26.02.1979
Neðri deild: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2774 í B-deild Alþingistíðinda. (2198)

73. mál, samvinnufélög

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki í hyggju að taka þátt í þessum umr., en sá virðulegi þm. Vilmundur Gylfason er ákaflega laginn — eða hitt þó heldur. Þarna þarf maðurinn að koma höggi á Samband ísl. samvinnufélaga með lögum frá Alþingi og þá var hann svo hygginn, til að afla sér fylgis við þessa till. sína, að hann ræðst með „krítik“ og offorsi á verkalýðshreyfinguna. Þá leitar á mann það sem hv. þm. Halldór E. Sigurðsson sagði: Verður hér látið staðar numið? — Eftir að hafa hlustað á Vilmund Gylfason er maður sannfærður um að svo sé ekki.

Það væri freistandi að fara allítarlegum orðum um þetta frv. sem ég hef ekki tíma eða aðstöðu til. En við skulum fyrst taka ýmsar fullyrðingar Vilmundar.

Hann heldur því fram t.d., að 80% hafi verið á móti lögunum 1. og 2. mars, en 80% hafi verið á móti aðgerðunum. Heimildin er nú ekki afleit: skoðanakönnun Dagblaðsins. Síðar vitnar hann í bresk verkalýðsfélög, sem standa nú í deildum, og bendir á að nokkuð hliðstæð niðurstaða sér þar. Sannleikurinn er sá, að þetta dæmi um bresku verkalýðsfélögin er ákaflega illa valið. Bresk verkalýðsfélög, einstök félög, hafa gengið ákaflega langt í verkfallsaðgerðum — aðgerðum sem eru óþekktar hér á landi. Það er t.d. ákaflega skýrt einkenni að hversu mögnuð og harðsnúin verkföll sem hér geisa hjá almennum verkalýðsfélögum, þá er rekstur sjúkrahúsa með öllu óhultur og eftir því sem segja mér þær systur sem ráku Landakot aldrei tryggður betri rekstur en á meðan á verkföllum stóð. Hafi komið til rekstrarstöðvunar eða einhverra óþæginda á sjúkrahúsum, þá hefur það verið á ábyrgð stétta sem eru betur launaðar og betur tryggðar en menn eru hjá almennum verkalýðsfélögum.

En ég vil gera örstutta aths. í sambandi við 1. og 2. mars. Við skulum t.d. líta á verkalýðsfélag hér í Reykjavík, Dagsbrún. Þar er boðað til fundar í Austurbæjarbíói, þar er vinna lögð niður kl. 5 að degi til og þar er skipulagt að öllum sé ekið frá vinnustað til fundarstaðar. Þetta hús tekur 800 manns í sæti og sennilega 400 í viðbót, ef því er að skipta. Þar eru þessi mál rædd, þar eru ákvarðanir teknar. Hver er niðurstaðan? Niðurstaðan er sú, að af 4000 félagsmönnum fylgja innan við 100 ekki þessari samþykkt. Hitt er rétt, að hin og þessi samtök og einstök félög gerðu ekki um þetta sérsamþykktir, — Alþýðusambandið sem slíkt getur ekki bundið einstök félög, enda aðgerðin ákaflega hvöss og sérstæð, — en ég vil aðeins benda á þetta einstaka dæmi máli mínu til sönnunar.

Það er talað um fámennisstjórnir, um að það skuli eiga sér staða leynilegar kosningar. Ég skal ekki ræða mikið um Samband ísl. samvinnufélaga. Ég hef ekki tekið þátt í störfum þess og er þar ekki kunnugur. En ég hef verið í stjórn Dagsbrúnar í yfir 20 ár. Ég man eftir því, að ár eftir ár voru allsherjarkosningar með yfir 3000 mönnum á kjörskrá, og ekki nóg með að þær væru einu sinni á ári, heldur voru einnig, meðan alþýðusambandsþing var haldið annað hvert ár, líka allsherjarkosningar til alþýðusambandsþings, þ.e.a.s. tvennar allsherjarkosningar á því ári. Ég sé nú ekki þann skort á lýðræði sem í þessu ætti að felast, og ég er ekki í sjálfu sér viss um að það hafi verið verkalýðshreyfingunni að öllu leyti til góðs, þó kosningar séu sjálfsagðar af og til, að standa í hatrömmum allsherjarkosningum tvisvar á ári.

