27.02.1979
Sameinað þing: 58. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2805 í B-deild Alþingistíðinda. (2217)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er oft þannig þegar stjórnmálamenn ræða alvarleg mál, þá einkum og sér í lagi efnahagsmál, sem ekki eru skemmtileg umr., að þær hafa í för með sér skemmtikrafta til að létta mönnum lífið. Mér finnst að hv. síðasti ræðumaður, sem flutti hér mál sitt, gegni slíku hlutverki í íslenskri pólitík nú orðið og hefur þá lítið lagst fyrir kappann. Við vitum að hæstv. forsrh. er góðgjarn maður og hefur m. a. sérstakt lag á því að leita til hæfileikamanna um störf í þágu ríkisstj., jafnvel ágætra manna úr öðrum flokkum, eins og blaðafulltrúans sem hæstv. forsrh. réð til ríkisstj. Ég vil því leggja það til eftir þá skemmtilegu ræðu sem ég heyrði hjá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni áðan, að ríkisstj. stofnaði til embættis skemmtikrafts ríkisstj. og réði hv. þm. til starfa við það embætti, því að óneitanlega væri skemmtilegt að ræða efnahagsmálin, ef ávallt væri hægt að gripa til slíks skemmtikrafts til þess að létta mönnum lífið inn á milli.

Að öðru leyti ætla ég ekkert að tala um það, sem kom fram frá þeim hv. þm. stjórnarandstöðunnar sem komu hér upp áðan. Við vitum það þm., og hv. þm. Stefán Jónsson líka, að þeir sjálfstæðismenn hafa verið í pólitísku orlofi síðan kosningabaráttu lauk og hafa ekki lokið sinni orlofsferð enn. Þeir eru m. a., hv. sjálfstæðismenn, eftir því sem málgögn þeirra segja, að semja sér efnahagsstefnu allar götur til ársins 2000. Ekki veitir af, ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Traustar heimildir skýra frá því, að sjálfstæðismenn séu komnir í þessu mikla verki sínu aftur til ársins 1974 og við skulum alls ekki tefja þá ágætu menn frá þeim þjóðhagslegu mikilvægu störfum fyrr en þeir a. m. k. verða komnir aftur til okkar tíma. Ég ætla því ekki að fara öllu lengra út í umr. um tillag það, sem þeir fluttu áðan, hv. skemmtikraftur ríkisstj. og hv. þm. Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstfl.

Það, sem ég gjarnan vil hins vegar taka fram, er það, að vakin hefur verið athygli á því af hæstv. forseta að það sé til mikils mælst af hv, þm. Vilmundi Gylfasyni að greidd séu atkv. um beiðni hans um afbrigði. Hæstv. menntmrh. hefur sagt að þm. neiti að lúta þingsköpum, og hv. 1. þm. Austurl. hefur sagt að það sé ekki í samræmi við þingsköp að ganga til atkv. um afbrigði um mál sem ekki sé orðið þingmál. Ég vil vekja athygli hv. 1. þm. Austurl. á því, að þegar búið er formlega að útbýta máli á þingfundi er málið þar með orðið þingmál. Það eru einnig fjölmörg dæmi fyrir því að afbrigði hafi verið veitt um mál sem ekki hefur einu sinni verið útbýtt. T. d. þegar afbrigði hafa verið veitt varðandi afgreiðslu fjárl. og brtt., sem fluttar hafa verið, hefur hv. Alþ. veitt afbrigði um að þær megi koma fyrir þó svo þær hafi aðeins verið afhentar hæstv. forseta skriflega og ekki sé búið að útbýta till.

