11.10.1976
Sameinað þing: 1. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

Minning látinna fyrrv. alþingismanna

Aldursforseti (Guðlaugur Gíslason):

Þá verður fundi fram haldið í Sþ., en áður en gengið verður til dagskrár verður minnst látinna fyrrv. alþm.

Frá lokum síðasta þings hafa andast tveir fyrrv. alþm., Alfreð Gíslason fyrrv. bæjarfógeti, sem andaðist aðfaranótt sunnudags 30. maí á sjötugasta og fyrsta aldursári, og Birgir Kjaran hagfræðingur, sem varð bráðkvaddur að kvöldi fimmtudagsins 12. ágúst, sextugur að aldri.

Alfreð Gíslason var fæddur í Reykjavík 7. júlí 1905. Foreldrar hans voru Gísli búfræðingur og fasteignasali í Reykjavík Þorbjarnarson bónda að Einifelli og síðar Bjargarsteini í Stafholtstungum Gíslasonar og kona hans, Jóhanna Sigríður Þorsteinsdóttir bónda að Brú í Biskupstungum Narfasonar. Alfreð Gíslason brautskráðist frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1927 og lauk lögfræðiprófi í Háskóla Íslands vorið 1932. Að námi loknu starfaði hann um skeið í lögmannsskrifstofum í Reykjavík, var um tíma á árinu 1934 fulltrúi við lögtök í Vestmannaeyjum og rak síðan málaflutningsskrifstofu í Reykjavík þar til hann var skipaður lögreglustjóri í Keflavík 1. jan. 1938. Gegndi hann því embætti þar til Keflavík fékk kaupstaðarréttindi árið 1949. Þá var hann skipaður bæjarfógeti þar. Lausn frá því embætti fékk hann 1. júlí 1961, en var aftur skipaður í það í sept. 1962. Jafnframt þeim bæjarfógetastörfum var hann sýslumaður í Gullbringusýslu frá 1. jan. 1974 og bæjarfógeti í Grindavík frá 10. apríl 1974. En af bæjarfógeta- og sýslumannsstörfum lét hann rúmlega sjötugur í septemberlok 1975.

Alfreð Gíslason var oddviti hreppsnefndar í Keflavík 1938—1946. Síðar átti hann sæti í bæjarstjórn Keflavíkur 1954–1970 og var forseti bæjarstjórnar þann tíma að undanskildu rúmu ári 1961–1962, er hann var bæjarstjóri í Keflavík. Hann átti sæti í stjórn landshafnar í Keflavík frá 1947 og í flugráði 1964–1975. Á Alþingi átti hann sæti sem landsk, þm. á árunum 1959–1963, sat á fjórum þingum alls.

Alfreð Gíslason vann meginhluta ævistarfs síns í Keflavík og í þágu Keflvíkinga. Hann lifði þar mikla breytinga-, framkvæmda- og framfaratíma. Var hann í fararbroddi á mörgum sviðum, sem lögreglustjóri og bæjarstjóri, forustumaður í sveitarstjórn og síðar bæjarstjórn og frumkvöðull og formaður menningar- og líknarfélaga. Hann öðlaðist fljótt vinsældir og traust samborgara sinna, var ráðhollur og tryggur samstarfsmaður og drengilegur andstæðingur. Hann var skilningsgóður og réttsýnn í embættisstörfum og mildur í dómum. Hann átti ekki langa setu á Alþingi, lét ekki mikið á sér bera, en vann störf sín hógvær og samviskusamur.

Birgir Kjaran var fæddur í Reykjavík 13. júní 1916. Foreldrar hans voru Magnús Kjaran stórkaupmaður, sonur Tómasar bónda í Vælugerði í Villingaholtahreppi, síðar sjómanns og verkamanns í Reykjavík Eyvindssonar og kona hans Soffía Kjaran, dóttir Franz Siemsens sýslumanns í Hafnarfirði. Hann brautskráðist frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1935 og stundaði síðan hagfræðinám í Þýskalandi, við háskólana í Kiel og München, 1935–1938 og lauk prófi í Kielar-háskóla 1938. Veturinn 1939–1940 var hann við framhaldsnám í London, og hluta úr vetri 1952 hlýddi hann á fyrirlestra um hagfræði og þjóðarétt við Sorbonne-háskóla í París. Hann var skrifstofustjóri hlutafélagsins Shell í Reykjavík árin 1940–1946, framkvæmdastjóri Bókfellsútgáfunnar 1944–1971 og framkvæmdastjóri Heildverslunar Magnúsar Kjarans 1946–1971. Hann kenndi hagfræði í Verslunarskóla Íslands árin 1941–1958. Í menntamálaráði átti hann sæti 1956–1963 og í Ólympíunefnd Íslands 1958–1973 og var formaður hennar frá 1962. Formaður Náttúruverndarráðs var hann 1960–1972, sat í bankaráði Seðlabanka Íslands frá stofnun bankans 1961 til dánardægurs og var formaður bankaráðs árin 1961–1972. Hann átti sæti í Norðurlandaráði 1970–1971. Í borgarstjórn Reykjavíkur var hann 1950–1954. Á Alþingi átti hann sæti sem landsk. þm. 1959–1963 og þm. Reykv. 1967– 1971. Auk þess átti hann nokkrum sinnum sæti á Alþ. sem varamaður á árunum 1972 og 1973. Alls átti hann sæti á 11 þingum.

Birgir Kjaran var hagfræðingur að háskólamenntun, en áhugamál hans voru fjölþætt og starfssvið hans fjölbreytilegt. Á Alþingi beindist áhugi hans mest að efnahags- og utanríkismálum. Hann var ötull stuðningsmaður íþróttahreyfingarinnar og gegndi þar ábyrgðarmiklum trúnaðarstörfum. Hann var ráðhollur stjórnarmaður stórvirkra félaga, svo sem Eimskipafélags Íslands, Flugfélags Íslands og Verslunarráðs Íslands. Hann var vandfýsinn bókamaður og bókaútgefandi. Honum voru falin vandasöm og viðurhlutamikil störf í þeim stjórnmálaflokki sem hann skipaði sér í. Í þessum og öðrum trúnaðarstörfum sýndi hann elju og ósérhlífni, forustuhæfileika og skipulagsgáfu og baráttuhug. Hann unni náttúru Íslands og starf og forusta í Náttúruverndarráði var honum mjög að skapi. Hann naut þess að ferðast um landið og dást að náttúru þess, fegurð hennar og fjölbreytni í smán og stóru. Auk ritstarfa um stjórnmál og efnahagsmál samdi hann og birti nokkrar bækur, þar sem hann segir frá auðnustundum sínum á ferðalögum um Ísland af næmri tilfinningu og með hlýjum huga.

Ég vil biðja þingheim að minnast hinna látnu fyrrv. þingmanna, Alfreðs Gíslasonar og Birgis Kjarans, með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum. — Síðan gekk forseti Íslands út úr þingsalnum.]