Ferill 226. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


93. löggjafarþing 1972–73.
Þskj. 721  —  226. mál.




ÞINGSÁLYKTUN


     um athugun á staðsetningu nýrrar hafnar á suðurströnd landsins.




     Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta nú þegar hefja athugun á staðsetningu nýrrar hafnar á suðurströnd landsins á svæðinu frá Dyrhólaey og vestur um. Athuguninni verði hraðað eins og kostur er á, sérstaklega með tilliti til þess, ef svo kynni að fara, að höfnin í Vestmannaeyjum og hafnarstæði þar færi forgörðum af völdum eldgossins.
    Til að framkvæma athugunina skal samgönguráðuneytið skipa nefnd sjö manna. Skal einn tilnefndur af Hafnamálastofnun ríkisins, einn af skipulagsstjórn ríkisins, einn af Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja, einn sameiginlega af samtökum sjómanna og verkalýðsfélögunum í Vestmannaeyjum, einn af bæjarstjórn Vestmannaeyja, einn af Sambandi sveitarfélaga á Suðurlandi, og enn fremur skal samgönguráðuneytið skipa einn mann í nefndina án tilnefningar, og skal hann vera formaður nefndarinnar.
    Nefndin skal skila áliti svo fljótt sem við verður komið.


Samþykkt á Alþingi 13. apríl 1973.