18.12.1978
Neðri deild: 35. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1732 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

126. mál, Seðlabanki Íslands

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður um þessa till., sem hæstv. viðskrh. lýsti, en ég kemst ekki hjá því að vekja athygli á þessu máli, ekki síst vegna ummæla hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, sem fyrr á þinginu, þegar rætt var um vaxtamálin, taldi að verðbætur og gengistryggingar kæmu ekki til greina. Það hefur verið reiknað út, að séu lán bundin við gengi t.d. þýska marksins, þá hefur þýska markið hækkað miðað við íslensku krónuna á síðustu þremur árum nákvæmlega jafnmikið og byggingarvísitala hér á landi, þannig að sem raunvaxtamaður vil ég fagna þessari hugarfarsbreytingu sem á sér stað. Vonandi er um það að ræða að Alþb.mennirnir hafi vitkast eitthvað frá því í haust. Ég vil þess vegna lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frv. og segi: Batnandi mönnum er best að lifa.