21.02.1979
Neðri deild: 52. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2706 í B-deild Alþingistíðinda. (2130)

73. mál, samvinnufélög

Þórarinn Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins víkja að nokkrum atriðum sem hefur verið beint til mín og þá helst af hv. 2. landsk. þm., Finni Torfa Stefánssyni. Mér þykir leitt að hann skyldi misskilja ýmislegt í orðum mínum, en ég vona að hann eigi þess kost að fara betur yfir það seinna, enda var hann ekki hér inni þegar ég byrjaði mína ræðu. Ég held að ég hafi rækilega tekið það fram, að ég vildi gjarnan líta á þá hlið málsins, að hver félagi í samvinnufélögunum ætti sem mestan kost á því að beita sínu valdi eða sínum rétti í samvinnufélögunum. Það held ég að sé reynt að gera eftir því sem kostur er, en það má e.t.v. betrumbæta það. Kannske er hægt að finna einhverja betri leið. Ég varaði aðeins við þeirri leið sem hér er bent á, og vil ég þá gera nokkru nánari grein fyrir einstökum þáttum sem minnst hefur verið á.

Hv. þm. sagði m.a. í byrjun ræðu sinnar, að ég hefði sagt að allt vald yrði dregið til Reykjavíkur. Ég vil gjarnan undirstrika það, að það er slæmt þegar menn slíta úr samhengi það sem sagt er. Ég get endurtekið það sem ég sagði í því sambandi og það væri kannske rétt, en mér finnst þess ekki þörf, hann getur sjálfsagt lesið það. Ég sagði á þá leið, að það væri hætt við að það yrði til þess að valdið drægist meira en nú er til Reykjavíkur. Ég skal endurtaka það sem ég sagði síðast í því sambandi, það er svona: Athyglisvert er, að sú regla gildir nú um kosningar í sambandsstjórn, að hver landshluti eigi ætíð fulltrúa í stjórninni. Í samkeppniskosningum gæti slíkt jafnvel raskast og jafnvel farið svo, að meiri hl. væri frá einu landshorni.

Ég bað hv. þm. að gera nánari grein fyrir því, hvernig hann hygðist koma þessu þannig fyrir að það yrði ekki heldur yrði reynt að hafa sem mest jafnvægi í þessari kosningu. Hann vék ekki að því í sinni ræðu, ekki með einu orði, en sagði að það yrði nánar gengið frá því, að mér skildist með reglugerð eða einhverju þess háttar. Það má segja sem svo að það væri hægt, og ætla ég ekki að fara nánar út í það. En ekki sýnist mér það vera hægðarleikur ef á að kjósa á hverju ári sambandsstjórn, eins og gert er ráð fyrir, — 40 þús. félagsmenn eiga að kjósa sambandsstjórn á hverju ári.

Þá sagði hv. þm. líka að ég hefði sagt að hér væri um valdheitingu að ræða, og hann taldi að það væri ekki um valdbeiting að ræða. Mér finnst leitt hvað hann hefur tekið illa eftir því sem ég sagði í því sambandi. Ég held að ég verði að rifja upp það sem ég sagði í fyrri ræðu minni. Ég sagði á þessa leið: Flm. frv. segja að nauðsynlegt sé að breyta til við kjör stjórnar Sambandsins til þess að lýðræði sé í heiðri haft sem sagt sé að eigi sér stað í atvinnulífi hjá ýmsum nágrannaþjóðum okkar. Til þess á að gjörbreyta félagsformi almannasamtaka með valdboði.

Þetta telur hann að ég hafi sagt að væri valdbeiting. Það er náttúrlega að nokkru leyti rétt, það er ætlast til þess að setja lög um þetta. En ég taldi æskilegra að hafa samráð við viðkomandi samtök áður en væri farið að setja lög, eins og ég tók greinilega fram í ræðu minni.

Þá vék hv. þm. líka að því, að forstjórar og stjórn Sambandsins hefðu ekki samband við hinn almenna félaga úti um landið. Það er reyndar búið að gera rækilega grein fyrir því, hvernig þessu er háttað. Það eru um 50 kaupfélög sem þarna koma til, og í lögum um samvinnufélög er greinilega kveðið á um þetta. En eins og ég er búinn að segja áður er hér um það að ræða, að það á að setja lög um þessa hreyfingu sem ekki hefur þó verið með einu orði óskað eftir frá hreyfingunni sjálfri, og tel ég mjög óæskilegt að svo sé að unnið. Ég hugsa reyndar að það sé einsdæmi.

Ég vil að lokum segja það, að það er alltaf nauðsynlegt að vera til viðtals um að breyta ýmsum þáttum í okkar félagslegu störfum. Ég held að þessi hv. þm. ætti að vinna að því, að sem víðast í hinum almennu félögum gæti orðið sem mest og best samvinna innan þeirra. Þá mundi það félagsstarf, sem unnið er víða um landið, enn betur ná tilgangi sínum. En ég tel ótækt að byrja svona á því, og þess vegna mótmælti ég þessu frv.