og greiða síðan tekjuskatt á ný við útgreiðslu.
    Flutningsmenn telja það vera réttlætismál að borgarar greiði ekki tvöfaldan tekjuskatt af sömu tekjum. Þar sem það liggur fyrir að útkoman var með þeim hætti vegna kerfis sem var við lýði á umræddum árum, telja flutningsmenn sanngjarnt að umræddum einstaklingum sé bætt oftakan. Því er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að hefja vinnu við frumvarp með þetta að markmiði.