Vissulega er það rétt, að þegar búíð er að — (Gripíð fram í.) Ósköp hlýtur hann, hæstv. forseti, að hafa gengið illa þessi þingflokksfundur sem boðaður var skyndilega hjá Alþb. rétt áðan. Þeir hv. Alþb.-menn virðast ómögulega getað setið kyrrir í sætum sínum þegjandi. Ég held að það væri ráð að þeir héldu áfram þingflokksfundi sínum og lykju þeim umr. sem þeir auðsjáanlega hafa verið að hefja uppi í Hlaðbúð rétt áðan. En það sem ég vildi gjarnan taka fram. — (Gripið fram í.) Það virðist sem hv. 1. þm. Austurl. sé brátt líka. — Ég vil taka fram í þessu sambandi, að það er alveg fráleitt að till., sem búið er formlega að útbýta í þingi, sé ekki þingmál. Það var fyrsta verk hæstv. forseta á þessum fundi að tilkynna útbýtingu á þáltill. hv. þm. Vilmundar Gylfasonar. Þar með er málið orðið þingmál og þar með getur þingheimur gengið til atkv. um það, hvort hann vill að um þetta mál verði viðhöfð afbrigði frá þingsköpum. Eðlileg ósk Alþb. kann það að vera, sem kom frá hæstv. menntmrh., að þeir þyrftu að fá a. m. k. tvo sólarhringa til þess að átta sig á því, hvort þeir ætluðu að greiða þáltill. atkv. eða ekki. Ég vil aðeins benda hæstv. menntmrh. á það, að hann er nú þegar búinn að fá tuttugu sinnum meiri tíma til þess að átta sig á efni þessarar tiltölulega einföldu þáltill. en hann taldi sig þurfa til þess að taka afstöðu til frv. hæstv. forsrh. á 60 vélrituðum síðum á fyrsta fundi ríkisstj., þegar hæstv. menntmrh. var sýnt þetta frv. Ég held því að það sé alveg útilokað að honum sé ekki treystandi til þess — og flokksbræðrum hans — að átta sig á þessari einföldu þáltill. á einum sólarhring eða svo.

Ég vil sem sé vekja athygli á því, að hér er ekki til mikils mælst, hæstv. forseti, sú ósk kemur oft fyrir þingið, hæði fyrir Sþ. og deildirnar að veitt séu afbrigði frá þingsköpum til þess að mál geti komið fyrir — mál af því tagi að þau eru jafnvel þýðingarminni en það mál sem hér um ræðir. Og það er ekki verið að neita að lúta þingsköpum, það er verið að fara þess á leit að þessi eðlilega beiðni, sem mörg fordæmi eru fyrir, sé afgreidd eins og þingsköp mæla fyrir um, þ. e. a. s. að alþm. gangi til atkv. um þessa beiðni og taki afstöðu til þess, hvort þeir vilja fallast á hana eða ekki. Það er hins vegar mjög eðlilegt að það fari fram nokkur efnisleg umr. um málið, vegna þess að í efnislegri umr. eru fólgnar röksemdirnar fyrir því að leyfa afbrigðin. (StJ: Eru afbrigðin undir þjóðaratkv. líka?) — Er algerlega útilokað, hæstv. forseti, að þeir Alþb.-menn geti haldið flokksfundi sína í eigin þingflokksherbergi og þurfi ekki að ástunda köll úr stólum sínum í þinginu. Ég hef sagt hv. þm. Stefáni Jónssyni áður, og ég skal endurtaka það við hann nú, ef hann man það ekki, að stólarnir, sem þarna eru, og þeir, sem þar sitja, eiga að þegja. Þeir, sem ætla að tala hér í þingsölum, fara upp í ræðustól. (Gripið fram í.) Ég held að það sé ekki ástæða til þess að munnhöggvast við þá Alþb.-menn ýkjamikið núna. Þeim virðist vera mikið í mun að fá að kallast á við mig, en ég hef munnhöggvist við þá fyrr og ég sé enga ástæðu til þess að bæta við það. Ég skal gera það síðar, ef þeir ágætu Alþb.-menn kæra sig um. En ég held að á meðan geti þeir dundað sér við að munnhöggvast innbyrðis.

