12.03.1979
Neðri deild: 61. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3194 í B-deild Alþingistíðinda. (2492)

190. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1979

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. um heimild til lántöku, ábyrgðarheimildir og aðrar ráðstafanir vegna fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1979 er nú hér til 1. umr. í fyrri d. þó að senn sé komið að miðjum marsmánuði. Þetta frv. og lánsfjáráætlun hefðu auðvitað átt að liggja fyrir við afgreiðslu fjárl., eins og við sjálfstæðismenn tókum þá fram. Hæstv. forseti þessara hv. d. sagði áðan að það væri til þess ætlast af ríkisstj. að hraða afgreiðslu þessa máls, og kom slík yfirlýsing hæstv. forseta mér ekki á óvart þó að hún hefði jafnvel komið fyrr frá hæstv. ríkisstj.

Þegar ég kom hér á þing fyrir allmörgum árum var mjög gildandi sú regla, að flokkar stjórnarliðs sem lögðu mál ríkisstj. fram, ræddu málin það ítarlega innan flokkanna áður en málin kæmu hér til umr., að þeir reyndu að stilla mjög í hóf ræðum sínum og tefja ekki fyrir framgangi mála. En nú er öldin önnur. Nú er tekin upp sú venja hér í þinginu að stjórnarliðar tala hver um annan þveran og megintíminn af ræðum þeirra fer í það að hnýta hver í annan. Nú var að ljúka máli sínu hv. 3. þm. Vestf. og hann hefur talað hér um þetta frv. í næstum því heilan klukkutíma. Meginþorrinn af þeim tíma fór í að snupra 4. þm. Vestf., formann þingflokks Alþfl., fyrir ræðu sem hann hélt um þetta mál fyrr. Síðast þegar þetta frv. var hér á dagskrá og til umr. hvarf skyndilega öll ríkisstj. eins og gröfin hefði gleypt hana. Daginn áður eða tveimur dögum áður talaði enginn um það, að hæstv. fjmrh. var þá ekki viðstaddur vegna þess að hann var sjúkur, en þennan dag var hann kominn til starfa og þá skeður það að ofan í umr. hér í þingi er ríkisstj. boðuð til ríkisstjórnarfundar. Þetta eru vinnubrögð sem voru harðlega gagnrýnd hér fyrr á árum, og ef ráðh. voru ekki viðstaddir umr. um mál, sem undir þá heyrðu, stóðu m. a. bústnir og miklir framsóknarmenn hér í ræðustól og neituðu að halda áfram ræðum sínum nema væri kallað í þessa ráðh. Ég man eftir slíkum atburðum og það oftar en einu sinni, oftar en tvisvar, þetta var algilt. Og þá var talin sjálfsögð skylda ráðh. að mæta við umr. En það koma nýir siðir með nýjum herrum. Þegar hin mikilvægustu mál, sem þeir leggja fyrir þingið, eru tekin hér til umr. þá hverfa þeir allir, þá detta þeir hér niður úr gólfinu og hverfa. Og það er móðgun við þingdeildina og það er móðgun við forseta d. að taka mál eins og þetta hér á dagskrá og sýna þinginu þá óvirðingu að hverfa burt þegar málið er til umr. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum og fordæmi þau.

Klukkan 15.45, þegar þetta frv. var síðast til umr., voru 9 menn hér í d. Það var forseti d., sem að sjálfsögðu gat ekki farið. Það voru tveir Alþb.-menn, einn framsóknarmaður fyrir utan forseta d., einn Alþfl.-maður og fjórir sjálfstæðismenn. Nú hefur töluvert vænkast frá því sem var undir miðri ræðu 3. þm. Vestf., því lengst af voru 8–9 manns hér inni í d. þegar þetta mikilvæga mál er til umr. En menn eru þó að koma inn og sitja hér og hlýða á umr.

