Lagasafn.  Íslensk lög 1. febrúar 1997.  Útgáfa 121a.  Prenta í tveimur dálkum.


Lög um framsal sakamanna til Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar

1962 nr. 7 14. mars



1. gr. Framselja má eftir ákvæðum laga þessara menn, sem staddir eru innan lögsögu íslenska ríkisins, en grunaðir eru, ákærðir eða dæmdir í Danmörku, Finnlandi, Noregi eða Svíþjóð fyrir refsiverða háttsemi.
2. gr. Íslenskur ríkisborgari verður því aðeins framseldur
    1. að hann hafi verið búsettur tvö síðustu árin, áður en brot var framið, í því landi, sem framsals óskar, eða
    2. að þyngri refsing en 4 ára fangelsi liggi við brotinu eða samsvarandi broti eftir íslenskum lögum.
Íslenskur ríkisborgari verður ekki framseldur vegna verknaðar, sem að öllu leyti er framinn innan íslenska ríkisins, nema háttsemin sé hlutdeild í broti, sem framið hefur verið erlendis, eða framsalsbeiðnin taki jafnframt til brots, sem erlendis hefur verið framið.
3. gr. Ekki verður maður framseldur til saksóknar, nema þyngri refsing en fésektir liggi við brotinu í því landi, sem framsals óskar.
Ekki verður maður framseldur til að þola fullnægju dóms, nema dæmd hafi verið refsivist eða vistun á hæli hafi verið dæmd eða ákveðin samkvæmt heimild í dómi.
Þegar framsalsbeiðni varðar fleiri brot en eitt, er framsal til saksóknar eða fullnægju dóms þó heimilt, enda þótt skilyrði samkvæmt 1. og 2. mgr. séu aðeins fyrir hendi um eitt brotið.
4. gr. Framsal vegna stjórnmálaafbrota er því aðeins heimilt, að samsvarandi verknaður sé refsiverður sem stjórnmálaafbrot eftir íslenskum lögum. Ekki má framselja íslenska ríkisborgara vegna stjórnmálaafbrota.
5. gr. Framsal er óheimilt, ef hér á landi hefur gengið dómur um verknaðinn, dómsátt verið gerð eða ákæru frestað skilorðsbundið.
Nú hefur rannsókn gegn sökuðum manni ekki leitt til ákæru á hendur honum, og verður hann þá ekki framseldur fyrir þann verknað, sem rannsókn tók til, nema skilyrði séu fyrir hendi um upptöku máls samkvæmt [lögum um meðferð opinberra mála]. 1)
    1)L. 19/1991, 195. gr.
6. gr. Nú er óskað framsals á manni, sem vegna annars brots en í framsalsbeiðni greinir hefur verið dæmd refsivist hér á landi, eða vistun hans á hæli hefur verið ákveðin í dómi eða samkvæmt heimild í dómi, og verður hann þá ekki framseldur, fyrr en refsivist hans eða hælisvist lýkur. Ekki verður maður heldur framseldur, ef hann er undir saksókn hér á landi vegna annars brots en framsalsbeiðni varðar, enda liggi 2 ára refsivist hið minnsta við því broti. Sama gildir, ef maður er hafður í gæslu eða frelsi hans takmarkað samkvæmt réttarfarslögum vegna annars afbrots en í framsalsbeiðni greinir.
Um framsal til saksóknar má þó víkja frá ákvæðum 1. mgr., enda sé það skilyrði sett fyrir framsali, að viðkomandi maður sé að saksókn lokinni sendur aftur réttum stjórnvöldum hér á landi, svo fljótt sem við verður komið.
7. gr. [Jafnan skal setja eftirgreind skilyrði fyrir framsali:
    1. Að hinn framseldi maður verði ekki án samþykkis dómsmálaráðuneytisins, sbr. 17. gr., framseldur áfram til neins annars ríkis fyrir refsiverðan verknað, framinn fyrir framsalið.
    2. Að hinn framseldi maður verði ekki saksóttur né látinn taka út refsingu fyrir neinn þann verknað, sem framinn er fyrir framsalið og hann hefur fyrir dómi hér á landi annað hvort verið sakfelldur fyrir eða sýknaður af og dómur hefur þegar gengið um hér á landi, annað hvort til sakfellingar eða sýknu.
