19.03.1979
Efri deild: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3325 í B-deild Alþingistíðinda. (2607)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Sjútvrh. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, á sér þó nokkurn aðdraganda. Í desembermánuði s. l. setti Alþfl. fram hugmyndir sínar um þetta efni í frv.-formi, um leið og hann knúði á um að slíkt frv. yrði flutt. Fyrirliggjandi frv. er þannig skilgetið afkvæmi frv. Alþfl. og framtaks Alþfl. frá því í desembermánuði s. l. og í því frv., sem hér er til umr., er að finna flest þau atriði sem fram voru sett í frv. Alþfl. frá þessum tíma. En menn kunna að spyrja: Hvers vegna hefur Alþfl. lagt slíkt kapp á að flutt yrði frv. um efnahagsstefnu og efnahagsstjórn? Svarið er einfalt. Til þess að árangur náist þarf samræmt átak á mörgum sviðum efnahagslífsins. Þessi sjónarmið Alþfl. hafa nú hlotið stuðning með flutningi fyrirliggjandi frv.

Auðvitað er þetta frv. málamiðlun milli ýmissa skoðana og ekki að öllu leyti eins og Alþfl. hefði helst kosið, en í því er þó að finna merka stefnumótun. Alþfl. hefur því lýst yfir stuðningi við frv. eins og það liggur fyrir, enda hefur verið um það fjallað í helstu stofnunum flokksins, svo sem flokksstjórn, þingflokki og verkalýðsmálaráði.

Undanfarin ár og missiri hafa einkennst af linnulausum umr. um efnahagsmál. Látlaust er talað um að koma verðbólgunni niður eða stemma stigu við verðbólgunni. Látlaust er talað um að draga úr erlendri skuldasöfnun. En árangurinn hefur látið á sér standa. Þegar markmiðin eru rædd eru allir sammála, en þegar kemur að framkvæmdinni hefur samstaðan reynst minni, bæði milli flokka og úti í þjóðfélaginu, og á meðan bíða framfaramálin.

Þegar menn skoða frv. það, sem hér er til umr., held ég að menn eigi að skoða það í ljósi þessarar linnulausu umr. og hvernig hafi til tekist á undanförnum árum. Hvernig tókst t. d. til hjá seinustu ríkisstj.? Hefur hún mikið til að guma af? Á stjórnartímabili hennar var verðbólgan á bilinu 32-53% á ári hverju. En hvað hefur þá verið að? Jú, að menn hafa ekki sameinast um að beita þeim tækjum, sem nauðsynleg eru, með samræmdum hætti og talið um markmið eins og að draga úr verðbólgu og erlendri skuldasöfnun hefur því reynst marklítið. Og enn er verðbólgan geigvænleg. Sumir græða á henni, en aðrir tapa og þeir tapa mest sem verst eru settir og ekki hafa aðgang að bankakerfinu og alls konar fyrirgreiðslum.

Menn benda á að þetta frv. sé að ýmsu leyti sérstætt og það er rétt. Þetta frv. er í sjálfu sér einstætt. Það er einstætt vegna þess að þau viðfangsefni, sem við er að fást, eru geigvænleg. Það er einstætt vegna þess að aldrei áður hefur verið gerð tilraun til þess að taka á efnahagsmálunum með þessum hætti. Við kunnum því vel, Alþfl. menn, að þannig sé um þetta frv. rætt rétt eins og sagt var um frv. okkar frá því í des., því að við lifum á einstæðum tímum og við meiri óvissu og erfiðari aðstæður en oftast áður. Gömlu aðferðirnar hafa ekki dugað. Þess vegna er þörf nýrra aðferða. Þetta frv. vísar til réttrar áttar.

Ég mun ekki fjalla um alla þætti frv., en vil minna á nokkra þeirra. Þar er að finna atriði sem varða bætta hagstjórn, eins og það að fjárlög og lánsfjáráætlun skuli lögð fram samtímis og afgreidd samtímis á grundvelli þjóðhagsáætlunar. Það er einmitt misræmi í þessum efnum og skortur á heildaryfirsýn sem hefur orðið til þess að fjárlög ríkisins og lánsfjáráætlun hafa ekki orðið þau stjórntæki sem þau geta verið og nauðsynlegt er að þau séu. Fjárl. hafa togað í norður og lánsfjáráætlun í suður, og hin þjóðfélagslegu markmið, atvinnan, verðlagsþróunin og erlend skuldasöfnun, hafa þá gleymst. Þær forsendur, sem fyrir hendi eru í þjóðarbúskapnum, hafa svo legið á milli hluta. Þessar aðferðir hafa leitt til ófarnaðar. Þær eru stjórnleysið uppmálað.

