01.03.1979
Neðri deild: 56. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2912 í B-deild Alþingistíðinda. (2301)

202. mál, tímabundið olíugjald til fiskiskipa

Frsm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta mál efnislega, en ætla aðeins að benda á og ítreka það, sem komið hefur fram bæði hjá hæstv. sjútvrh. o hæstv. viðskrh., að meginefni frv. er fólgið í 1. gr. þess. Ég bendi í því sambandi á að í aths. við lagafrv. stendur orðrétt, með leyfi forseta:

„Hlutaskiptaákvæði kjarasamninga sjómanna og útvegsmanna gera það að verkum, að ekki er unnt að mæta kostnaðarauka af þessu tagi með hækkun almenns fiskverðs án þess að hlutir sjómanna hækki um leið.“

Vegna þess að svo stendur á er sú meginefnisbreyting gerð á hlutaskiptaákvæði kjarasamninga sjómanna sem fram kemur í 1. gr. þessa frv. Það er því rangt ef menn halda að aðeins í 2. gr. sé gerð breyting á hlutaskiptaákvæðum kjarasamninga sjómanna. Meginbreytingin, sem með lögum er gerð á samningum þessarar stéttar, er fólgin í 1. gr. Ég veit ekki til þess, að þeir tveir hv. þm., sem brtt. flytja, sem hér hefur verið til umr., hafi haft nokkuð við það að athuga að gerð verði sú meginefnisbreyting á frjálsum kjarasamningum sjómanna sem gert er ráð fyrir í 1. gr. Ég vil ekki fara öllu ítarlegar út í þessi efnisatriði, en aðeins undirstrika það sem kom fram hjá hæstv. sjútvrh. og hæstv. viðskrh. og er að sjálfsögðu meginefni. málsins.

Ég vil að lokum aðeins taka það fram, að ríkisstj. er ekki aðeins studd af þeim ráðh., 6, 7, 8 eða 9, sem í stjórnarstólunum sitja hverju sinni, heldur er ríkisstj. engu síður studd þeim flokkum sem veita henni meiri hl. hér á Alþ. Það er því vanalegt þegar ríkisstj. leggur fram mál, og þá ekki síst jafnviðkvæm mál og hér um ræðir, að hún leiti fyrst eftir því í þingflokkum sínum, hvort hún hafi stuðning við þá stefnu sem ríkisstj. er að leggja fram á Alþ. Þetta er yfirleitt vaninn og hefur verið vaninn að gera varðandi ég vil leyfa mér að segja öll stjfrv. hjá öllum ríkisstj. sem máli skipta. Ég vil taka það fram, að frv. þau, sem hér eru til umr. um ráðstafanir vegna olíuverðhækkana, voru með þeim hætti kynnt í þingflokki Alþfl. af hæstv. sjútvrh. og leitað eftir því í þingflokknum, hvort þm. gætu hugsað sér að standa að slíkri lagasetningu eða hvort þeir mundu, einhver þeirra, einn eða fleiri, vilja fá fram breytingar á frv. Og þá kom að sjálfsögðu fram, út á það leggja ráðh. Alþfl. þetta frv. fram og standa að því sem stjfrv., að þingflokkur Alþfl. styður málið.

Mér finnast það vera harla undarleg vinnubrögð ef allir ráðh. í þessari ríkisstj. gera ekki slíkt. Hvernig getur ríkisstj. lagt fram afdrifarík mál á Alþ. ef hún hefur ekki áður kannað hvort hún hafi stuðning við málið í þeim þingflokkum sem veita henni brautargengi? Og hvers konar samskipti eru það milli ráðh. og þingflokks, ef kemur í ljós í umr. á þingi, í miðjum klíðum þegar fjallað er um mál eins og þetta í síðari d., að sjálfur formaður þingflokks eins stjórnarflokksins er andvígur máli sem hans eigin ráðh. leggja fram? Vegna þessa langar mig til að spyrjast fyrir um það hjá ráðh. Alþb. eða hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, formanni þingflokks Alþb., sem e. t. v. hefur þegar kvatt sér hljóðs, og a. m. k. stendur ekkert í vegi fyrir því að hann geri það, hvort þetta mál hafi aldrei verið kynnt í þingflokki Alþb. áður en það var lagt fram sem stjfrv. Ef það hefur ekki verið gert er að sjálfsögðu um að ræða ný vinnubrögð, sem ekki er vani að viðhafa. Ef ráðh. stjórnarflokks kynna ekki mál, sem þeir eru að leggja fyrir þingið, fyrir þingflokki sínum, og þá ekki síst þegar um svo afdrifaríkt mál er að ræða, þá eru það ný vinnubrögð á Alþ. Væri gott að fá upplýst hvort svo er. Hafi ráðh. hins vegar gegnt þeirri sinni flokkslegu skyldu að kynna þingflokki sínum málið, þá hlýtur þessi afstaða hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar og Garðars Sigurðssonar að hafa komið fram. Þá ber ráðh. Alþb. að sjálfsögðu skylda til að skýra samstarfsmönnum sínum frá því, að þó að málið njóti e. t. v. meirihlutafylgis þm. Alþb. styðji þó tilteknir þm. ekki það mál.

Ég óska mjög eindregið eftir því, að þetta sé upplýst hér. Ég sé ekki neitt á móti því, að þetta komi fram, því að ég held að það hljóti að vera nauðsynlegt með tilliti til framtíðarsamstarfs þessara stjórnarflokka, hvort sem það verður stofnað á þeirra vegum þúsund ára ríki eða ekki, að það sé alveg ljóst — t. d. viljum við Alþfl.-menn gjarnan vita það, — þegar ríkisstj. leggur fram stjfrv., sem við höfum fjallað um með venjulegum og eðlilegum hætti, hvort við megum eiga von á því að t. d. Alþb. sé á öndverðum meiði í slíkum málum við sína eigin ráðh., þannig að vera kunni að okkar menn í ríkisstj. eða á Alþ. þurfi að taka upp — hvað eigum við að segja — diplómatísk samskipti við þingflokk Alþb. til þess að fá úr því skorið hvort þm. Alþb. séu á sama máli og þeirra eigin ráðherrar.

Hins vegar kom fram hjá hv. 1. þm. Austurl. í ræðu á Alþ. í gær, að illa horfði með ýmis mál ríkisstj. því að þau væru á svo torskildu máli að ekki væri fyrir alla að skilja þau öðruvísi en málið væri þýtt. Það getur vel verið að þetta sé skýringin. Það getur vel verið að gáfumenn Alþb. hafi skotist í þýðingunni og annaðhvort hafi ráðh. flokksins ekki skilið hvað í frv. stóð, sem ég leyfi mér stórlega að efast um því að allt eru þetta greindir og gegnir menn, eða þá hitt, að þeir hafi gleymt að þýða það fyrir hv. 1. þm. Austurl. Það getur svo sem ósköp vel verið skýringin, að þarna sé ekki um að ræða samráðsbrest, heldur skort á þýðingu.