Ég furða mig á því, að þm. stjórnarliðsins, sem talaði hér langt mál síðast þegar þetta frv. var til umr., hv. 6. þm. Reykv., Eðvarð Sigurðsson, og gagnrýndi margt í frv. og lánsfjáráætluninni, — að hann skyldi tala og flytja sína löngu og ítarlegu ræðu. Hann talaði mjög málefnalega og gerði ákveðnar aths., en enginn ráðh. var til þess að hlýða á þær aths. sem þessi stjórnarþingmaður hafði fram að færa. Nú höfum við heyrt það oftar en einu sinni og þá ekki síst hjá hæstv. forsrh., að ríkisstj., sem nú situr, ætli ekki að gera nokkurn skapaðan hlut nema í nánu samstarfi og samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og þá alveg sérstaklega verkalýðshreyfinguna. En þessi ágæti þm., 6. þm. Reykv., Eðvarð Sigurðsson, sagði að það hefði verið við þá rætt um ráðstöfunarfé lífeyrissjóða og að hann hefði mælt mjög gegn því sem fram kemur í 3. gr. þessa frv. og á þann hátt, var hægt að skilja á honum, að það kæmi að hans dómi ekki til greina að taka um 20% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóða á samningssviði Alþýðusambands Íslands og verja því til kaupa á skuldabréfum Byggingarsjóðs ríkisins. Þetta er í samræmi við skoðun þessa hv. þm. í samskiptum við fyrri ríkisstj. og því ekkert óeðlilegt við að hann láti þessa skoðun frá sér fara og veki á henni athygli. En ég spyr hæstv. fjmrh.: Eru fleiri aðilar verkalýðshreyfingarinnar en Eðvarð Sigurðsson á móti því að lögbinda 20% af þessu ráðstöfunarfé? Er það ætlun hæstv. ríkisstj., er það ætlun þessara þriggja stjórnarflokka að lögbinda fimmtung af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna í andstöðu við verkalýðshreyfinguna? Er þetta allt samstarfið og samráðið sem á að hafa? Ég er ekki að leggja efnislegt mat á það, hvort þetta sé rétt eða rangt. Ég legg á það áherslu, að þeir, sem eiga að stjórna fjármálum ríkisins, verða að ráða yfir meginþorra af lánsfénu, til þess að ráða eitthvað við fjárfestinguna og hvað gert er við peningana hverju sinni, sértaklega í landi eins og okkar þar sem mikill lánsfjárskortur er ríkjandi. En fyrrv. ríkisstjórn og fyrrv. ríkisstjórnir fóru ekki þá leið að ráðstafa fjármunum í andstöðu við verkalýðshreyfinguna, því spyr ég: Ætlar þessi ríkisstj. — samráðsríkisstj. við verkalýðshreyfinguna — að brjóta hér blað? Nær þetta tal þá ekki lengra? Er það búið að vera? Hvenær varð þessi stefnubreyting, og hafa allir stjórnarflokkar samþ. þetta? Þetta væri fróðlegt að fá upplýsingar um og skylt að gefa þær upplýsingar.

Mér fannst vera heldur ergilegur tónninn í ræðu hv. 3. þm. Vestf. áðan, og samt gaf hálfbróðir hans í pólitík, Sighvatur Björgvinsson, þá skýringu að ræðan hefði verið samin í síðustu viku, því hann er búinn að vera lengi á mælendaskrá eins og ég, þessi hv. þm. En ef ræðan hefur verið samin í síðustu viku, þá er auðvitað ekkert óeðlilegt við það, að ergelsistónn hafi verið í ræðunni. En hvernig væri tónninn ef hann hefði samið hana í gær? Formaður þingflokks Alþfl. má mjög vel við una að hv. 3. þm. Vestf. flutti gamalsamda ræðu, en ekki nýsamda.

