26.10.1978
Sameinað þing: 9. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

5. mál, iðngarðar

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi við þessa þáltill. um iðngarða sem hér er til umr. Það er mikill áhugi á þessu máli víðs vegar um land. Sveitarstjórnarmenn og iðnaðarmenn hafa um árabil rætt þetta mál, á hvern hátt væri mögulegt að koma upp aðstöðu til eflingar ýmiss konar iðnaði. Á ráðstefnu Sambands ísl. sveitarfélaga um iðnaðarmál í sept. 1977, í framhaldi af degi iðnaðarins, gerði stjórn sambandsins eftirfarandi samþykkt sem send var stjórnvöldum, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga telur að bygging iðngarða sé mikilsverður þáttur við alhliða iðnþróun í landinu.

Hún telur nauðsynlegt að kannað verði til hlítar, hver teljist eðlileg hlutdeild sveitarfélaga á þessu sviði, ef til kemur, og hvernig málum verði skipað best fjárhagslega, tæknilega og stjórnsýslulega, m.a. hvort nauðsynlegt sé að setja sérstaka löggjöf um þetta efni.

Hún samþykkir að kanna undirtektir ríkisvaldsins í þessu máli í samráði við samtök iðnaðarins og væntir þess, að á komist góð samvinna hlutaðeigandi aðila um athugun þessa þýðingarmikla máls.“

Hefur málið verið í athugun í iðnrn. síðan.

Á ráðstefnunni kom fram að iðngarðar, sem byggðir væru upp af bæjar- og sveitarfélögum, hefðu ekki möguleika á að fá lán úr Iðnlánasjóði nema breytt yrði reglum sjóðsins, og var lagt til að hann fengi sérstakt lán úr Framkvæmdasjóði sem endurlánað yrði til sveitarfélaga til byggingar iðngarða.

Bygging iðngarða af hálfu bæjar- og sveitarfélaga væri mjög jákvæð, ekki síst ef fyrirtækjum gæfist kostur á að ganga inn í slíkar byggingar á leigukaupasamningi. Þá væri þeim ekki íþyngt of mikið með stofnkostnaði. Þetta yrði til að efla og auka fjölbreytni í atvinnuuppbyggingu, ekki síst við að koma upp nýjum iðnaðar- og þjónustufyrirtækjum víðs vegar um landið, þar sem víða ríkir nú vandræðaástand á þessu sviði, t.d. í sjávarþorpum.

Einstaklingar og smærri fyrirtæki hafa ekki fjármagn til bygginga, en gætu komið sér fyrir rekstrarlega. Jafnframt auðveldar þetta fyrirkomulag skipulag og gerir kleift að hafa mörg fyrirtæki undir sama þaki.

Mörg sveitarfélög eru tilbúin að ráðast í slíka fjárfestingu ef lánagrundvöllur er fyrir hendi. Er víða verið að vinna að skipulagi í þessu skyni.

Ég tek undir rökstuðning hv. frsm., 1. þm. Suðurl., og mæli eindregið með samþykkt tillögunnar.