Ferill 228. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


155. löggjafarþing 2024–2025.
Þingskjal 268  —  228. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um endurskoðun barnalaga.


     1.      Hvað líður vinnu sifjalaganefndar, sem fram kom í svari ráðherra á 154. löggjafarþingi (759. mál) að ætlað væri að skila ráðherra drögum að heildarendurskoðun á barnalögum og hjúskaparlögum fyrir 1. september 2024?
    Eins og kom fram í svari ráðherra á 154. löggjafarþingi (759. mál) tók sifjalaganefnd til starfa haustið 2023 og var nefndinni ætlað að skila ráðherra drögum að lagafrumvörpum fyrir 1. september sl. Þegar leið að lokum skipunartíma nefndarinnar var ráðherra hins vegar upplýst um að nefndin næði ekki því markmiði að ljúka við umrædd drög að lagafrumvörpum fyrir þann tíma sem ætlast var til. Ráðherra var jafnframt upplýst um að nefndinni hafi fljótlega orðið ljóst að verkefnið væri mjög viðamikið og ákall væri eftir breytingum á fjölmörgum þáttum hjúskaparlaga og barnalaga og afar mikilvægt væri að fara faglega og heildstætt yfir lagabálkana og framkvæmdina á þessu sviði. Nefndin hefði jafnframt haft að leiðarljósi að forgangsraða brýnustu álitamálum. Í ljósi þessa ákvað ráðherra að framlengja skipunartíma nefndarinnar til 30. apríl 2025 þannig að nefndin gæti lokið umræddri vinnu og skilað ráðherra drögum að lagafrumvörpum fyrir 1. maí 2025.

     2.      Hvenær má vænta þess að ráðherra taki ákvörðun um hvort heimila skuli sjálfkrafa skráningu samkynja foreldra sem eru í hjúskap eða í skráðri sambúð? Má vænta frumvarps þess efnis á yfirstandandi löggjafarþingi, þótt það sé ekki að finna á þingmálaskrá?
    Ráðherra er enn þeirrar skoðunar að umrætt álitaefni skuli skoðast heildstætt í tengslum við framangreinda endurskoðun á barnalögum og má því ekki vænta frumvarps þess efnis á yfirstandandi löggjafarþingi. Að öðru leyti er bent á svar ráðherra við fyrirspurn á 154. löggjafarþingi, þskj. 1402 í 759. máli.