Hv. 3. þm. Vestf. sagði að núv. ríkisstj. hefði hamlað mjög á móti hækkunarbeiðnum. Það var á honum að skilja að það hefði tekist, af því að það hefði verið skelegg ríkisstj. og samhent, eins og öll þjóðin veit, samtaka til allra átaka, að ráða við þróun verðbólgunnar með því að standa gegn hækkunarbeiðnum. Nú vill svo dásamlega vel til að Alþb. eða Alþb.-ráðh. fer með yfirstjórn eins stærsta ríkisfyrirtækisins, Pósts og síma, og ríkisstj. samþ. fyrir nokkru að leyfa hluta af beiðni um hækkun gjaldskrár þessarar stofnunar að koma til framkvæmda. En stofnunin sjálf telur að það vanti 2000 millj. kr. til þess að endar nái saman á þessu ári. Nú er fróðlegt að vita hvort snillingnum Ragnari Arnalds tekst að reka Póst og síma hallalaust, því það er það sem máli skiptir, en ekki að reka fyrirtæki með stórum halla og velta á undan sér skuldabyrði. Það verður mjög eftirtektarvert að sjá og finna þegar líður á árið hvort Ragnari Arnalds tekst að reka Póst og síma hallalaust, þrátt fyrir fullyrðingar forráðamanna þessarar stofnunar. Ef honum tekst að afsanna það sem forvígismenn stofnunarinnar segja, að það vanti 2000 millj., þá hefur hann unnið stórafrek, að reka Póst og síma hallalaust á árinu 1979, og þá getur hv. 3. þm. Vestf. komið hér í ræðustólinn aftur og hælt þessum samflokksmanni sínum fyrir alveg sérstakan rekstur. En um þetta getum við ekki sagt fyrr en komið er að lokum þessa árs, hvort snillingnum, sem nú á sæti í ráðherrastól og fer með samgöngumál, tekst þetta eða ekki. En takist það ekki og verði það ofan á að þetta eitt stærsta ríkisfyrirtæki á landinu verði rekið með umtalsverðum halla, þá er auðvitað hægt að beita þvingunum í garð annarra sem þurfa að mæta auknum útgjöldum, m. a. hækkun launa og víxlhækkunum bæði launa og annarra útgjalda, með því að neita þeim um allar hækkanir. Það er ekkert afrek hjá einni ríkisstj. ef ekki er gert annað en að reka öll fyrirtæki með stórum halla. Á þetta kemur til með að reyna.

Hv. 3. þm. Vestf. sagði að það hefði ekki verið hægt að ráða við verðbólguna nema lækka kaupið, að dómi fyrrv. ríkisstj., og það var gert, en verðbólgan hélt áfram, sagði hann. Já, mikið lækkaði kaupið á tíma fyrrv. ríkisstj.! Kauptaxtar verkamanna hækkuðu á tímabili fyrrv. ríkisstj. um 261.1%, frá því í ágústlok 1974 til 1. júní 1978, og kauptaxtar allra launþega í landinu hækkuðu um 252.7%. Þetta kallar hv. 3. þm. Vestf. að laun hafi lækkað. Hann gæti auðvitað alveg eins sagt að hvítt væri svart og svart væri hvítt, enda munar hann ekkert um það.

Þetta var stefna fyrrv. ríkisstj. Hún var mynduð af tveimur flokkum, Sjálfstfl. og Framsfl. Hefur Framsfl. þá alveg skipt um skoðun? Var hann tekinn svona og algerlega hreinsaður fyrir 1. sept.? Hann taldi fyrir þann tíma að það væri ekki hægt að ráða við verðbólguna nema hafa einhver tök á launamálum og kaupgjaldsmálum í landinu. Hefur hann þá alveg snúið við blaðinu að dómi hv. þm.? Það væri líka fróðlegt að fá að vita.

Þessi hv. þm. vék að skýrslu ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun á þessu ári og taldi — og það réttilega — að þar væri allt of mikill samdráttur í margvíslegum framkvæmdum í atvinnulífinu. Sérstaklega gerði hann að umræðuefni framkvæmdir á sviði sjávarútvegs. Ég hef heyrt suma sérfræðinga á sviði peningamála eða efnahagsmála tala mikið um það á undanförnum árum, hve fjárfesting í sjávarútvegi væri gífurleg og það þyrfti að draga verulega úr þeirri fjárfestingu. Að vissu leyti er hér rétt með farið, að það hefur þurft að draga úr fjárfestingu í sambandi við skipakaup. Hins vegar hafði fyrrv. ríkisstj. þá stefnu að halda áfram skipasmíðum innanlands, og núv. ríkisstj. segist hafa sömu skoðun í þeim efnum, enda ekki annað fært, vegna þess að ef samdráttur yrði þar svo mikill að þyrfti að stöðva rekstur þessara mikilvægu iðngreina, þá mundi það leiða til stórfellds atvinnuleysis, og sömuleiðis er hitt, að þó að skipastóllinn sé talinn af flestum vera nægilega stór nú, þá verða alltaf mikil afföll, gömul skip fara úr notkun og allmörg skip stranda, farast og þess háttar. Það þarf því sífellt að endurnýja þessi mikilvirkustu atvinnutæki okkar Íslendinga. Þess vegna höldum við áfram á þeirri braut. En fyrrv. ríkisstj. dró mjög úr skipasmíðum erlendis og tók í raun og veru fyrir þau hálfu öðru ári áður en hún fór frá völdum.