Herra forseti. Það hefur komið fram, að auðvitað þarf að rökstyðja þá beiðni, sem hér hefur komið frá hv. þm. Vilmundi Gylfasyni, með efnislegri röksemdafærslu, og þó svo það geti orðið til þess að umr. verði nokkuð langar utan dagskrár, þá styttir það að sama skapi umr. sem verða kann um þessa þáltill., ef Alþ. fellst á að taka hana til umr. með þeim hætti sem óskað hefur verið eftir. Ég ætla samt ekki að orðlengja mjög mikið um málið, þar sem ég ætla að taka tillit til þeirrar beiðni hæstv. forseta að hafa þessar umr. ekki ýkjalangar.

Það er alveg ljóst að fyrstu ráðstafanir hæstv. ríkisstj., sem hún gerði í efnahagsmálum í sept. s. l., voru tímabundnar aðgerðir gegn verðbólgu, sem fólust fyrst og fremst í því að greiða niður vöruverð í vísitölu með álagningu skatta sem ekki voru í vísitölu. Engin ríkisstj. getur að sjálfsögðu lagt upp til þess að stjórna landinu í 4 ár á slíkum grundvelli, enda tók hæstv. ríkisstj. fram að þetta væru aðeins fyrstu aðgerðir, varanlegri aðgerðir mundu fylgja í kjölfarið. Eðlilegt hefði verið að þær varanlegu aðgerðir kæmu fram í kringum 1. des. Það var rétti tíminn fyrir þær varanlegu aðgerðir. Það gerðist hins vegar ekki, og við vitum allir hv. þm. hvers vegna. Við vitum hvers vegna ráðstafanirnar 1. des. voru því miður aðeins fólgnar í því að ná samkomulagi við verkalýðshreyfinguna um að breyta gerðum kjarasamningum um greiðslu verðhóta. Ég hef sagt það áður, að mér finnst það harla hart af mönnum, sem vilja kalla sig vinstri menn, að láta hafa sig til þess að ganga fyrir verkalýðshreyfinguna og krefja hana um að falla frá tilteknum réttindum til kaupgreiðslna sem henni ber, án þess að vera menn til þess að leggja jafnframt fyrir verkalýðshreyfinguna till. sínar um breytta efnahagsstefnu, um hvernig eigi að ná árangri með öðrum hætti en þeim að vinna hann ávallt á kostnað umsaminna launa verkafólks. Hafi verkalýðshreyfingin átt að rísa undir nafni 1. des., þá átti hún að krefjast þess af hæstv. ríkisstj. að hún legði slíkar till. fram jafnhliða því sem ríkisstj. óskaði eftir því við verkalýðshreyfinguna að hún félli frá kauphækkunum sem henni bar að réttum samningum. Við Alþfl.-menn vildum ekki að til þess þyrfti aftur að koma. Þess vegna lögðum við fram till. okkar um samræmda efnahagsstefnu þegar í desembermánuði, svo að hæstv. ríkisstj. fengi nægan tíma til þess að ræða slík mál og taka afstöðu til þeirra.

Hæstv. forsrh. tók undir þetta sjónarmið í umr. á Alþ. við afgreiðslu fjárl. í desembermánuði og lýsti því yfir, að hann mundi beita sér fyrir því, að vinna að gerð samræmdra efnahagstillagna á vegum ríkisstj. hæfist þegar að jólafríi loknu, og við það stóð hæstv. forsrh. En það var gersamlega ómögulegt að fá ákveðna aðila, sem það verk áttu að vinna með öðrum stjórnarflokkum, til að taka afstöðu til eða frá um ákveðin mál. Eftir heils mánaðar starf í ráðherranefndinni voru sumir þar hvorki hráir né soðnir og eru það ekki enn. Þess vegna neyddist hæstv. forsrh. til þess að leggja sjálfur fram frv. það sem hann hafði falið ráðherranefndinni að semja, en ráðherranefndin hafði heykst á vegna þess að ákveðnir aðilar þar voru hvorki hráir né soðnir og hafa hvorki hráir né soðnir verið allt frá því að núv. ríkisstj. var mynduð.