Í II. kafla frv. er fjallað um samskipti stjórnvalda við samtök launafólks, sjómanna, bænda og atvinnurekenda. Með því er ætlað að tryggja að samráð geti verið á milli þessara mikilvægu heildarsamtaka og ríkisvaldsins. Í frv. er enn fremur að finna takmörkun á niðurgreiðslum og markmið sem eru sett fram til þess að draga úr niðurgreiðslum í áföngum. Þessi ákvæði eru mikilvæg, af því að ótæpilegar niðurgreiðslur skekkja verðmyndunina og framleiðsluna til lengri tíma litið og þær bjóða heim misnotkun eins og dæmin sanna.

Þá eru í frv. ákvæði sem varða takmörkun á ríkisumsvifum, þannig að heildartekjur og heildargjöld ríkisins skuli ekki fara yfir 30% af vergum þjóðartekjum. Þetta er beinlínis trygging gegn ótæpilegri skattlagningu. Í frv. eru ákvæði um að draga úr peningamagni í umferð, um að koma á raunvöxtum í áföngum á næstu tveimur árum og um verðtryggingu sparifjár og útlána. Þá er gert ráð fyrir uppskurði á sjóðakerfinu og bundnum framlögum ríkisins. Í frv. er fjallað um vinnumarkaðsmál sem feli í sér upplýsingamiðlun til þess að auðvelda yfirsýn yfir vinnumarkaðinn. Þá eru líka kaflar um launastefnu og þar með verðbætur á laun, verðlagsmál, atvinnuvegaáætlanir og jöfnunarsjóði sjávarútvegsins.

Þeir, sem halda því fram, að þetta frv. fjalli einungis um verðbætur á laun, fara vissulega villir vegar. Mörg merkustu ákvæði frv. eru einmitt um önnur efni. Ég tek það í fyrsta lagi, að sett skuli fram tiltekin töluleg markmið, tiltekin viðmiðunaratriði til þess að miða stjórn efnahagsmála við á næstu árum. Þau markmið eru auðvitað sett án þess að atvinnu sé stefnt í hættu, enda beinlínis tilgangurinn að treysta atvinnuöryggið í bráð og lengd. Ég vísa algerlega á bug öllum fullyrðingum um að stefnt sé að atvinnuleysi. En verðbólgan og stjórnleysið getur hins vegar lagt atvinnuvegina í rúst. Ég tek það líka sem stefnumarkandi atriði, tímamótaatriði, að koma skuli á jákvæðum raunvöxtum í áföngum. Ég tel það líka til tímamótaatriða að upp skuli tekið ákvæði um að ná heildarendurskoðun á sjóðakerfinu og taka viðjar hinna bundnu framlaga ríkisins til endurskoðunar. Allt eru þetta baráttumál. Alþfl., og ég ítreka það enn og aftur, að þeir, sem einskorða umr. sínar við verðlags- og launamál og gera því skóna að það sé meginefni frv., renna enn skeið hinnar gömlu steinrunnu og ófrjóu umræðu um efnahagsmál sem hefur haldið þjóðinni og stjórnmálunum í viðjum á undanförnum árum. Út úr því eigum við að brjótast.

Lítum nánar á nokkur þessara atriða.

Við Alþfl.-menn höfum barist fyrir því að upp verði teknir jákvæðir raunvextir jafnframt því sem greiðslubyrðin yrði lækkuð á lánum og henni dreift yfir lengri tíma. En hvers vegna höfum við barist fyrir þessu máli? Jú, vegna þess að þá peninga, sem menn fá að láni, eiga menn að greiða til baka í sömu verðmætum og þegar þeir fengu þá að láni. Annars er hreinlega um skuld að ræða. Og þeir, sem eiga sparifé, eiga að fá eðlilega ávöxtun af því. Annars er frá þeim stolið.