Hinu er ekki að leyna, að á sama tíma og menn tala um að auka hagræðingu í vinnslu hvers kyns sjávarafla, þá þarf auðvitað að breyta vinnslustöðvum sem fyrir eru og verja miklu fjármagni til þeirra breytinga, en fara ekki í algert bindindi í þessum efnum og strika yfir öll slík framlög. Með þessari skýrslu og þessu frv. er verið að ganga of langt að mínum dómi, sérstaklega þó á sviði sjávarútvegs og sömuleiðis í öðrum atvinnugreinum. Ég er sammála hæstv. ríkisstj. um að það verður að gæta hófs í fjárfestingu, en það má ekki heldur ganga svo langt að það leiði til atvinnuleysis eða verulegs samdráttar.

Það er verið að tala um að það þurfi að gera ráðstafanir til að draga mjög verulega úr sókn fiskiskipaflotans í þorskinn og aðra þá nytjafiska sem eru ýmist fullnýttir eða ofnýttir. En þá þurfum við að fara yfir á nýjar brautir. Nú er sagt við menn: Minnkið sóknina í þorskinn. Aukið sókn í karfa, er sagt við þá sem togveiðiskip eiga og reka, og aukið sóknina í grálúðuna, bæði togveiðiskip og línuskip. Hvernig á að mæta þessu nema með því að skapa þessum vinnslustöðvum skilyrði til að vinna þennan afla? Á mörgum minni stöðum er ekki möguleiki að vinna úr feitum beinum. Það er kippt burt öllu framlagi til að lána í það að koma slíkum verksmiðjum upp eða endurbyggja þær þar sem þær eru ekki fyrir. Það er bara strikað út með einu pennastriki. Hvernig á þá að breyta um og verða við óskum þeirra sem þjóðfélaginu stjórna í þessum efnum? Er verið að því með þessum ráðstöfunum og með því að minnka sífellt við afgreiðslu fjárl. það fjármagn sem á að verja til þess að auka fjölbreytni í veiðum, vinnslu og sölu sjávarafla?

Það var sagt fyrir tveimur árum, að það væri svo mikið af loðnu í sjónum að við mundum ekki á næstu árum geta fullnýtt þá möguleika, sem loðnan hefur að bjóða. Fiskifræðingar töluðu um að það mætti veiða 1–11/2 millj. lesta á ári og það hefur aldrei verið farið upp í nema 820 þús. lestir. En kvótinn var skyndilega lækkaður, kvóti vísindanna, án þess að farið hefði verið í lægri töluna, sem þeir nefndu, hvað þá hærri. Ekki var þar um ofveiði að ræða. Og í vetur hefur veiðum verið háttað þannig, að það hafa verið gefnar yfirlýsingar frá degi til dags. Haldið þið að það sé létt verk að byggja upp fiskveiðiflota og verksmiðjur og selja þessar afurðir eftir því sem gefnar eru út tilskipanir sem eiga að gilda einn og einn dag í einu? Og svo hneigja menn sig í duftið fyrir vísindunum og þakka þeim allt sem þau hafa gefið.

Það hefur ekki staðið á yfirlýsingum sjútvrh. að undanförnu, að hann færi alveg eftir vísindunum. En nú er komið langt fram úr seinna markinu, og sagt var í fréttunum í dag, að nú ætlaði rn. að taka ákvörðun í dag, sennilega í kvöld eða undir miðnætti, en hins vegar væri ekki búið að fiska upp í tiltekna samninga. Kannske rn. sé að bíða eftir því að fiska upp í tiltekna samninga, frysta loðnu og hrogn. Svo kemur auðvitað að því, að loðnuveiðarnar fjara út þegar kemur fram í þennan mánuð, eins og hefur gerst á undanförnum árum, og þá þarf auðvitað enga tilskipun að gefa því þá hætta menn þessum veiðum. Og loðnan, sem er komin að hrygningu og er ekki drepin, hrygnir og deyr síðan, að því að sagt er.

