21.12.1978
Neðri deild: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1881 í B-deild Alþingistíðinda. (1529)

146. mál, heimild til lántöku vegna lánsfjáráætlunar 1978

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., frv. til l. um ábyrgðarheimildir og um heimild til lántöku vegna endurskoðaðrar lánsfjáráætlunar 1978, er flutt í framhaldi af ákveðnum samþykktum fyrrv. ríkisstj. til'þess að greiða fyrir og ljúka þeim ákvörðunum varðandi lánsfjáröflun erlendis sem sú hæstv. ríkisstj. tók. Í 1. gr. kemur þannig fram, að ákveðið hafði verið af fyrrv. ríkisstj. að heimila Akureyrarbæ að fjármagna hitaveituframkvæmdir með erlendum lánum til skamms tíma og að þeim lánum yrði síðan breytt í langtímalán. Það er verið að óska þess við hv. Alþ.,Alþ. staðfesti nú ákvörðun sem hæstv. fyrrv. ríkisstj. tók. Ef það er ósk sjálfstæðismanna, að Alþ. neiti að staðfesta ákvarðanir þeirra eigin ríkisstj., þá er náttúrlega komin upp ný staða í málinu.

Um 2. gr. er það að segja, að það, sem þar er gert ráð fyrir að taka af erlendum lánum, var ákveðið í árslok 1977 af fráfarandi ríkisstj. Þá var því lýst yfir, að Lánasjóði ísl. námsmanna yrði séð fyrir fé með lánsfjáröflun þannig að lán úr lánasjóðnum gætu samsvarað 85% af umframfjárþörf. Síðan áætlaði hæstv. fyrrv. ríkisstj. hvað hún þyrfti að taka af lánum til þess að standa við þetta fyrirheit sitt. Sú áætlun þeirrar ríkisstj. stóðst að sjálfsögðu ekki frekar en allar eða a.m.k. flestar aðrar áætlanir hennar. Nú er um það að ræða að Alþ. staðfesti þá ákvörðun sem tekin var fyrir ári að tilmælum hæstv. fyrrv. ríkisstj. Ef ráðh. þeirrar ríkisstj., sem samþykktu þessi tilmæli til Alþ. og fengu þau samþykkt, óska nú eftir að Alþ. hafni samþykkt sem gerð var fyrir einu ári að þeirra eigin hvötum, þá er að sjálfsögðu komin ný staða upp í málinu.

Um 3. gr. er það að segja, að á miðju s.l. ári komst hæstv. ríkisstj. að raun um að ýmsar framkvæmdir, sem hún hafði ráðgert og heimilað, höfðu farið langt fram úr áætluðum kostnaði og ýmsar framkvæmdir, sem hún í upphafi ársins hafði ekki gert Alþ. viðvart um að hún ætlaði sér að fara út í, höfðu verið ráðgerðar af einstökum ráðh. Um mitt s.l. ár ákvað því fyrrv. hæstv. ríkisstj. að afla viðbótarlánsfjár sem samsvaraði 2110 millj. kr. Hæstv. þáv. ríkisstj. lagði m.a. fyrir fulltrúa stjórnarandstöðunnar í fjvn. hugmyndir sínar um hvernig ætti að afla þessa fjár. Þær hugmyndir náðu að sjálfsögðu ekki fram að ganga og stóðust hvergi fremur en aðrar afgreiðslur þeirrar hæstv. ríkisstj. Ef þeir ráðh., sem stóðu að þessum óskum og þessari aukalánsfjáráætlun fyrir nokkrum mánuðum, óska nú eftir að þeirri ákvörðun og þeirri beiðni þeirra verði hnekkt af Alþ., þá er að sjálfsögðu komin upp ný staða í þessu máli.

Það er líka ljóst, eins og hv. 1. þm. Austurl. hefur tekið fram, að hæstv. fyrrv. ríkisstj. gerði samkomulag og samning um byggingu jarðstöðvar og sjálfvirkrar millilandasímstöðvar. Þessi ákvörðun fyrrv. ríkisstj. var tilkynnt með pompi og prakt í blöðum þegar hún var tekin og hlaut margra dálka fyrirsögn í Morgunblaðinu, ef ég man rétt, og þá þótti Morgunblaðinu þetta mikil og góð framkvæmd og ráðh. fyrrv. ríkisstj. sérstakir ábyrgðarmenn fyrir þær sakir sem þar var frá skýrt. Nú er um það að ræða, að Alþ. staðfesti þessa ráðstöfun. Þá kemur hv. þm. Matthías Bjarnason upp, fyrrv. ráðh., og raunverulega fer þess á leit að Alþ. hnekki nú ákvörðun sem hann tók sjálfur í ráðherraembætti fyrir nokkrum mánuðum. Þeir ráðh., sem réðu þessum málum fyrir nokkrum mánuðum, koma nú til Alþ. og biðja Alþ. um að hnekkja þeim ákvörðunum, sem þeir sjálfir hafa tekið, og gera þá þar með að samningsrofum. Þeir óska eftir því, þessir menn, að Alþ. leiðrétti þeirra eigin mistök og láti núv. hæstv. ríkisstj. svíkja samninga, gerast samningsrofa gagnvart samkomulagi sem hæstv. fyrrv. ríkisstj. gekk frá.

Flokksstjórn Alþfl. fjallaði ekki um það, hvort hv. 1. þm. Vestf. gæti farið heim til sín í jólaleyfi degi fyrr eða síðar. Það voru ýmis þýðingarmeiri mál en það rædd á flokksstjórnarfundi Alþfl. í gær. En ég er alveg sannfærður um að flokksstjórn Alþfl. hefur ekkert við það að athuga þó að hv. 1. þm. Vestf. fari í jólaleyfi strax.