    3. Að hinn framseldi maður verði ekki án samþykkis dómsmálaráðuneytisins, sbr. 17. gr., saksóttur né látinn taka út refsingu fyrir neinn þann verknað, sem framinn er fyrir framsalið og rannsókn málsins hefur ekki leitt til ákæru á hendur honum hér á landi.
    4. Að hinn framseldi maður, sé hann íslenskur ríkisborgari, verði ekki saksóttur né látinn taka út refsingu fyrir nokkurn annan verknað, framinn fyrir framsalið, en þann, sem hann er framseldur fyrir, nema svo standi á, sem hér segir:
    a. að fyrir liggi samþykki dómsmálaráðuneytisins, sbr. 17. gr., eða
    b. að hinn framseldi maður hafi sjálfur samþykkt það á dómþingi, eða
    c. að hinn framseldi maður hafi ekki horfið úr landi því, sem hann var framseldur til, enda þótt hann hafi átt þess kost í einn mánuð hið skemmsta að fara þaðan óhindraður, eða
    d. að hann hafi horfið aftur til lands þess, sem hann var framseldur til, eftir að hann hafði farið úr landi.
    5. Að hinn framseldi maður verði ekki saksóttur né látinn taka út refsingu fyrir stjórnmálaafbrot, sem framið er fyrir framsalið, og hann er ekki framseldur fyrir, nema að fullnægðum skilyrðum þeim, sem talin eru undir 4 a–d, og því aðeins að hinn framseldi maður sé ekki íslenskur ríkisborgari.
Ávallt er heimilt að setja fleiri skilyrði fyrir framsali, eftir því sem ástæða þykir til.] 1)
    1)L. 44/1975, 1. gr.
8. gr. 1)
    1)L. 44/1975, 2. gr.
9. gr. Framsalsbeiðni, sem koma verður frá þar til bæru stjórnvaldi í viðkomandi ríki, skal send dómsmálaráðuneytinu.
Í beiðninni skal greina ríkisfang manns þess, sem óskast framseldur, dvalarstað hans hér á landi, sé um hann vitað, tegund hins refsiverða verknaðar og hvar og hvenær hann var framinn. Gefa skal lýsingu á manninum, ef unnt er og þörf krefur. Einnig skal frá því skýrt, hvaða refsiákvæði muni að líkindum koma til greina um verknaðinn.
Nú hefur viðkomandi maður ekki sjálfur á dómþingi annað hvort samþykkt framsalið eða játað sig sekan um brot það, sem framsalsbeiðni varðar, og skal þá til grundvallar framsalsbeiðni liggja áfellisdómur eða dómsákvörðun um, að rökstudd ástæða sé til að gruna manninn um að hafa framið brotið. Framselja má til saksóknar út af fleiri en einu broti, þó að játning eða dómsákvörðun liggi aðeins fyrir um eitt þeirra.
10. gr. Dómsmálaráðuneytið sendir saksóknara ríkisins framsalsbeiðnina, og ber honum að sjá til þess, að nauðsynleg rannsókn fari þegar fram.
Nú samþykkir viðkomandi maður á dómþingi framsalið eða játar sig sekan um brot það, sem í framsalsbeiðni greinir, og er þá ekki þörf frekari rannsóknar, nema dómsmálaráðuneytið æski hennar sérstaklega.
Ef ekki er annars getið í lögum þessum, skal um framkvæmd rannsóknar og annað, sem framsalsbeiðni varðar, beita reglum laga um meðferð opinberra mála eftir því sem við á.
11. gr. Maður sá, sem óskast framseldur, getur krafist úrskurðar [héraðsdóms] 1) í Reykjavík um, hvort skilyrði laga fyrir framsali séu fyrir hendi. Saksóknari skal, jafnframt því sem hann tilkynnir manninum framsalsbeiðnina og rök fyrir henni, láta hann vita um heimild þessa og að hann eigi þess kost að fá skipaðan verjanda samkvæmt 13. gr. Úrskurð [héraðsdóms] 1) má kæra til hæstaréttar.
[Hafi úrskurðar verið krafist, skal framsal ekki fara fram fyrr en endanlegur dómsúrskurður hefur verið kveðinn upp.] 2)
    1)L. 19/1991, 195. gr. 2)L. 44/1975, 3. gr.