Við afgreiðslu fjárl. og í fjárlagafrv, var reiknað með að Byggðasjóður tæki lán á árinu 1979 upp á 1480 millj., eða jafnvirði þeirrar upphæðar í erlendri mynt, til þess að standa undir fjármagnsútgjöldum vegna byggðalína. Þessi útgjöld voru fyrir hendi, fjármagn til að fjármagna byggðalínur. Þær voru ekki innan Framkvæmdastofnunar eða innan Byggðasjóðs. En hæstv. fjmrh., sem var framkvæmdastjóri Framkvæmdastofnunar ríkisins, minnkar, um leið og hann verður ráðh., ráðstöfunarfé þessarar gömlu stofnunar sinnar um þessa upphæð og fær henni jafnframt þetta verðuga verkefni sem áður var í fjmrn., að annast greiðslu afborgana og vaxta af lánum vegna byggðalína.

Framsfl. hélt því lengi fram að hann væri hinn eini sanni og rétti byggðaflokkur í landinu. Og á fyrstu árunum sem ég átti sæti hér á þingi fluttu framsóknarmenn undir forustu Gísla heitins Guðmundssonar frv. um að 2% af útgjöldum ríkissjóðs skyldi varið til byggðamála. Viðreisnarstjórnin, sem þá sat að völdum, féllst aldrei á þetta. Það var ekki fyrr en síðasta ríkisstj.ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar - var mynduð að þessi ákvæði voru tekin upp. Ég sá það mjög víða haft eftir talsmönnum Framsfl., að þeir hefðu knúið Sjálfstfl. til þess að fallast á að lögbinda þetta framlag. Nú vil ég segja það til þess að fyrirbyggja allan misskilning, þó að það kannske hryggi einhverja framsóknarmenn, að innan Sjálfstfl, eru ekki minni byggðamenn en innan Framsfl., og þess vegna var það ekki deilumál á milli áhugamanna um byggðamál í báðum þessum flokkum að vinna að framgangi mála með þessum hætti. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar, að framlagið til byggðamála eigi ekki að vera framlag um aldur og ævi til einhverra ákveðinna byggða í landinu, heldur til allra byggða landsins, eftir því sem aðstæður eru hverju sinni og þörf krefur. Það getur verið byggðavandamál á þessu ári norður í landi, en næsta ár aftur hér á Suðurlandi — eða öfugt. Við sjálfstæðismenn töldum því ekki að það ætti að staðsetja þessi framlög í ákveðnum byggðum eða ákveðnum landsfjórðungum. Og mér skildist á talsmönnum Alþfl. og Alþb. fyrir kosningarnar í sumar að vandamálin væru svo gífurlega mörg og aðkallandi að það þyrfti óhemjumikið fjármagn til að lækna og græða þau sár sem voru víða í landinu: En hvernig er svo að því staðið? Það hefur verið staðið að því að græða þessi sár með því að spara lyf og alla meðferð þessara sjúklinga, með því að skera niður stórkostlega þessi framlög. Hvar er nú byggðaáhugi Framsfl. í dag? Datt hann niður við það að mynda ríkisstj. með krötum og kommum? Dó hann með myndun þessarar ríkisstj.? Af hverju á þá að guma næst þegar verður ferðast um landið vítt og breitt, því einhvern tíma kemur að því að það verði kosið, þó að það hafi náðst samkomulag að sinni.

Mér finnst furðulegt í þessu frv., hvað nærri er gengið atvinnumálasjóðunum og hve hæstv. fjmrh. ætlar að nota sér það að takmarka hér við ákveðnar upphæðir, eins og t. d. framlag ríkissjóðs til Byggingarsjóðs. Það hlýtur að leiða af sér að 90% af tekjum af launaskatti fari ekki allar til Byggingarsjóðs, heldur fari verulegur hluti til ríkissjóðs. Ég hefði gaman af því, að hæstv. fjmrh. segði frá því hér á eftir í þessum umr. hvað hann telur að ríkið fái mikið í aðra hönd vegna þessarar stýfingar til þessara sjóða, hvað ríkið spari sér í sumum tilfellum og hvað ríkið hrifsi aftur til sín af tekjum sem ákveðnir sjóðir eiga að fá, eins og t. d. Byggingarsjóður. Hér er loppa afturhaldsins að verki. Það er ekki frjálslynd vinstri stjórn sem ræður ríkjum í þessu landi. Hér er svartnætti afturhaldsins sem er að brjóta niður framfarir í landinu, sem er að stefna að því að samdráttur verði í öllum höfuðatvinnugreinum í þessu landi. Svo kenna þeir sig við frjálslyndi og vinstri stefnu, þessir kónar! (Gripið fram í: Þetta er ný viðreisn.) Þetta er ný viðreisn, já. Það var nú öðruvísi viðreisn sem kratarnir tóku þátt í en þessi vinstri viðreisn.

