20.03.1979
Sameinað þing: 71. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 3439 í B-deild Alþingistíðinda. (2684)

163. mál, rannsókn á innsiglingaleiðinni í Höfn

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Sverri Hermannssyni, að brýna nauðsyn ber til þess að gera rannsókn og úttekt á innsiglingunni til Hornafjarðar.

Það var rétt fyrir jólin, þegar eitt af skipum Eimskipafélags Íslands strandaði í innsiglingunni í Hornafirði, að þessi mál komust í brennidepil. Fjölmiðlar fylgdust náið með því, hvernig málum var háttað og hvernig mál þróuðust, og umr. hófust um hvað til úrbóta kynni að verða.

Ég ætla ekki að deila um það núna, heldur e. t. v. seinna við tækifæri, hvernig við fyrsta vanda var brugðist. Til þess að bjarga, ef við getum orðað það svo, loðnuvertíðinni og vetrarvertíðinni var fengið skip til þess að hefja dýpkunarframkvæmdir í vetur, og látið var í skína að þetta dýpkunarskip ætti að ráða fram úr vandanum til frambúðar. Það hefði verið betur ef till. á borð við þá, sem hv. þm. Sverrir Hermannsson kemur fram með núna, hefði verið samþykkt áður en út í það ævintýri var farið, vegna þess að eftir því sem mér skilst hefur árangurinn af þessum dýpkunartilraunum verið harla lítill. Eyða verður líklega sama fjármagni og kannske langtum meira til þess að hefja dýpkunarframkvæmdir aftur og til þess að gera höfnina til frambúðar þannig að um innsiglinguna geti siglt skip af flestum þeim stærðum sem byggðarlagið gerir kröfur til.

Það er einnig furðulegt, þegar þessi mál eru skoðuð, að ekki var leitað til Vita- og hafnamálastofnunarinnar varðandi þau tæki sem sú stofnun býr yfir, þegar um dýpkun á þessari höfn var að ræða, eða a. m. k. var sú leið ekki athuguð, en eftir því sem næst verður komist var hlaupið til þess að ráða til verksins dýpkunartæki í einkaeign á meðan Vita- og hafnamálastofnunin býr yfir fljótvirkum ágætistækjum, sem vinna þessi verk og hafa unnið víða um land. Samt skal það tekið fram, að þannig stóð á að eitt af tækjum stofnunarinnar, Hákur, hafði þá nokkru áður lent í óhappi þannig að hann var ekki strax fær til verksins, en þetta leiddi kannske til þess að horft var til þess að hann þyrfti að endurbæta, og vona ég að til þess verks verði gengið nú alveg á næstunni:

Eigi að síður held ég að þessi till., sem hv. þm. Sverrir Hermannsson kom fram með, sé tímabær og hefði mátt koma fram fyrr. Ég styð það heils hugar, að hún nái fram að ganga, og síðast en ekki síst hitt, að það verði nú staðið að málum þarna í ósnum til frambúðar þannig að til heilla megi horfa í stað þess að hlaupið sé til einhverra tilraunaframkvæmda sem lítinn eða engan árangur koma til með að bera.