Og allt frá því að hæstv. forsrh. lagði till. sínar fram hefur þessi sami hráskinnaleikur haldið áfram. Frv. var mótmælt af einum stjórnarflokknum. Það er liðinn hálfur mánuður síðan þau mótmæli komu fram, en ekki ein einasta brtt., ekki ein einasta hugmynd, ekki ein einasta ný hugsun, ekki ein einasta brtt. eða breytingabeiðni hefur komið frá þeim flokki sem mótmælti frv. allan þann tíma. Hann hefur ekkert annað gert en að segja: Nei, nei, nei, við viljum ekki þetta. Við viljum ekki hafa þetta svona. Við viljum ekki að þetta sé þarna. Við viljum ekki að þessi grein orðist svona. En ekki kom ein einasta heil hugsun frá mönnunum sjálfum. Og hvað skal segja um slíkt framferði eftir að hafa setið við samningaborð innan og utan ríkisstj. allt frá því að kosningum lauk? Hvenær haldið þið að þeir menn, sem ekki verða soðnir á 8 mánuðum, verði fullsoðnir, þegar ekki er einu sinni komin upp á þeim suðan enn?

Hvers vegna viljum við Alþfl.-menn og hvers vegna vilja framsóknarmenn — ég tala ekki fyrir þeirra hönd, en ég þykist vita hug þeirra — að efnahagsstefna sé mótuð í upphafi ársins 1979? Af augljósum orsökum. Viðbrögð eins stjórnarflokksins hafa nú orðið til þess að sá ákveðni, en tímabundni átangur í baráttu gegn verðbólgu, sem náðist fyrst með aðgerðunum 1. sept. og síðan með aðgerðunum 1. des., er að tapast. Það, að Alþb. skuli ekki enn þá vera tilbúið að taka afstöðu, ekki enn þá hafa komið með neinar brtt. af einu eða neinu tagi, heldur lagt alla áherslu á að tefja, standa í vegi og hafast ekki að, þýðir að frá og með 1. mars — eftir 36 klukkustundir — er auðséð að við höfum tapað í slagnum við verðbólguna a. m. k. 4 prósentustigum. Sú ákvörðun þessara háu herra að geta ekki enn þá sagt hug sinn, að enn þá skuli ekki vera komin upp á þeim suðan eftir 8 mánuði, þýðir að í stað þess að við hefðum getað gert okkur vonir um að ná verðbólgu niður undir 30% í árslok, getum við nú ekki gert okkur vonir um að ná henni lengra niður með sömu ráðstöfunum en í 32–33%. Það breytir engu um kaupmátt tekna launafólks. Hann verður sá sami eftir sem áður. Þessi andstaða Alþb. breytir engu um kaupmáttarstigið, en hún hefur orðið til þess að við höfum tapað 4% í baráttunni við verðbólguna.

Við Alþfl.-menn viljum leiða í ljós, hverjir bera ábyrgð á þessu. Við viljum að fram komi að við erum reiðubúnir og höfum verið reiðubúnir síðan í desember að afgreiða samfellt frv. um alhliða aðgerðir í efnahagsmálum til að koma í veg fyrir að Ísland — og þ. á m. íslenskir launþegar-farist í því verðbólguflóði sem ella er fyrirsjáanlegt. Við erum reiðubúnir til þess, þó svo við gerum okkur það fyllilega ljóst og höfum aldrei neitað því, að slíkur árangur næst ekki nema með því að leggja talsverðar byrðar á þjóðina — þá erum við reiðubúnir til þess að leita umsagnar þeirra aðila sem hafa kosið okkur á Alþ. til þess að fara með umboð sitt varðandi stjórn þjóðarskútunnar, leita til þjóðarinnar sjálfrar. Við erum reiðubúnir til að standa að því að láta þjóðina dæma um þau mál sem við erum að berjast fyrir á Alþ. Hv. þm. Matthías Bjarnason má kalla íslensku þjóðina „Alþingi götunnar“ ef hann vill, en það er þó þetta „Alþingi götunnar“ sem hefur kosið Matthías Bjarnason til að sitja í þessum stól. Hann talaði ekki um „Alþingi götunnar“ þegar hann ávarpaði kjósendur sína vestur á fjörðum á s. l. vori og bað þá um að senda sig á þing aftur.