Í skýrslu ríkisstj. segir um byggðalínur: Ráðgerð er 2207 millj. kr. lántaka vegna byggðalína. Er það nokkru hærri fjárhæð en í fjárlagafrv. og fjárl. Veigamesta verkefni ársins 1979 er bygging Vesturlínu og renna til þeirrar framkvæmdar alls 1549 millj. kr. Miðað er við að Vesturlína verði tengd samveitusvæði Mjólkárvirkjunar á árinu 1980, og er Rafmagnsveitum ríkisins heimilað að panta efni á árinu 1979 vegna framkvæmda 1980 svo að það verði unnt.

Fyrir þremur árum var ég staddur á fundi Fjórðungssambands Vestfirðinga á Klúku í Bjarnarfirði í Strandarsýslu, og þá talaði þáv. og enn verandi hv. 2. þm. Vestf. af miklum áhuga um Vesturlínu. Hann var stjórnarþm. þá og er stjórnarþm. líka nú og auk þess ráðh. En honum tókst ekki, þrátt fyrir mikinn áhuga, að ná því að Vesturlína yrði byggð þá á næsta ári, eins og hann orðaði það. En Vesturlínan var tekin inn í lánsfjáráætlunina 1978. (Gripið fram í.) Hún var tekin inn áður en lánsfjáráætlunin var lögð fram, og lánsfjáráætlun var lögð fram af þáv. stjórn, hv. þm., áður en fjárl. voru afgreidd, þar sem sú stjórn taldi heilaga skyldu sína að láta Alþ. sjá bæði lánsfjáráætlun og fjárlagafrv. samtímis eða áður en fjárlagafrv. væri afgreitt. Og þá var ætlunin að ljúka Vesturlínu á tveimur árum, sem sagt á helmingi lengri tíma en hæstv. núv. landbrh. taldi fært fyrir þremur árum að gera. En hvað gerist svo nú þegar hann er kominn í ríkisstj.? Þá liggur ekkert á þessari Vesturlínu. Og það verður ekki séð af þeim tölum, sem hér eru, að nokkur áfangi náist sem kemur að gagni.

Hv. 3. þm. Vestf. sagði áðan að það væri brýn nauðsyn að hraða byggðalínum vegna þess mikla aðstöðumunar sem er hjá fólki sem býr á hitaveitusvæðum og hefur næga raforku og víða annars staðar. Hann nefndi lítillega það ástand sem nú er í sambandi við olíuverðið. Olíuverðið fer upp úr öllu valdi. Aðstöðumunurinn hjá fólki, bæði í þessum landshluta og öðrum þeim byggðum sem þurfa að nota olíu til upphitunar, fer stórvaxandi og þess vegna hefði maður haldið að hæstv. ríkisstj. gerði stórátak til þess að hraða framkvæmd sem þessari. En á meðan byggðalínan til Norðurlands var í fullumgangi og þurfti að fjármagna hana, þá fannst 2. þm. Vestf., núv. landbrh., enginn hlutur sjálfsagðari en að gera þetta allt í einu og á sama ári. En nú virðist verið farið að dofna yfir karli. Kannske færist aukið fjör í hann eftir skíðaferðina til Austurríkis?

