Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill málsins.
88. löggjafarþing 1967–68.
Þskj. 689  —  116. mál.




ÞINGSÁLYKTUN

     um styrjöldina í Víetnam.



    Deildin ályktar að lýsa yfir þeirri skoðun sinni, að deiluefni styrjaldaraðila í Víetnam beri að leysa með friðsamlegum hætti.
    Stór hætta er á því, að styrjöld þessi geti hvenær sem er breiðzt út og orðið upphaf nýrrar heimsstyrjaldar, auk þess sem áframhaldandi styrjaldarrekstur eykur sífellt á langvarandi hörmungar víetnömsku þjóðarinnar.
    Með þeirri takmörkun loftárása á Norður-Víetnam, sem ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur nýlega ákveðið, og þeim jákvæðu viðbrögðum, sem stjórnin í Hanoi hefur sýnt af þessu tilefni, hefur nú skapazt hagstætt tækifæri til undirbúnings sáttagerðar í deilunni. Má einskis láta ófreistað til að nota þetta tækifæri sem bezt, svo að vopnahléi og viðræðum um friðarsamninga verði komið á. Telur deildin, að þessu verði nú helzt fram komið með því:
     1.      að ríkisstjórn Bandaríkjanna stöðvi allar loftárásir á Norður-Víetnam, en jafnframt dragi stjórn Norður-Víetnams og Víet Cong-hreyfingin úr sóknaraðgerðum af sinni hálfu og láti þannig í ljós ótvíræðan vilja til að ganga til samninga;
     2.      að auk ríkisstjórnar Bandaríkjanna og ríkisstjórnar Norður-Víetnams verði ríkisstjórnin í Saigon og Víet Cong-hreyfingin aðilar að samningsgerðinni;
     3.      að öflugu sáttastarfi í deilunni verði haldið uppi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
    Felur deildin ríkisstjórninni að framfylgja þessari ályktun á alþjóðavettvangi.


Samþykkt í efri deild Alþingis 19. apríl 1968.