12. gr. Við rannsókn út af framsalsbeiðninni má beita þeim þvingunaraðgerðum, sem lög um meðferð opinberra mála heimila í sambandi við rannsókn samsvarandi sakamála. Við ákvörðun um beitingu þvingunaraðgerða má leggja til grundvallar dómsákvarðanir þær, sem framsalsbeiðni fylgja, án frekari rannsóknar um sönnun fyrir sök viðkomandi manns.
Framangreindum þvingunaraðgerðum má beita, uns úr því er skorið, hvort framsal skuli fram fara, og þangað til framsal er framkvæmt, sé það heimilað. Ef kveðinn er upp úrskurður um gæsluvarðhald, skal því ekki markaður lengri tími en 3 vikur. Þyki nauðsyn bera til að lengja varðhaldstímann, skal það gert með úrskurði á dómþingi, þar sem gæslufanginn er viðstaddur. Ekki má framlengja varðhaldstímann um meira en 2 vikur í senn.
13. gr. Jafnan skal dómari skipa viðkomandi manni verjanda, ef hann eða saksóknari æskja þess. Dómari getur og af sjálfsdáðum skipað verjanda, ef honum þykir ástæða til.
Laun verjanda og annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði. Dómari getur þó, þegar sérstaklega stendur á, gert viðkomandi manni að greiða kostnaðinn.
14. gr. Að rannsókn lokinni sendir saksóknari dómsmálaráðuneytinu öll gögn málsins ásamt álitsgerð um það. Ráðuneytið tekur síðan ákvörðun um, hvort framsal skuli heimilað.
15. gr. Þegar dómsmálaráðuneytið verður við beiðni um framsal, skal það framkvæmt svo fljótt sem unnt er. Ef viðkomandi maður er ekki í haldi, má handtaka hann og gæta hans, uns hann er afhentur, eða takmarka frelsi hans með öðrum hætti, eftir því sem segir í [lögum um meðferð opinberra mála]. 1)
Þegar maður er framseldur, má ákveða, að munir eða verðmæti, sem hald hefur verið lagt á í sambandi við málið, séu afhentir stjórnvaldi því, sem framsals óskaði, enda sé um afhendingu gerður fyrirvari, ef ástæða er til, til verndar rétti þriðja manns.
    1)L. 19/1991, 195. gr.
16. gr. [Nú er í einhverju þeirra ríkja, sem í 1. gr. getur, lýst eftir manni, sökuðum um afbrot, sem orðið gæti grundvöllur framsals eftir lögum þessum, og má þá beita hann þvingunaraðgerðum laga um meðferð opinberra mála með sama hætti og væri hann sakaður um samsvarandi afbrot hér á landi. Sömu aðgerðum má beita, ef viðkomandi yfirvöld tilkynna, að þau muni krefjast framsals fyrir slíkt afbrot.] 1)
Ef þvingunaraðgerðum er beitt, skal það þegar í stað tilkynnt lögregluyfirvöldum eða saksóknara í því landi, þar sem lýst var eftir viðkomandi manni. Ef framsalsbeiðni berst ekki dómsmálaráðuneytinu innan 2 vikna frá því, að slík tilkynning var send, skulu þvingunaraðgerðir falla niður.
    1)L. 44/1975, 4. gr.
17. gr. [Samþykki samkvæmt 7. gr. verður því aðeins veitt, að framsal fyrir verknaðinn hefði getað farið fram til viðkomandi lands. Ákvæði 11. og 13. gr. gilda einnig um veitingu slíks samþykkis eftir því sem við á.
Tilmælum um veitingu samþykkis skv. 7. gr. skal fylgja greinargerð um tegund brotsins, hvar og hvenær það var framið og hvaða refsiákvæði muni koma til greina. Einnig skulu fylgja fullnægjandi gögn um það, að viðkomandi manni hafi verið kunngerður réttur hans samkvæmt 11. og 13. gr. eftir því sem við á, og um, hvort hann hafi æskt að notfæra sér þann rétt.] 1)
    1)L. 44/1975, 5. gr.
18. gr. Nú er maður framseldur frá ríki, sem getur í 1. gr., til annars ríkis, sem þar getur einnig, og má þá án sérstaks samþykkis flytja hann um íslenskt yfirráðasvæði.
19. gr. Setja má í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.
20. gr. Dómsmálaráðherra ákveður, hvenær lög þessi koma til framkvæmdar, gagnvart hverju einstöku ríki, sem í 1. gr. getur. 1)
    1)Lög þessi öðluðust gildi gagnvart Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð 15. júlí 1962, samkvæmt augl. A 85/1962.