En fleira kemur til. Ef á að stjórna fjárfestingunni verða vextir að vera jákvæðir, annars brestur kerfið og skömmtunarvald bankastjóra og sjóðsstjórna verður yfirgnæfandi. Fjárfestingin leitar ekki þangað sem hún skilar mestum afrakstri í þjóðarbúið, mestu til vinnandi handa, heldur leitar hún til þeirra sem eiga gott samband við bankastjóra og sjóðsstjóra. Hinir jákvæðu raunvextir fela því í sér margþætta bragarbót eða í fáum orðum sagt: betri fjárfestingarstjórn og aukið réttlæti.

Talsmenn Sjálfstfl. hafa tjáð sig bæði með og móti þessu ákvæði og í rauninni flúið í það skjól að segja sem svo, að bankarnir skuli ákveða stefnuna fyrir Sjálfstfl. Við Alþfl.-menn höfum háð harða rimmu við aðra flokka um þetta mál. Þeir, sem berjast gegn þessu máli, vilja áframhaldandi spillingu, vilja áframhaldandi óstjórn.

Þá er í frv. ákvæði um að halda peningamagninu í skefjum. Óheft seðlaprentun, sem ekkert stendur á bak við, kyndir undir verðbólguna og hún getur einungis endað með því að erlend skuldasöfnun aukist.

Lítum svo á ákvæðið um uppskurð á sjóðakerfinu. Tilgangur þess er tvíþættur. Annars vegar á það að vera til að samræma lánskjörin milli sjóðanna, en eins og nú er ræður happa- og glappaaðferðin því, hvers konar kjör eru á lánum. Í öðru lagi þarf að breyta útlánareglum sjóðanna þannig að lánsfé fari til þeirra hluta sem skila þjóðfélaginu áleiðis til heftra mannlífs, fari í þjóðhagslega arðbæra fjárfestingu og félagslegar framfarir. Er t. d. nokkurt vit í því að lánsfé til gaddavírsgirðinga skuli vera með niðurgreiddum kjörum á sama tíma og lánsfé til uppbyggingar við fiskvinnslu skuli vera með ströngum kjörum, eða lán til jarðakaupa skuli vera með niðurgreiddum kjörum, en lán til uppbyggingar í iðnaði skuli vera með þungum kjörum? Uppskurðurinn á hinum bundnu framlögum ríkisins er ekki síður mikilvægur.

Mörg þessara framlaga eru samkv. lögum sem sett voru fyrir löngu. Markmiðið með þeim á sínum tíma kann að hafa verið góðra gjalda vert, en þjóðfélagið hefur breyst og við þurfum að stefna að annars konar uppbyggingu en átti við þá.

Ég nefni t. d. jarðræktarframlög. Er nokkurt vit í því að bundin skuli ákveðin framlög til jarðræktar á sama tíma og vitað er að um offramleiðslu er að ræða á landbúnaðarvörum, sem leiðir til þess að alþýða þessa lands verður að greiða með útflutningi á þessum sömu landbúnaðarafurðum? Eins og þjóðfélagsuppbyggingin er núna er greinilega óviturlegt og óhagkvæmt að ýta með þessum hætti undir enn frekari offramleiðslu. Sama gildir t. d. um framlög til framræslu samkv. jarðræktarlögum. Útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir hafa verið greiddar eftir sjálfvirku kerfi, þannig að almenningur í landinu er skattlagður til að greiða með útflutningi á þeim. Þetta ákvæði þarf greinilega endurskoðunar við.

Það hefur verið snúið út úr þeim ákvæðum frv., sem lúta að hinum bundnu framlögum og endurskoðun þeirra, og látið sem svo, að endurskoðunarákvæðin þýddu í öllum tilfellum að ekkert fé færi til þeirra verkefna sem hér um ræðir. Þetta er hið argasta öfugmæli. Engum hefur t. d. dottið í hug að hætt yrði að tryggja fé til Byggingarsjóðs ríkisins, og allra síst hefur það verið í hugum Alþfl.-manna. En það er meginatriði, að sjóðakerfi þetta og framlög verði tekin til endurskoðunar í ljósi þess, að þjóðfélagið hefur breyst síðan lögin um hin margvíslegu framlög voru sett, og til þess að auka hagstjórn. Einmitt þess vegna höfum við talað fyrir því, að þau skuli ákveða í sem ríkustum mæli í fjárl. hverju sinni. Sjálfvirkni framlaga og útlána án tillits til arðsemi er verðbólguhvetjandi og dregur úr lífskjarabótum.

