18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1715 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

138. mál, skattur á skrifstofu- og verslunarhúsnæði

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og hv. 11. þm. Reykv. veit, sem er langreyndur í þingstörfum og stjórnarsetu, hefur bæði lengi átt aðild að ríkisstjórnum og enn fremur lengi verið andstæðingur ríkisstjórna, þá eru það sjálfsögð, eðlileg og kurteisleg vinnubrögð þegar menn eiga samvinnu við aðra flokka í ríkisstj. um stjórn landsins, að ef menn hafa ákveðnar till. fram að færa sem menn vilja að nái fram, þá auðvitað byrja menn á því að sýna samstarfsmönnum sínum þær till. og óska eftir því, að þeir taki afstöðu til þeirra og fjalli um þær. Það höfum við Alþfl.-menn gert. Við höfum enn enga ástæðu til þess að efast um að samstarfsaðilar okkar taki jákvætt í þennan tillöguflutning okkar, vegna þeirrar einföldu ástæðu að frv. okkar Alþfl.-manna er byggt á grg. með stjfrv. sem að sjálfsögðu er samþ. sem grg. af stjórnarliðinu, væntanlega öllu, og því er um að ræða nákvæmari útfærslu en þar er á efnahagsstefnu sem hæstv. ríkisstj. hefur þegar samþykkt. Við teljum sem sagt enga ástæðu til þess að ætla annað en að samstarfsflokkar okkar taki jákvætt í þessa málaleitan, og það er sjálfsögð kurteisisskylda okkar í samstarfi við þá að sýna þeim slíkt mál og óska eftir afstöðu þeirra, en leggja það ekki fram á þingi án þess að sú afstaða þeirra liggi fyrir.