Við Alþfl.-menn erum reiðubúnir til að leggja frv. hæstv. forsrh., sem við höfum lýst yfir að við séum sammála, undir dóm þjóðarinnar og hlíta honum. (Gripið fram í: En þorið ekki í þingkosningar?) Við þorum líka í þingkosningar, vegna þess að afstaða okkar er ekki sú að reyna að sitja í þessum stólum eins lengi og við mögulega getum, eins lengi og sætt er. Okkar skoðun er sú, að við séum hingað kosnir til að framfylgja sannfæringu okkar. Við erum reiðubúnir til að berjast fyrir henni fram í rauðan dauðann og láta síðan kjósendur ráða og úrskurða eins og þeim ber. Við erum ekki komnir hingað til þess að sitja jafnlengi og hv. þm. Matthías Bjarnason ætlar að sitja. Við erum kosnir hingað til þess að gera hluti sem hv. þm. Matthías Bjarnason hefur aldrei getað gert. (Gripið fram í.) Nei. Mér finnst alveg rétt að leita umsagnar þeirra aðila sem valist hafa til forustustarfa t hinum ýmsu stofnunum þjóðfélagsins, en auðvitað er miklu nærtækara að leita umsagnar þjóðarinnar sjálfrar.

En ég vil að lokum, og læt þá máli mínu lokið, hæstv. forseti, til þess að halda ekki uppi of löngu málþófi áður en málið gengur til efnislegrar afgreiðslu, taka það fram, að manni finnst svolítið skrýtið að menn skuli láta hafa sig til þess að koma saman, eins og miðstjórn Alþýðusambands Íslands gerði 13. febr. s. l., daginn eftir að hæstv. forsrh. flutti till. sínar í ríkisstj., og gefa þar samhljóða ályktun um efnislega afstöðu miðstjórnar Alþýðusambands Íslands til tillagna formanns vísitölunefndar, sem hæstv. forsrh. Ólafur Jóhannesson tók síðan inn í frv. sitt, og kalla svo sömu miðstjórn saman til fundar 24 klukkustundum síðar og krefjast þess að afstöðunni, sem tekin var 24 stundum áður, verði breytt. Ég er með fyrir framan mig samþykkt miðstjórnar Alþýðusambands Íslands, sem gerð var 13. febr. s. l., þar sem fjallað var um till. formanns vísitölunefndar. Þessi samþykkt var gerð shlj. Þar segir m. a., með leyfi hæstv. forseta, í sambandi við nýjan grunn kaupgreiðsluvísitölu:

„Við undangengna samninga hefur tíðkast að setja grunnviðmiðun verðbóta í 100 við upphaf samningstíma. Ákvæði af þessu tagi er því eðlilegt við gerð kjarasamninga. Í dag er ekki um að ræða samningsgerð með grunnkaupshækkunum eða hliðstæðum breytingum, og breyting af þessu tagi miðað við s. l. nóv. 1978 leiðir til 0.5% minni verðhóta 1. mars en ella væri.“`

Þá segir m. a. um till. formanns vísitölunefndar um meðferð skatta:

„Val á skattheimtuformi og verðlækkunaraðgerðum ætti ekki að mótast af vísitölutilliti, heldur almennum afleiðingum þeirra. Í nefndinni höfum við [þ. e. a. s. fulltrúar Alþýðusambands Íslands] sett fram till. um að allir skattar verði teknir inn í tillögur um verðbótaútreikning. Fái það sjónarmið okkar ekki framgang er rétt að kanna hvort mögulegt sé að ná hliðstæðum árangri með þeim hætti að taka breytingar allra skatta og niðurgreiðslna út við vísitöluútreikning.“ — Það er kostur n. 2 hjá miðstjórn Alþýðusambands Íslands.