XI. kafli frv. fjallar um jöfnunarsjóði sjávarútvegsins, annars vegar um Verðjöfnunarsjóð og hins vegar Aflatryggingasjóð. Varðandi Verðjöfnunarsjóðinn eru gerðar tvær breytingar. Gert er ráð fyrir að ákvörðun um verðgrundvöll liggi fyrir áður en Verðlagsráð sjávarútvegsins fjallar um fiskverð, og í annan stað er ákvæði um að við ákvörðun þessa skuli það meginsjónarmið ríkja að líta á markaðsaðstæður, en ekki horft beinlínis á afkomu fiskvinnslunnar, heldur einungis að svo miklu leyti sem það samrýmist tilgangi sjóðsins og raunverulegri verðjöfnun. Með þessu móti er ætlunin að girða fyrir misnotkun á sjóðshugmyndinni, en eins og kunnugt er hafa ákvarðanir oft verið af því tagi að sjóðurinn væri rekinn sem eins konar styrktarsjóður eða millifærslusjóður úr ríkissjóði, og er skemmst að minnast þess ástands sem ríkti í þessum efnum á s. l. sumri.

Breytingar á lögum um Aflatryggingasjóð snúa einungis að almennum reglum um bótarétt, en á vegum sjútvrn. er nú unnið að endurskoðun á starfsemi Aflatryggingasjóðs í heild. Tilgangur Aflatryggingasjóðs og hlutverk er að tryggja afkomu sjómanna og útgerðar þegar aflabrest ber að höndum. Segja má að þær breytingar, sem hér eru settar fram, feli það í sér að taka ekki einungis tillit til aflabrests af náttúrlegum orsökum, heldur einnig aflabrests sem rakinn verður til manna og er af manna völdum. Þannig eru ákvæði um bætur til skips og áhafnar, þegar nauðsynlegt er talið að minnka sókn til verndar mikilvægum nytjafiskstofnum, og um að taka sérstakt tillit til langvarandi og staðbundins aflaleysis, er stafar af breytingum á fiskgengd. Með þessu er í reynd aukið svigrúm til aðgerða í fiskveiðimálum sem brýn þörf er á um þessar mundir. Af sama toga eru ákvæði um endurskoðun á lögum sjóðsins með það fyrir augum að sjóðurinn gegni hlutverki sínu sem best við þær aðstæður að beina þurfi sókn úr ofnýttum stofnum í vannýtta stofna, og gert ráð fyrir lagasetningu til að heimila að bæta upp verð á vannýttum tegundum og leggja sérstakt gjald á ofnýttar fisktegundir. Í því felast líka auknir möguleikar til fiskveiðistjórnar.

Einn kafli frv. fjallar um launamál og um hann hefur verið meira rætt en alla aðra. Launamálastefna er þó ótvírætt hluti af efnahagsstefnu, hvað sem tautar og raular. Allir flokkar, allar ríkisstjórnir hafa með einum eða öðrum hætti haft afskipti af launamálum, þrátt fyrir allt tal um annað. Sé um sekt að ræða í þessum efnum, þá er hún því sameiginleg.

Talsmenn Alþb. hafa nú á seinustu dögum gert mikinn hávaða út af þessum kafla sem ráðh. flokksins tóku þó þátt í að ganga frá fyrir rúmri viku. Offors Alþb.-mannanna verður einungis skýrt með ástandinu innan þeirra eigin flokks. Allir skynsamir menn vita auðvitað að þegar dregið er úr verðbólgu dregur úr peningalaunahækkunum. En það er ekki peningafjöldinn í umslaginu sem skiptir máli, heldur hvað fæst fyrir peningana. Það má ekki blanda saman kjörum og peningalaunum, eins og hæstv. menntmrh. gerði áðan og nefndi ýmsar prósentur í því sambandi.

