15.12.1978
Neðri deild: 34. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Á vegum þingflokks Alþfl. hefur á undanförnum vikum verið unnið að samningu frv. til l. um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum og um samræmdar aðgerðir gegn verðbólgu. Frv. þetta er nú fullgert með grg. og aths. Við samningu þess hefur verið haft náið samráð við verkalýðsmálanefnd Alþfl., og fulltrúar frá verkalýðsmálanefnd Alþfl. hafa unnið með fulltrúum þingflokks Alþfl. að samningu frv.

Frv. er byggt á þeirri stefnumörkun um þjóðhagsstærðir, sem fólst í grg. frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu, sem hæstv. ríkisstj. flutti í tengslum við 1. des. s.l., en grg. hafði verið samþykkt í ríkisstj. sem almenn stefna hennar í efnahagsmálum á árinu 1979 og ber að sjálfsögðu að skoðast þannig, enda grg. með stjfrv. Frv. okkar Alþfl.-manna um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum og um samræmdar aðgerðir gegn verðbólgu er því samið í beinu framhaldi af þessari stefnumörkun ríkisstj. og til þess gert að festa í framkvæmd þau meginatriði í stefnu hennar, að verulegur árangur náist í baráttu gegn verðbólgu á næsta ári jafnframt því sem tryggð verði örugg atvinna fyrir alla, verndun rauntekna láglaunafólks og jafnvægi í efnahagsmálum.

Er umfjöllun um þetta frv. var að mestu lokið í þingflokki Alþfl. skýrðu ráðh. Alþfl. frá því í ríkisstj. og sögðu jafnframt að það kynni að hafa áhrif á afgreiðslu fjárl. Flokksstjórn Alþfl. fjallaði um frv. þetta á fundi sínum í gærkvöld og í nótt. Flokksstjórnin gerði svofellda ályktun:

„Flokksstjórn Alþfl., sem kom saman til fundar 14. des. 1978, lýsir fullum stuðningi við frv, til l. um jafnvægisstefnu í efnahagsmálum og um samræmdar aðgerðir gegn verðbólgu. Flokksstjórnin leggur áherslu á að núv. stjórnarflokkar afgreiði frv. þessa efnis áður en fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun verða afgreidd og að fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun verði síðan sniðin að þessu frv. Flokksstjórnin hafnar alfarið eilífum skammtímaráðstöfunum í efnahagsmálum og ítrekar þá skoðun sína, að nauðsynlegt er að marka stefnu í efnahagsmálum til tveggja ára, þar sem fullt tillit er tekið til allra meginþátta þeirra mála. Ríkisvaldið verður að hafa frumkvæði til þess að ná árangri í baráttu gegn verðbólgu. Þess vegna verði ekki gengið frá fjárl. og lánsfjáráætlun fyrr en þessi stefna hefur verið mörkuð.“ — Þar með lýkur ályktun þeirri sem flokksstjórn Alþfl. gerði á fundi sínum í gærkvöld og nótt.

Á fundi ríkisstj. í morgun kynntu ráðh. Alþfl. samráðh. sínum frv. og samþykktina sem ég las áðan. Mér er ekki kunnugt um annað en efnisatriði frv. hafi fengið jákvæðar viðtökur við fyrstu sýn, þótt samstarfsflokkarnir taki sér eðlilega tíma til að skoða málið. Ég vil taka það fram, að að fyrirlagi formanns Alþfl. verður í dag sent til allra blaða og fréttastofnana frv. ásamt grg. og aths. og samþykkt þeirri frá flokksstjórn Alþfl. sem ég las áðan.

Þm. Alþfl. munu að sjálfsögðu haga sér í samræmi við þá ályktun flokksstjórnar Alþfl., sem grein hefur verið gerð fyrir, og við þm. Alþfl. höfum á þessu stigi engu við þetta að bæta.