Nei, það er ekki að sjá á því, sem hér liggur fyrir, að hæstv, ríkisstj. ætli að bregðast myndarlega við þeim vanda sem fram undan er vegna hinnar miklu olíuhækkunar sem við blasir. Það er töluvert annað en gert var í byrjun síðasta kjörtímabils. Mér finnst Framsfl. hafa farið kollhnís á þessum skamma tíma og komið illa niður. Í sambandi við það sem ég nefndi áðan varðandi aukin verkefni Byggðasjóðs með því að taka afborganir og vexti af byggðalínum og lækka framlög sem því nemur, þá get ég alveg tekið undir það, og vil vera fullkomlega sanngjarn við hæstv. ríkisstj., að það hefði þurft að draga úr framlögum til Byggðasjóðs undir þeim erfiðu kringumstæðum sem nú eru. En þá hefði mér fundist það vera heiðarlegra og eðlilegra að breyta lögunum og lækka það tekjuhlutfall sem er nú í gildi. Mér finnst líka ákaflega óviðeigandi þegar stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins eða meiri hl. þeirrar stjórnar gerir samþykkt þess efnis fyrir áramót, að stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins fari þess á leit við hæstv. ríkisstj. að hún endurskoði ákvörðun sína um skerðingu á ráðstöfunarfé Byggðasjóðs árið 1979, svo sem fram hafði þá komið í frv. til fjárl. fyrir þetta ár. Stjórnin tekur fram að hún telji að svo mikill niðurskurður á ráðstöfunarfé sjóðsins muni verða honum alvarlegur fjötur um fót að sinna nauðsynlegri fyrirgreiðslu til eflingar atvinnuvegunum í landinu. Og þá vill stjórn Framkvæmdastofnunar vekja athygli á 32. gr. laga þeirrar stofnunar þar sem lántökuheimild Byggðasjóðs er takmörkuð við lántöku að hámarki 600 millj. kr. á ári, en skv. frv. til fjárlaga er sjóðnum ætlað að taka lán að fjárhæð 1130 millj. kr. Þetta var skýrt undir umr. fjárl. En síðan segir í þessari samþykkt:

„Stjórnin fer enn fremur fram á það við hæstv. ríkisstj., að hún endurskoði þá áætlun sína að skerða framlag sitt til Byggðasjóðs á þessu ári um 75 millj. Slíkur niðurskurður svo seint á ári gerir sjóðnum erfitt um vik að standa við skuldbindingar sínar.“

Mér finnst ekki nema eðlilegt og sjálfsagt, þegar slík tilmæli koma frá einni stofnun, að ríkisstj. svari þeim tilmælum formlega, en svar hefur ekki borist við þessu. Og haldið er áfram í þessum dúr. Ég spyr hæstv. fjmrh. enn þá einu sinni: Finnst honum ekki sem fyrrv. framkvæmdastjóra Framkvæmdastofnunar ríkisins verkefni Byggðasjóðsins vera æðimörg fram undan? Telur hann ekki vera of langt gengið að skera framlögin með þessum hætti svona geigvænlega niður, þó að við getum orðið sammála um að skera framlög eitthvað niður?

Hv. 3. þm. Vestf. sagði, og það alveg rétt, að hann hefði áhyggjur af því að skera svo niður framlög til atvinnumála, en þó væri framför í framlögum til sjávarútvegs frá því sem verið hefur. En hann gerði ekkert meira til að rökstyðja það að hér væri um framför að ræða. Ég vil mjög eindregið mælast til við þennan hv, þm. að hann sanni þessi orð sín. Hér er ekki um framfarir að ræða. Ef við tökum það fjármagn allt sem á að fara t. d. til Fiskveiðasjóðs og til annarra þeirra sjóða og stofnana sem lána til sjávarútvegs og tökum tillit til verðlags á þessu ári, þá er hér um stórfellda skerðingu að ræða.

Hæstv. sjútvrh. sagði hér fyrir nokkrum dögum í umr. um aðgerðir vegna verðs á olíu til fiskiskipa og niðurskurð á framlagi til Fiskveiðasjóðs af tekjum af útflutningsgjaldi, að fjmrh. hefði heitið því að framlag ríkissjóðs yrði ekki skorið niður til jafns við niðurskurðinn á útflutningsgjaldinu. Ég efast ekkert um að þessi yfirlýsing sjútvrh. er rétt, en ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann telji að það þurfi ekki að breyta lögum um Fiskveiðasjóð, um tekjur af útflutningsgjaldi, til samræmis við þessa yfirlýsingu sem sjútvrh. gaf fyrir sína hönd og fjmrh. í þessum umr.

Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að hafa hér miklu fleiri orð. En ég vil að lokum segja það, að ég tel að sú stefna, sem er innsigluð með þessari skýrslu og þessu fjárlagafrv., sé geigvænleg samdráttarleið fyrir atvinnureksturinn í landinu og þá sérstaklega fyrir útflutningsatvinnuvegina. Það á ekki að vera kappsmál stjórnvalda að ganga svo langt í að takmarka nauðsynleg framlög til atvinnulífsins að það geti leitt af sér stöðvun og samdrátt og uppsagnir fólks í atvinnurekstrinum, sem ég, því miður, er hræddur um ef farið verður að öllu eftir þessu frv. og þessum áformum og því sem lofað er að komi á eftir.