21.12.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 1968 í B-deild Alþingistíðinda. (1645)

54. mál, fjárlög 1979

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég hef ákaflega fáu við það að bæta sem hér hefur verið sagt. Það er að sjálfsögðu ánægjulegt að veita því athygli, hversu margir hv. þm. Sjálfstfl. standa nú ræðuvakt. Allt frá því að þeir komu til þings í haust hefur sú stefna verið af þeim mörkuð, eftir blaðafrásögnum að dæma, að ávallt skyldi a.m.k. einn sjálfstæðismaður tala í hverju máli. Þeir hafa gert það allrækilega í kvöld og staðið sína „plikt“ með miklum sóma.

Eins og Vilmundur Gylfason tók fram áðan er það ljóst, að við sögðum frá því strax við 1. umr. fjárl. að við ætluðumst til þess að ákveðnar leiðréttingar yrðu gerðar annars vegar á beinum sköttum, hins vegar á stefnunni í landbúnaðarmálum. Nokkru hefur fengist áorkað í þessu sambandi varðandi beinu skattana, þar sem till. er gerð um að skattvísitala hækki úr 143 í 150 miðað við 100 stig árið 1978. Um þetta hefur að sjálfsögðu tekist samkomulag á milli stjórnarflokkanna. Þessu ráðum við ekki einir, þessu ráðum við með öðrum, um það höfum við gert samkomulag.

Hæstv. landbrh. hefur einnig lagt fram frv., sem felur í sér nokkra stefnubreytingu í landbúnaðarmálum, og við Alþfl.-menn bindum talsverðar vonir við ýmsa þætti þess frv. Við hefðum hins vegar kosið að fá að sjá við fjárlagaafgreiðslu núna, að stefnt væri að ákveðinni niðurstöðu þegar á næsta ári og sú niðurstaða boðuð í fjárlagafrv. Við biðum að sjálfsögðu eftir því, eftir að við höfðum tjáð hæstv. fjmrh. þessa ósk okkar við 1. umr., hvort hann hygðist leggja fyrir fjvn. einhverjar beinar till. í því efni. Þegar það var ekki gert var okkur fulltrúum flokksins í fjvn. falið að sýna fulltrúum hinna stjórnarflokkanna í meiri hl. hugmyndir okkar og óska eftir afstöðu til þeirra, eins og fram kom áðan. Það gerðum við þannig að við kynntum þessar till. okkar fyrir fulltrúum hinna stjórnarflokkanna. Okkur fannst rétt að kynna þær einnig fyrir þingheimi, eins og við höfum gert með því að flytja brtt. á þskj. 279. Það hefur hins vegar komið fram í umr. um málið, að þessar till., eins og sagt var frá, njóta ekki stuðnings þingflokka stjórnarflokkanna og ég veit ekki annað en sama gildi um þingflokk Sjálfstfl. Þannig er enginn þingflokkur á þessu þingi annar en þingflokkur Alþfl. reiðubúinn til fylgis við þetta mál. Þegar svo var komið málum, eins og ég held að ljóst megi vera, var óskað eftir því við okkur, að við létum ekki reyna á þessar till. í atkvgr. Á þessa ósk höfum við fallist. Við höfum orðið við tilmælum um að láta ekki reyna á þessar till. við atkvgr.

Það er að sjálfsögðu ljóst öllum þeim sem eitthvað þekkja til landbúnaðarmála, að sú stefna, sem boðuð er í till., er í samræmi við þá stefnumótun í landbúnaðarmálum sem Alþfl. hefur boðað á undanförnum árum. Hér er ekki um það að ræða, eins og hv. þm. Friðrik Sophusson sagði áðan, að flytja þetta og þetta margar milljónir af einum lið innan sama málaflokks yfir á annan. Þarna er um það að ræða að hverfa frá fjárfestingarstefnu í landbúnaði, sem ekki hefur skilað nægjanlegum árangri, og nota það fé, sem þannig var varið, til annars konar aðstoðar við landbúnaðinn, m.a. til þess að greiða fyrir því, að bændur geti notið orlofs eins og aðrir einstaklingar í þessu landi. Hins vegar er það ljóst, að þarna er einnig um að ræða talsverðar lækkanir á greiðslum vegna landbúnaðarins, þ.e.a.s. á ábyrgð útflutningsuppbóta. Við settum fram hugmyndir um hvernig bæri að verja því fé, ef samkomulag gæti tekist við þingflokka hinna stjórnarflokkanna um málið.

Af þessu má ljóst vera að till. á þskj. 279 eru ekki margar ólíkar tillögur, heldur ein samstæð tillaga. Það væri fjarri okkur að fara að samþykkja eina eða aðra einstaka till. úr þessari heildarmynd af stefnu okkar, sem við erum að reyna áð gefa hér, og fráleitt af þeim sem kynnu að vera sammála okkur í þessari stefnumörkun sem hér fer fram að láta sér detta í hug að hægt sé að greiða fyrir stefnubreytingu í landbúnaðarmálum með þeim hætti.

Vinnubrögð stjórnarandstæðinga í þessu máli koma svo best í ljós af því, að hv. þm. Ellert B. Schram, sem talaði áðan, er flm.till. um breytingu á skattvísitölu úr 143 í 152 stig. Þeir eru þrír, sjálfstæðismennirnir sem flytja þessa till. Hv. þm. virðist ekki hafa gert sér grein fyrir því, að hann var þegar búinn að leggja fram till. í málinu þegar hann kom upp í ræðustól áðan og gerði 2. tölul. á þskj. 279 að brtt. sinni. Ég held að það væri rétt fyrir þá sjálfstæðismenn að fara sér heldur varlegar og a.m.k. gefa sér tíma til þess að lesa þær till. sem þeir flytja sjálfir, áður en þeir fara að bæta við sama mál mörgum till. öðrum. (Gripið fram í: Þetta var varatillaga.) Það var ekki tekið fram, að þetta væri varatillaga. Ég held að það væri öllu réttara að þeir sjálfstæðismenn létu sér nægja hver og einn að flytja eina till. um sama mál.