14.12.1978
Sameinað þing: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1535 í B-deild Alþingistíðinda. (1009)

16. mál, beinar greiðslur til bænda

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna spurninga hv. þm. prófessors Ólafs Ragnars Grímssonar sem hann bar fram héðan úr ræðustól. Hann spurði að því, hver væri hreinsunardeild Alþfl. Eins og hv. þm. auðvitað veit, þá bar hv. þm. Albert Guðmundsson fram spurningar til okkar áðan og þetta var skilgreining Alberts Guðmundssonar, sem hann auðvitað ber fram í sínum fyllsta rétti. Ég er ekki viss um að Albert Guðmundsson sé lakari stjórnmálafræðingur en ýmsir aðrir hér í salnum, mundi t.d. ekki sóma sér verr við kennslu í Háskóla Íslands en ýmsir aðrir hér í salnum. Þetta var skilgreining Alberts og Albert var auðvitað í sínum fulla rétti til þess að skilgreina svo.

Stjórnmálafræðingurinn prófessor Ólafur Ragnar Grímsson, hv. þm., lagði einnig út af ummælum landbrh. í dagblaði í gær um það, að Alþfl. væri ekki þingflokkur, heldur 14 þingflokkar. Af því hafði hæstv. ráðh. dregið ályktanir, og prófessorinn í stjórnmálafræðum dró auðvitað sínar ályktanir líka af ummælum ráðh., svo sem honum ber skylda til. En kjarninn er samt sá, að í Alþfl. fór fram fyrir nokkrum árum nánast það sem kalla mætti félagslega byltingu. Flokknum var breytt úr tiltölulega litlu samfélagi fárra einstaklinga, þar sem fáir tóku ákvarðanir, í fjöldasamtök þúsunda, þar sem þúsundir taka ákvarðanir, m.a. um framboð til Alþingis. Um þetta mætti prófessorinn í stjórnmálafræðum, hv. þm., gjarnan skrifa bók og ekki síður draga af nokkra lærdóma. Þetta þýðir það t.a.m., að okkur, sem erum þm. fyrir Alþfl., ber að standa á sannfæringu okkar vegna þeirra skyldna sem við höfum við það fólk sem okkur veitti brautargengi. Við eigum t.d. afskaplega erfitt með að koma til fólks og segja því að 14% séu það sama og 6%, eins og þið voruð að gera hér, hv. þm. Alþb., 1. des. og áfram. Okkar skyldur við umbjóðendur okkar eru með öðrum hætti en var vegna breytinga sem við höfum gert á flokki okkar.

Stjórnmálafræðingurinn, hv. þm., spurði ítrekað um hver þessi hreinsunardeild væri. Alþfl. vann kosningasigur sinn s.l. vor af mörgum samtvinnuðum ástæðum, en m.a., að ég hygg, vegna þess hvernig við skilgreindum kerfið og báknið sem hér er, vegna þess hvernig við skilgreindum verðbólguna og samfélagslegar afleiðingar hennar. Við erum að vinna starf okkar hér í fullkomnu framhaldi af því sem við þá gerðum. Og þá er ég kominn að kjarna þessa máls: að hv. 1. þm. Reykv. Albert Guðmundsson hefur komið með skynsamlegar ábendingar um útreikning á söluverði á landbúnaðarafurðum og hvernig söluverð er þar lagt á. Ég tel að það sé fyrir neðan allar hellur hvernig þetta er gert núna. Þessar ábendingar þm. á að taka til nákvæmrar athugunar. Það á að taka fyllsta tillit til þeirra og það á að breyta kerfinu í þá veru sem hann hefur m.a. lagt til. Það á ekki að reikna söluverð af útgjöldum ríkissjóðs með þeim hætti sem nú er gert. Og þrátt fyrir innskot hv. þm. prófessors Ólafs Ragnars Grímssonar, sem ég í sjálfu sér sé ekki að komi málinu við, þá er þetta kjarni málsins. Það er eðlilegt að þeir, sem eru kosnir á þeim forsendum sem við vorum, taki undir mál hv. þm. Alberts Guðmundssonar að þessu leyti. Það er samhengi í hlutunum þá.

Ég ætla ekki að taka meira af tíma þingsins að þessu sinni til að ræða þetta mál, en vil gjarnan bjóða prófessornum í þinginu að taka hann í kennslustund um lýðræði.