14.12.1978
Sameinað þing: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1528 í B-deild Alþingistíðinda. (1000)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ef ég ætti að svara öllum þeim spurningum sem komu fram hjá hv. frsm. nú, þá fer þetta mál varla til n. í dag, en mér skilst að á það sé lögð rík áhersla. Ég held því að sumu af því, sem hann varpaði fram, eins og t.d. dagsetningum á greiðslum ríkissjóðs 1977 og öllu því sem þar fylgir, m.a. hvenær við hafi verið tekið og hvenær greitt, sé réttara að svara skriflega, í svari við skriflegri fsp. um það. Í fyrsta lagi er ég ekki með slíkt hér þannig sundurliðað og eins og ég sagði áðan: það mundi taka vel daginn að fara í gegnum það, held ég. (Gripið fram í: Eftir áramótin.) Áramótin, já, kalla saman hv. Alþingi eftir áramótin til að fjalla um þetta.

Hins vegar vil ég upplýsa um störf þeirrar nefndar sem um var spurt, að nefndin skilaði áliti fyrir nokkru um leiðir til þess að auka greiðslur til bænda upp í 90% fyrir áramót. Þær leiðir sýnast mér vera vel aðgengilegar að mörgu leyti. Þær felast einkum í þrennu: í fyrsta lagi að flýta greiðslu útflutningsbóta frá ríkissjóði, í öðru lagi að flýta greiðslu á niðurgreiðslum frá ríkissjóði og í þriðja lagi að flýta hluta af svokölluðum uppgjörslánum frá Seðlabankanum og sumu að þessu jafnvel yfir áramót. Menn verða að gæta þess, að t.d. útflutningsbætur á nýju verðlagsári landbúnaðarins, sem hefst 1. sept., eru fallnar í gjalddaga fyrir áramót, líklega allt að 1700 millj. kr. í þessum mánuði sem er að líða. Þetta sýnast samt vera till. sem eru vel aðgengilegar og þurfi ekki út af fyrir sig að kosta mikið, heldur fyrst og fremst nánara samstarf Seðlabanka og ríkissjóðs. En hins vegar verður að segja eins og er, að það, sem stendur þar fyrst og fremst í vegi, er það mikla vandamál vegna birgðasöfnunar sem landbúnaðurinn á við að stríða nú. Endurkaup Seðlabankans í ár hafa orðið langtum meiri en áætlað var, þannig að hlutfallið á milli endurkaupa og bindiskyldu er orðið ákaflega óhagstætt. Þetta blandast að sjálfsögðu inn í þetta mál svo og miklar smjörbirgðir, sem mikið hefur verið nefnt hér á hinu háa Alþingi síðustu dagana. Að sjálfsögðu vakna upp spurningar um það, hvað er í raun og veru veðhæft í birgðum sem endast e. t. v. töluvert fram á annað ár. Þetta er nú í endurskoðun. Er von mín að á þessu fáist lausn nú alveg næstu daga.

Um seinni þáttinn í störfum nefndarinnar er það að segja, að þegar nefndin hafði skilað þessum tillögum ákváðu nm. að taka sér hlé fram yfir áramótin, enda annir miklar hér á þingi. Nefndin hefur unnið prýðilega vel að þessum hluta, en mun hefjast handa að nýju strax eftir áramót, enda er seinni þátturinn með greiðslur til bænda mjög háður því, hver lausn fæst á afurða- og rekstrarlánum. Það þarf helst að liggja fyrir áður en nefndin getur haldið áfram störfum sínum. — En ég geri mér vonir um að hún muni vinna rösklega að þessum seinni hluta sem að þeim fyrri, þannig að tillögur liggi fljótlega fyrir.

Þá vil ég segja að ég hef í höndum skýrslu frá Seðlabanka Íslands um endurkaup Seðlabanka Íslands á landbúnaðarlánum, sem er mikið skjal og ég held að ekki sé rétt að fara að lesa upp hér. Þarna er mikill fróðleikur, bæði um afurðalánin og rekstrarlánin. Ég skal afhenda hv. þm. þetta skjal. Ég held að það sé betri leið en að þylja upp úr því, sem mundi taka góðan hluta af deginum. Þar eru vandlega rakin lánin, m.a. kemur fram, hvað þetta er orðið margþætt, sérstaklega rekstrarlánin, mjög margþætt. Sannarlega sýnist mér ástæða til að einfalda það kerfi. Rekstrarlánin skiptast í eina 5 eða 6 mismunandi flokka og þyrfti að samræma slíkt.

