19.03.1979
Efri deild: 70. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3333 í B-deild Alþingistíðinda. (2609)

230. mál, stjórn efnahagsmála o.fl.

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér hefur verið lagt fyrir Alþingi, er mikilsverður sigur fyrir Alþfl. Alþfl. hafði forgöngu um frv.-smíð af þessu tagi og lagði frv. sitt fram í desembermánuði s. l., eins og menn minnast. Frv. það, sem hér er til umr., tekur mjög mið af frv. Alþfl. og er mjög svipað í allri uppbyggingu. Alþfl. þakkar kosningasigur sinn frá síðasta ári fyrst og fremst því að hann lagði aðaláhersluna á baráttuna gegn verðbólgunni og lagði þá fram raunhæfar tillögur til lausnar á þeim vanda. Þetta kosningaloforð hefur Alþfl. tekið mjög alvarlega í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Mörgum finnst að hann hafi tekið þetta einum of alvarlega, en þm. Alþfl. og Alþfl. hafa haldið uppi látlausum áróðri fyrir því að lagður yrði hornsteinn að ráðstöfunum sem sýndu varanlegan árangur í baráttunni við verðbólguna, og þetta frv. er árangur af þeirri baráttu, þótt vissulega sé margt í því sem betur mætti fara að mati Alþfl.-manna. Þó hefur Alþfl. lýst yfir að hann styðji þetta frv.

Þess ber að geta, að ríkisstj. hefur náð verulegum árangri í baráttunni gegn verðbólgunni. Þegar ríkisstj. tók við 1. sept. s. l. var verðbólgan 52%, en nú er hún um það bil 35%. Hins vegar ber að geta þess, að margt er í farvatninu, hækkanir ýmsar, svo og þær olíuverðshækkanir sem átt hafa sér stað undanfarið. En eitt mikilsverðasta atriðið í þessu frv. er það, að byltingarástandið í Íran eigi ekki að valda því að kaup hækki á Íslandi. Þó er gert ráð fyrir mjög verulegum hliðarráðstöfunum út af olíuverðshækkuninni til að létta byrði þeirra sem hita hús með olíu.

Mig langar í nokkrum orðum að drepa á ýmsa þætti þessa frv.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að hagstjórn verði aukin til mikilla muna. Þetta eru langtímaráðstafanir og kostir þessara áætlana, sem lagðar eru fram í frv., koma ekki fram fyrr en eftir 1–2 ár, þannig að sú ríkisstj., sem þá situr, mun uppskera það sem nú er verið að sá. Það er ekkert vafamál, að þau atriði í frv., sem lúta að almennri hagstjórn, munu verða mikilsverð tæki við stjórn efnahagsmála í framtíðinni.

Veigamikið atriði í frv. er uppskurðurinn á sjóðakerfinu sem kallaður er svo. Fjárlög íslenska ríkisins eru með þeim ósköpum gerð, að Alþ. og fjárveitingavaldið hefur mjög lítið svigrúm til að ráðstafa tekjum ríkisins, þar sem mjög mikill hluti af ríkisútgjöldum er bundið í sérstökum lögum til einstakra sjóða. Í frv. er gert ráð fyrir gagngerri endurskoðun á þessu kerfi með það fyrir augum að fella niður þessi bundnu framlög, svo að fjárveitingavaldið geti ákveðið á hverjum tíma framlög til sjóða eftir því sem samrýmist almennri efnahagsstefnu.

Einn veigamesti kafli frv. fjallar um verðtryggingu inn- og útlána. Flestir vita að rýrnun sparifjár í landinu hefur verið með eindæmum síðustu ár. Þetta hefur valdið mjög miklum samdrætti í sparnaði, sem er raunar ekkert skrýtið þar sem fólk vill frekar fjárfesta fyrir fjármuni sína heldur en brenna þá upp á verðbólgubálinu, þar sem enn hefur ekki verið boðin viðeigandi ávöxtun sparifjár. Meginhugsun þessa frv. er sú, að innlán verði verðtryggð svo og útlán með fullri verðtryggingu og lágum vöxtum. Er þá fyrst og fremst miðað við lán til fjárfestingar. Þetta er stefnuatriði, sem Alþfl. hefur lagt mjög mikla áherslu á frá því í kosningabaráttunni á síðasta ári og í störfum sínum hér á Alþ. Það er ekkert vafamál að það mun reynast mjög drjúgt tæki í baráttunni gegn verðbólgunni ef þessi kafli frv. verður framkvæmdur eins og þar er gert ráð fyrir. Jafnframt er gert ráð fyrir því í frv., að aukningu peningamagns í umferð verði ákveðin takmörk sett, en verðbólga undanfarinna ára hefur því miður oft verið fjármögnuð með prentun seðla sem lítið eða ekkert stendur á bak við.

Það er vissulega ánægjulegt fyrir Alþfl. að þetta stefnuatriði hans er nú komið inn í þetta frv. og samkomulag hefur náðst um þessa stefnu innan ríkisstj., enda er þetta einn af þeim köflum í frv. sem ekki er umdeildur milli stjórnarflokkanna. Vert er þó að geta þess, að samkomulag náðist í ríkisstj. á laugardaginn fyrir 9 dögum um alla kafla þessa frv., sbr, yfirlýsingar forvígismanna Alþb. í blöðum um þær mundir, þótt ráðh. Alþb. neiti nú að standa við það samkomulag. En það er innanflokksmál Alþb. sem það verður sjálft að ráða fram úr.

