15.12.1978
Efri deild: 31. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

131. mál, flugvallagjald

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætlaði mér ekki að blanda mér í þessar umr., en ég vil taka undir það sem hér hefur fram komið hjá hæstv. ráðh., að ég tel sjálfsagt að stefna að því, að þær tekjur, sem koma af flugvallagjaldi og öðru slíku, sem er í tengslum við flugið, renni framvegis til þess að reyna að lagfæra þann stórkostlega vanda sem blasir við öllum í sambandi við flugvelli og öryggi á íslenskum flugvöllum, sem er varla hægt að kalla því nafni suma hverja. Þess vegna vil ég undirstrika það hér, að ég tel það alveg hárrétta stefnu að þær tekjur, sem verða til í sambandi við flugið, fari beint til þess að laga þetta ástand, bæði að því er varðar byggingu flugvalla og þá fyrst og fremst öryggismál í sambandi við flugvelli og einnig aðstöðu fyrir farþega. Það kemur að sjálfsögðu til greina að mynda sérstakan sjóð í sambandi við þessi mál, álíka og hefur verið gert í sambandi við Vegasjóðinn. Ég vil nota þetta tækifæri vegna þessara umr. og leggja áherslu á að Alþ. sinni þessu atriði betur en hefur verið gert til þessa. Þarna er fyrsta tækifærið.