Síðan er bætt við:

Við teljum hins vegar að ekki sé mögulegt að mæla með neinum till. í því efni fyrr en ítarleg umr. hefur farið fram milli aðila og stjórnvalda um hvernig tryggja megi að stjórnvöld noti ekki hið breytta kerfi til þess að rýra kaupmátt ráðstöfunartekna með breytingu á sköttum eða niðurgreiðslum, svo og með hvaða reglum megi hindra að hægt sé að fara fram hjá vísitölukerfinu með styrkveitingum til atvinnurekenda“.

Orðrétt las ég upp úr samþykkt miðstjórnar Alþýðusambands Íslands frá 13. febr. s. l., þar sem miðstjórnin segir: Kostur nr. 1 að taka alla skatta inn í vísitöluna. Kostur nr. 2 að taka alla skatta og niðurgreiðslur út, en þá viljum við bara fá að semja við ríkisstj., ef það verður gert, um að tækifærið verði ekki notað til þess að fella niðurgreiðslurnar út eða hækka skatta.

Um viðskiptakjaravísitöluna sagði miðstjórn Alþýðusambands Íslands í þessari samþykkt sinni: „Ákvæðin um viðskiptakjaraviðmiðun virðast framkvæmanleg og möguleiki getur verið að taka tillit til breyttra viðskiptakjara við útreikning verðbóta. Sé viðskiptakjaraviðmiðun tekin upp verður að semja um viðmiðunartíma og nánara fyrirkomulag.“

Enginn, sem les þessar samþykktir, er í vafa um að þegar þessar samþykktir voru gerðar var miðstjórn Alþýðusambandsins að búa sig undir að semja við ríkisvaldið um einmitt þessar breytingar og tekur m. a. s. fram, að sumar þeirra séu bæði framkvæmanlegar og mögulegar og aðrar séu annar besti kosturinn að áliti verkalýðshreyfingarinnar. 24 klukkutímum síðar, þegar þingflokkur Alþb. hefur haldið fund sinn um till. forsrh., er miðstjórn Alþýðusambandsins aftur kölluð saman til að ræða sama mál. Þar er þess fyrst krafist, að þessari samþykkt sé svo rækilega breytt, að verkalýðshreyfingin kalli fulltrúa sína í vísitölunefnd út til þess að mótmæla sömu atriðum og 24 tímum áður var tekin sú afstaða til sem ég lýsti hér. Hvort sem sú hugmynd hefur fæðst í þessu húsi eða utan þess, að krefjast þess að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar í vísitölunefndinni yrðu kallaðir út, þá varð hún ekki ofan á. En ég tel það talsvert alvarlegt, þegar t. d. hluti miðstjórnar Alþýðusambands Íslands hefur byggt afstöðu sína á þessari samþykkt, sem gerð var 13. febr. í miðstjórn ASÍ, og vísað til hennar, að þá skuli miðstjórn Alþýðusambandsins og starfslið Alþýðusambandsins ekki sjá sóma sinn í að hirta samþykktina.