Það má vissulega segja að nú er einungis einn kafli frv. sem er umdeildur milli hinna þriggja stjórnarflokka, og það er vísitölukaflinn. En vert er að geta þess, að allir hinir kaflarnir, ellefu að tölu, lúta einnig að mjög mikilvægum atriðum í hagstjórninni.

Meginstefna frv. hvað varðar launamál er að viðhalda kaupmætti og auka hann aðeins, en ekki láta peningalaunahækkanir, sem ekkert stendur á bak við, slá ryki í augu sér, eins og reynt hefur verið að gera á undanförnum dögum af ákveðnum aðilum í þjóðfélaginu.

Í þessu frv., sem hér er til umr., er lítið fjallað um skattamál, enda hefur ekki gefist tími til að taka öll atriði efnahagsmála inn í þetta frv. Fólk á vafalaust eftir að undrast það mikið, þegar það fær skattseðlana sína í vor, hve skattarnir hafa hækkað mikið. Þessir hærri skattar eru ekki vegna þess að einhver skattpíning eigi sér stað, heldur er aðalástæðan sú að tekjur hækkuðu mjög mikið á milli áranna 1977 og 1978 eða um rúmlega 50%. Því verða skattar mun hærri í krónutölu í vor þó að hlutfallslega sé skattbyrðin mjög svipuð. Þó hafa skattar verið lækkaðir ívið á lægri tekjum, en hækkaðir á þeim hærri. Því viðbótarfjármagni, sem kemur í skattlagningu, hefur verið varið að langmestu leyti til niðurgreiðslna sem koma launþegum vel. Jafnframt hefur skattaeftirlit verið hert í tíð núv. stjórnar og mátti lesa í blöðunum fyrir nokkru að hópur skattaeftirlitsmanna hefði verið ráðinn, og er það liður í stefnu þessarar ríkisstjórnar.

Alþfl. hefur lagt mikla áherslu á skattamál í málflutningi sínum og ekki fengið öllu því framgengt sem hann vildi. En aðaláherslan hefur verið lögð á hert skatteftirlit til að fyrirbyggja skattsvik. Ríkisstj. hefur gert þessa stefnu að sinni, enda er hér ekki um að ræða einkastefnu Alþfl. Unnið er að því að endurskoða þau skattalög sem sett voru í tíð fyrrv. stjórnar. En eins og hefur komið fram í máli hæstv. forsrh. á öðrum vettvangi er um að ræða mjög mikla vankanta á þeim lögum sem ástæða er til að breyta og nú þegar er unnið að.

Þess má geta í sambandi við stefnu ríkisstj., að menn hafa e. t. v. ekki veitt því athygli, að gengi íslensku krónunnar gagnvart dollar hefur haldist mjög stöðugt það sem af er árinu. Vissulega eru blikur á lofti hvað varðar olíuverðshækkanir. Í því sambandi er rétt að geta þeirrar farsælu lausnar við ákvörðun fiskverðs nú nýverið, þegar tekið var tillit til fyrstu hækkunar á olíu. Er þar mótuð stefna sem hægt er að fylgja í framtíðinni, þ. e. að taka olíuverðshækkanir út úr skiptaverði.

Frv. þetta, sem forsrh. hefur nú lagt fram á Alþ., ber merki mikilla samráða. Það hefur verið haft samráð við öll helstu hagsmunasamtök vinnumarkaðarins og borist hafa neikvæðar umsagnir frá vinnuveitendum og mjög sterkar aths. við einn kafla frv. frá launþegum. Nú er það svo, að samráð þýðir ekki það að taka eigi valdið af Alþ. Það eru alþm. sem eru kjörnir til að stjórna þessu landi, og alla vega ætla þm. Alþfl. ekki að láta segja sér fyrir verkum hvað varðar störf þeirra hér á þingi. Hins vegar erum við fúsir eins og aðrir þm. að hlusta á aths. við störf okkar eða við frv. sem við erum að fjalla um og taka tillit til þeirra aths., ef okkur sýnist svo.

Þess má geta varðandi þetta frv., að því hefur verið breytt í veigamiklum atriðum frá því að það var lagt fram í ríkisstj. 12. febr. s. l. Miðað við frv.-drög frá því um miðjan febr. hefði verðbólgan á árinu 1979 orðið innan við 30%, en nú má reikna með að þessi tala verði 33–34%. Óbreytt ástand, eins og manni virðist að sumir vilji, þýðir yfir 40% verðbólgu á þessu ári. Ljóst er að Alþfl. mun ekki taka þátt í því að verðbólgan fari svo upp. Þetta frv. er því merki um samráð og samvinnu og er hornsteinn að góðu efnahagslífi hér á næstu árum. Því væntum við þess, að þetta frv. fái fljóta afgreiðslu hér á þingi. Alþfl. mun stuðla að hraðri meðferð þessa máls.