Við höfum dæmin fyrir augunum. Á s. l. ári hækkuðu peningalaun um 55%, en kaupmátturinn jókst aðeins um fáein prósentustig, eða álíka og þjóðartekjur. Menn eru engu bættari með hækkun peningalauna sem jafnharðan er aftur tekin í verðbólgunni. Menn eru m. a. s. verr settir, því að peningarnir nýtast verr, menn vita ekki hvað hlutirnir kosta og eyðslan verður skipulagslaus. Þess vegna er það kjarabót í reynd að draga úr verðbólgunni, og það er kaupmáttur launanna sem gildir. Með frv., eins og það er, er unnt að auka lítillega kaupmátt launa á árinu 1979 frá árinu 1978 eða — ef menn vilja heldur nota þá viðmiðun — að viðhalda svipuðum kaupmætti og laun höfðu í febrúarmánuði s. l.

Við Alþfl.-menn höfum lagt sérstaka áherslu á þetta kaupmáttarmarkmið jafnframt markmiðinu um verðbólguhömlur. Það slaknar á peningalaunahækkunum, en yfir árið í heild næst með þessu móti að auka kaupmáttinn lítillega, eða um nálægt 1%, sem er sömu stærðar og áætlaður vöxtur þjóðartekna. Og reyndin hefur verið sú, að á undanförnum árum hefur kaupmáttaraukningin verið nálægt vexti þjóðarteknanna. Það hefur verið útkoman á endanum. Tölur, sem fara fram úr því sem í frv. felst, eru eintómur vindur. Þær þýða einungis örari verðbólgu, örara gengissig eða gengisfellingar og aukna skuldasöfnun erlendis, hvað sem endalausum prósentureikningi líður. Þeir, sem tala fyrir hærri tölum, eru því að tala fyrir aukinni verðbólgu. Kaupið verður ekki búið til úr engu. Sé stefnt að hærri tölum stefna menn um leið að verðminni krónum. Sé stefnt að hærri tölum er verið að stefna að aukinni skuldasöfnun erlendis og rýrari lífskjörum í framtíðinni. Það er auðvelt að líta einungis einn mánuð eða tvo fram á veginn. En í því er fólgin argasta blekking sem hefnir sín þegar til lengdar lætur. Atvinnuvegir og atvinnuöryggi standa tæpt þegar verðbólgan geysist áfram með ógnarhraða. Hvert spor, sem stigið er til að draga úr verðbólgunni, treystir atvinnuöryggið og stefnir að réttlátara þjóðfélagi.

Fyrirliggjandi frv. er byggt á samkomulagi, sem gert var í ríkisstj. næstsíðasta laugardag. Þetta samkomulag var líka t. d. staðfest af einni aðalmálpípu Alþb., Ólafi Ragnari Grímssyni, í viðtali við Vísi s. l. mánudag, eða fyrir réttri viku. Í því viðtali er hvergi minnst á ósamkomulag, þar er hvergi minnst á fyrirvara. Þeim mun einkennilegra er því nú á seinustu dögum að hlusta á hið hótunarfulla tal um endalausa fyrirvara frá Alþb.-ráðh. Samkomulag breytist í mótmæli og mótmæli síðan í margfalda afturvirka fyrirvara og hótanir, og atburðarásin er svo skýrð að nýju eins og gert var áðan.

Sjálfstfl. segir hins vegar að flokkarnir, sem lofuðu samningana í gildi, séu nú sífellt að fikta við samningana. Alþfl. tekur þetta ekki til sín. Við bentum á það í kosningastefnuskrá okkar, að það kostaði átak að komast út úr verðbólgunni og það kostaði byrðar. En meðal annarra orða: Hver stóð að og gerði þessa samninga? Það var fyrrv. ríkisstj., ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. Og hverjir afskræmdu þessa sömu samninga sem þeir sjálfstæðismenn virðast bera svo mikla umhyggju fyrir núna? Það var ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. Fyrst gera þeir samninga, svo svíkja þeir samninga og afskræma, en núna þykjast þeir bera sérstaka umhyggju fyrir þessum samningum og tala nú um frjálsa kjarasamninga. Ég spyr: Verða þeir eftir sama mynstri og á ferli seinustu ríkisstj.?

Herra forseti. Alþfl. styður þetta frv. og framlagningu þess. Hann hefði gjarnan kosið að frv. væri snarpara vopn í efnahagsstjórn og í viðureign við verðbólguna. En frv. er byggt á samkomulagi sem flokkurinn vill standa við, og aðrir flokkar eiga að gera slíkt hið sama. Hótunartali öllu vísum við til föðurhúsanna.