Ferill 81. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


91. löggjafarþing 1970–71.
Þskj. 431  —  81. mál.




ÞINGSÁLYKTUN


     um varnir gegn sígarettureykingum.




    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina, að eftirfarandi ráðstafanir verði gerðar til þess að draga úr tóbaksreykingum, og þá sérstaklega sígarettureykingum:
     I.      Víðtæk upplýsingastarfsemi um skaðvænlegar afleiðingar sígarettureykinga verði hafin í dagblöðum, hljóð- og sjónvarpi. Höfuðáherzla verði lögð á þær skyldur, sem foreldrar og kennarar hafa.
     II.      Í skólum verði hafin reglubundin kennsla um heilsufarslegar hættur sígarettureykinga.
     III.      Regluleg fræðsluerindi (námskeið) verði haldin fyrir kennara og kennaraefni um þessi mál.
     IV.      Athugaðir verði möguleikar á að stofna opnar „deildir“ (poliklinik), sem stjórnað sé af sérfróðum læknum, og þar geti reykingamenn fengið aðstoð til þess að hætta reykingum.
     V.      Stofnað verði ráð lækna og leikra, sem hafi eftirfarandi hlutverk:
       a)      Að safna upplýsingum um, hversu víðtækar reykingar séu, t.d. meðal skólabarna og unglinga.
       b)      Að stjórna vísindalegum rannsóknum um áhrif reykinga.
       c)      Að vera yfirvöldum til ráðuneytis um þessi mál.
         Kostnaður við starfsemi ráðsins verði greiddur úr ríkissjóði.


Samþykkt á Alþingi 2. marz 1971.