Þá vil ég að lokum nefna, að frsm. ræddi um að við fyrri hluta þessarar framsögu að æskilegt væri að fá nokkrar hugmyndir um hvernig þetta fjármagn streymir frá bönkum og ríkissjóði til bænda. Mér datt í hug, að e.t.v. væri eitt einstakt dæmi fróðlegast í þessu sambandi. Aflaði ég mér upplýsinga frá Kaupfélagi Eyfirðinga um stöðu mála þar. Hjá Kaupfélagi Eyfirðinga eru núna í birgðum mjólkurafurðir að andvirði 2 milljarðar 724 millj. kr. Út á þessar birgðir hafa fengist afurðalán, samtals 1625 millj. Mismunurinn er 1100 millj. Af honum hefur kaupfélagið greitt bændum 700 millj., af þessum 1100 millj. mismun sem hefur ekki fengist lán út á. Bændur eiga inni 350–370 millj. kr. Borgað hefur verið út 89–90% af afurðum við móttöku. En þarna kemur fram, að greiðsla kaupfélagsins til bænda er 700 millj. umfram það sem það hefur tekið við í afurðalánum, og því er náttúrlega ekki að neita, eins og ástatt er þar nú, að þarna er móttaka á landbúnaðarafurðum nánast að stöðvast. Þarna eru um 600 tonn í smjörbirgðum, sem eins og menn vita eru nánast óseljanlegar, — seljanlegar úr landi fyrir e.t.v. um 15% af heildsöluverði. Ég dreg mjög í efa að bændum hefði almennt tekist að ná þessum 700 millj. út úr bankakerfinu í gegnum eigin reikninga þar. Vel má vera að einstökum efnuðum bændum, sem hafa eitthvað gott að veðsetja o.s.frv., hefði gengið að fá slíkt. En hræddur er ég um að margur efnaminni bóndinn hefði fengið heldur kaldar móttökur í sókn sinni eftir þessu viðbótarfjármagni.

Að sjálfsögðu koma inn niðurgreiðslur og útflutningsbætur þegar selt er: niðurgreiðslur ef selt er á innanlandsmarkaði og útflutningsbætur ef selt er úr landi. Þær renna að sjálfsögðu til að endurgreiða bönkunum afurðalán, sem eru um 68% af heildsöluverðmæti, þegar dreginn hefur verið frá viss kostnaður. Í fyrsta lagi eru afurðalánin endurgreidd og síðan greitt bændum það sem þeir eiga inni.

Rekstrarlán koma að sjálfsögðu líka inn í þetta. Rekstrarlán hafa verið afgreidd og eru afgreidd frá Seðlabankanum í mismunandi formi, eins og ég nefndi lauslega áðan. Byrjað er að greiða rekstrarlánin í marsmánuði. Þau renna til viðkomandi sölustofnana og eru þar hjá æðimörgum nú orðið færð beint inn á reikning viðkomandi bónda, sem getur þá að sjálfsögðu dregið fjármagnið út ef hann óskar, eins og það væri í banka, en getur einnig, og flestir munu gera það, tekið áburð, fóðurbæti og fjölmargt annað út á þessi rekstrarlán. Staðreyndin er náttúrlega sú, að þau eru það lítil að bændur eru flestir ef ekki allir komnir í verulega skuld við viðkomandi kaupfélag eða sölustofnun — eða hver það er — þegar að slátrun kemur á haustin, ef um sauðfjárafurðir er að ræða. Náttúrlega er dálítill greinarmunur gerður þarna á mjólkurframleiðendum og kjötframleiðendum, því að mjólkin er, eins og menn gera sér grein fyrir, í stöðugri veltu og gert upp jafnt og þétt með afurðalánum, þannig að þar er ekki um sams konar rekstrarlán að ræða. Þetta á því fyrst og fremst við um sauðfjárafurðirnar, þar sem rekstrarlánin er farið að afgreiða í mars, en síðan koma afurðalánin að stórum hluta í lok ársins.