Verkalýðsfélög eru öllum opin, þau hafa sín lög um kosningar og ef þau lög ganga skemmra en lög Alþýðusambandsins um kosningar, þá er hægt að áfrýja til Alþýðusambandsins. Þessi kosningarréttur er ekki þrengri en það, að kosningar í stjórn félaga — við skulum taka Dagsbrún sem dæmi — standa í tvo daga. Og það er ekkert verið að velja í félagið. Félagið er, eins og öll verkalýðsfélög, samkv. lögum öllum opið og vilji stjórn hafna einhverjum manni er ekkert auðveldara en láta Félagsdóm dæma viðkomandi mann inn þegar í stað. Gengur slíkt fljótt fyrir sig og um það eru ekki deilur.

Að vísu fjallar þáltill. þessi um sambandsstjórn Sambands ísl. samvinnufélaga, að kosið skuli þar árlega beinni, leynilegri kosningu. Þetta er gert í verkalýðsfélögunum. Kosningarrétt og kjörgengi hafa allir félagsmenn. Hitt er annað mál, að það eru kosnir fulltrúar á þing Alþýðusambandsins og það eftir ákveðnum reglum. Það má vel vera að gagnrýna megi einhverja þætti í reglum þessara félaga, um að laumað sé auglýsingu í hlað o.s.frv. Þó er yfirleitt, og ég vitna nú í mitt verkalýðsfélag, tiltekið í lögum að kosning skuli fara fram seinni hluta janúar.

Það er ekki nema tvær helgar á árinu sem þessi kosning getur átt sér stað, svo að ekki er hægt að lauma kosningu fram hjá félagsmönnum. Þetta er beinlínis bundið í lögum.

Ég held að þegar rætt er um þessi mál verði að hafa í huga að Alþýðusambandið sjálft eða starfshættir þess eru orðnir þungir í vöfum, séu ekki í samræmi við nútímaþjóðfélag. Það get ég fallist á í ýmsum atriðum. En sambandið við hinn almenna félagsmann, lifandi samband milli stjórnar og félagsmanns, verður ekki tryggt í lögum. Þar þarf allt annað til. Eldlegur áhugi og lifandi starf þarf að leika um sali, stofnanir og samtök. En þó að hv. þm. Vilmundur Gylfason kæmi einhverjum lagaákvæðum fram um að sambandið við félagsmenn skuli vera svo og svo lifandi og gott held ég að það breyti engu í reynd. Þegar verið er að ræða um fámennisstjórn, þá efast ég um að það sé víða jafnaðgengilegt og er í flestum verkalýðsfélögum að grípa til stjórnarkjörs og bjóða fram á móti stjórn. Og umfram alla muni: Við skulum ekki láta okkur detta í hug að fara að negla það niður í lögum. Þar ætti Vilmundur Gylfason að leita til flokksbræðra sinna í verkalýðshreyfingunni. Það er sjálfsagt að ræða þar um starfshætti og skipulag, en ekki fara að negla það niður í lögum. Slíkt hefur komið fram í hvers konar till. í sambandi við breytingar á vinnulöggjöf. Það hefur komið fram í alls konar frv., þar sem vald félaganna sjálfra er skert og þar sem reynt er að skerða ákveðið valdsvið þessara félaga og ríkisvaldið ætlar að fara að grípa inn í varðandi boðun verkfalla o.s.frv.

Ég væri reiðubúinn þegar betur stæði á að ræða við Vilmund Gylfason nánar um skipulag og vinnubrögð verkalýðshreyfingar, hvort þau séu stirðnuð, hvaða aðgerðir hafi verið gerðar til að mæta hinni almennu félagslegu deyfð, sem hrjáir mörg félög í landinu, og hvort starfsháttum hafi verið breytt nægilega. Það er allt til umr. Það er það sem félögin sjálf og Alþýðusambandið sjálft verða að gera. En þótt Vilmundur Gylfason sé kosinn á þing, hvort sem menn álíta það ógæfu samtíðarinnar eða ekki, er ekki hægt að breyta verkalýðshreyfingunni með lögum og fara að negla hana niður með lagaboði. Þeir, sem kusu þennan hv. þm., a.m.k. allmargir þeirra, mundu þakka pent fyrir þau lagaboð.2198