Og að lokum, hæstv. forseti. Hvað er á ferðum þegar menn láta hafa sig út í eftirfarandi — menn sem eru drengir góðir og réttsýnir? Þegar miðstjórn Alþýðusambands Íslands kom saman í gær til þess að fjalla um umsögn forsrh., þá myndast í þessum samtökum 40 þús. launþega á Íslandi meiri hluti og minni hluti, — mikill meiri hluti. og lítill minni hluti, að vísu. Að lokinni afgreiðslu málsins óskaði minni hlutinn eftir tvennu: Í fyrsta lagi að það kæmi fram í fréttinni frá Alþýðusambandinu, að það hefði verið um að ræða í miðstjórn Alþýðusambandsins skýran meiri hluta og minni hluta, hluti miðstjórnarmanna, fulltrúar stórra verkalýðsfélaga, hefði ekki greitt atkv. með umsögn meiri hlutans. Þessu neitaði forseti Alþýðusambands Íslands. Hann, sem er í oddi þessara voldugu samtaka, neitar þeirri sjálfsögðu beiðni minni hluta fulltrúa í miðstjórn ASÍ að fram fái að koma í frétt miðstjórnarinnar að það sé til minni hluti í samtökunum. Þá óskaði minni hlutinn eftir því, sem lét gera sérstaka bókun um afstöðu sína, að Alþýðusambandið birti bókun minni hluta um afstöðu hans um leið og Alþýðusambandið hirti samþykkt um afstöðu meiri hlutans. Einnig þeirri ósk var neitað. Minni hluti miðstjórnar Alþýðusambands Íslands fékk ekki að njóta þeirra mannréttinda: í fyrsta lagi að hann væri til og í öðru lagi að hann fengi að koma sjónarmiðum sínum á framfæri með sama hætti og meiri hlutinn. Minni hlutanum var tjáð það, þegar hann óskaði eftir því að bókun hans yrði send út, að því miður væri það ekki hægt því að búið væri að senda samþykkt meiri hlutans út.

Ég verð að segja eins og er, og byrja þá fyrst á því, að ég hef ávallt borið, og ber enn mjög mikla virðingu fyrir forustumönnum Alþýðusambands Íslands — mönnum eins og Snorra Jónssyni og hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni. En þarna tel ég að þeim hafi orðið á mjög alvarleg mistök, því að hvernig geta forsvarsmenn í samtökum 40 þús. launþega, sem lenda í meiri hluta í stjórn samtakanna, neitað þeim, sem í minni hluta eru, um þau sjálfsögðu mannréttindi að fá þess í fyrsta lagi getið að minni hlutinn sé til og í öðru lagi að minni hlutinn njóti þess jafnréttis á við meiri hlutann að fá bókun sína og skoðanir sínar birtar samtímis skoðunum meiri hlutans?

Ég veit ósköp vel að þau ríki eru til þar sem meiri hluti — ja, ég veit ekki einu sinni hvort um meiri hluta er að ræða — alla vega geta ráðandi öfl þar lýst því yfir að enginn minni hluti sé til og væri minni hluti til hefði hann enga skoðun. Ég veit að í sumum ríkjum eru forustumenn kosnir með 99.98% atkv. Í þeim ríkjum er þó látið í það skína að 0.02% minni hluti sé til. En ég hefði aldrei trúað því á Alþýðusamband Íslands og þá ágætu, traustu og farsælu menn, sem þar fara með stjórn, að þeir létu slíkt og þvílíkt henda sig að neita minni hluta stjórnarmanna Alþýðusambands Íslands um það í fyrsta lagi að láta þess getið í frétt Alþýðusambandsins, að sá minni hluti hefði verið til, og í öðru lagi um þau sjálfsögðu jafnréttissjónarmið, að minni hluti fengi að kynna álit sitt samfara því sem álit meiri hluta er kynnt. Þetta eru alvarleg mistök, sem jafnfélagsreyndir menn og drenglyndir og forustumenn Alþýðusambands Íslands eiga alls ekki að láta henda sig og mundu ekki láta henda sig nema vegna þess að þeir hafa orðið fyrir utanaðkomandi þrýstingi, sem e. t. v. á rætur að rekja ekki ýkjalangt frá þeim ræðustól sem ég nú stend í.