Ég held að engum dyljist, þegar aðeins er um 68% af afurðaverði í afurðalánum að ræða og rekstrarlán hafa farið stöðugt minnkandi og eru núna líklega einhvers staðar í kringum 31–32%, að náttúrlega bætist við mjög mikið fjármagn í lánum, sem sölustofnanir hafa náð í hjá bönkum að sjálfsögðu og kannske eitthvað út úr rekstri sínum, þó að þar sé ekki mikið aflögu eins og nú er ástatt. Mér sýnist að í raun og veru sé spurningin sú: Mundi bændum ganga greiðar að ná í það fjármagn beint frá bönkunum? Þetta er nánast spurningin.

Ég vil segja það sem ég sagði áður, að ég lít ekki á þetta út af fyrir sig sem neina árás á sölustofnanir bænda.

Vitanlega mundi létta mjög af þeim, eins og Kaupfélagi Eyfirðinga, ef kaupfélagið hefði enga slíka fjárútvegun með höndum fyrir bændur í Eyjafirðinum. Þá tækju þeir afurðir eingöngu í umboðssölu. Þá vaknar vitanlega sú spurning: Hver á þá að greiða vinnslukostnaðinn, ef þetta er umboðssala? Yrði það fjármagnað með afurðalánum strax eða ætti sölustofnunin að bera það? Alla vega þyrfti að greiða vinnslukostnaðinn og geymslukostnað, ef þetta liggur lengi í geymslu. Væri ástæða til að leggja þá kvöð á sölustofnunina?

Ég held að þetta sé mál sem þurfi að skoða mjög vandlega. Mér sýnist í fljótu bragði, að þetta mundi létta mikið af sölustofnunum. Þær mundu losna við alla þá gífurlegu fjármögnun, sem þær standa í og hlytu að gera þá kröfu, að bændur greiddu áfallinn kostnað við meðferð þessarar vöru.

Búið er að ræða þessi mál mikið upp á síðkastið og fyrir liggja ítarlegar umsagnir frá því í fyrra. Sagt var hér, að SÍS og bankarnir væru ein klíka eða kerfi. Þetta eru stór orð sem erfitt er að standa við, hygg ég. En einnig liggja fyrir umsagnir frá t.d. Stéttarsambandi bænda. Og hér kallaði hv. frsm. fram í í gær og spurði, hvort engar umsagnir væru til frá bændum. Er ekki Stéttarsamband bænda sá aðili bændasamtakanna sem verður að treysta í þessu sambandi? (EKJ: Það er talað um bréf frá bændum.) Bréf frá Stéttarsambandi bænda. Auðvelt er að panta bréf með eða móti frá bændum um allt land. En bændur eru félagslega sinnaðir menn sem hafa kosið sín samtök. Þeir eru með sitt stéttarsamband og ég veit ekki betur en það hafi fjallað um svona mál, þarf að sjálfsögðu að fá það til meðferðar.

Ég vara eindregið við því, að með slíkri breytingu sem hér er gert ráð fyrir sé farið úr öskunni í eldinn í þessum mjög viðkvæmu málum bændastéttarinnar. Ég held að menn hljóti að fara þar fyrst og fremst eftir umsögn þeirra fulltrúa, sem bændur hafa sjálfir kjörið til að fjalla um svona mál, en ekki að drífa þau fram í einhverju offorsi. Ég legg fyrst og fremst áherslu á það að fulltrúar bændastéttarinnar fái að fjalla um slíkt ítarlega. Menn geta deilt um það, hvort bankarnir eru reiðubúnir til þess að taka á sig reikningshald fyrir hvern einstakan bónda og allt, sem því fylgir, og menn geta kannske vantreyst Sambandi ísl. samvinnufélaga og kaupfélögunum. Menn hafa um það ýmsa fordóma, veit ég. En ég held að menn verði hins vegar að treysta fulltrúum bænda sjálfra til þess að veita umsögn um svona mál, sem við getum byggt á, og legg ég á það ríka áherslu, að þetta mál fái slíka meðferð.