01.11.1978
Neðri deild: 10. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

53. mál, verðjöfnunargjald af sauðfjárafurðum

Dómsmrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal koma að nokkrum þeim atriðum sem komið hafa fram.

Í fyrsta lagi spurði hv. 2. þm. Norðurl. v. að því, hvort bættur yrði sá halli, sem hann nefndi svo, sem yrði á þessu verðlagsári hjá bændum. Um þetta hefur engin ákvörðun verið tekin. Ég vil aðeins lýsa þeirri persónulegu skoðun minni, að þetta verður að taka upp í tengslum við langtímastefnu í landbúnaði, og þá er spurningin, að hverju menn treysta sér til að stefna á ákveðnum árafjölda í framleiðslu umfram innanlandsþarfir, þannig að eitthvað gæti dregið úr útflutningsbótaþörf á síðari hluta slíks tímabils. En eins og ég sagði í upphafi hefur engin ákvörðun verið tekin um þetta.

Þá spurði hv. þm. hvort ákvörðun ríkisstj. lægi fyrir um breytingar á framleiðsluráðslögunum. Ég skýrði frá því áðan, að ég er að láta vinna að tillögum til flutnings og mun leggja þær fyrir ríkisstj. þegar þær eru tilbúnar. Hins vegar hefur álit n. að sjálfsögðu verið afhent ráðh. Ég lýsti því jafnframt áðan, að í samstarfsyfirlýsingu ríkisstj. kemur greinilega fram að stefna eigi að því að framleiðslan sé sem næst fyrir innanlandsþörfum, og aðrar tillögur um aðgerðir til að ná því markmiði liggja ekki fyrir að svo stöddu. Hins vegar hef ég undirstrikað að hér er um bráðabirgðatillögur að ræða sem þarf að fella inn í þá langtímastefnu sem vonandi verður ákveðin á þessum vetri, þannig að ég gefi alls ekki ráð fyrir öðru en ríkisstj. fallist á að þetta mál verði flutt.

Hv. þm. ræddi nokkuð um aðstoð við bændur umfram lögbundna aðstoð sem fellur undir þetta sama, og þarf ég raunar ekki að hafa mörg fleiri orð um það. Ég vil hins vegar taka undir það með hv. þm., að það verður tvímælalaust erfiður umskiptatími að draga úr framleiðslunni svo að viðunandi verði talið. Margir hafa lagt í mikla fjárfestingu, fjármagnskostnaður er mikill og við samdrátt á framleiðslu verður hann ekki borinn af þeirri framleiðslu sem gert var ráð fyrir að sjálfsögðu, svo að mér er ljóst að leita verður leiða til að aðstoða bændur við að komast yfir þennan þröskuld.

Hv. þm. ræddi um að ríkisstj. hefði fundið upp heillaráð eða a.m.k. ráð til að bæta tekjur bænda með því að bæta fyrningum við tekjurnar. Ég hef aldrei heyrt því lýst áður, að tekjur bænda séu þar með taldar meiri, en eins og hv. þm. er kunnugt var ákveðið í brbl. þeim, sem eru til meðferðar á þinginu þessa dagana, að skattleggja einstaklingsrekstur sem fyrirtæki, og féll hann þar með undir 10. gr. þeirra laga, en þar er ákveðið að við tekjur skuli bætt fyrningum og hvort tveggja skattlagt. Ég hygg að það sé það sem hv. þm. á við. En ég leyfi mér að fullyrða að þetta breytir í engu launamati bænda, t.d. í 6 manna nefnd, og fleira þess háttar, enda tel ég að hv. þm. sé það fyllilega ljóst. Um þessa skattlagningu að öðru leyti vil ég vísa til þess sem hv. síðasti ræðumaður sagði, 4. þm. Norðurl. v. Ég get tekið undir það með honum, að þarna varð framkvæmdin nokkuð önnur en við höfðum gert ráð fyrir, og það þarf að sjálfsögðu að athuga. En þetta á við miklu fleiri en bændur. Þetta á við alla sem eru með einstaklingsbundinn rekstur. Þetta á við útgerðarmenn, leigubílstjóra, vörubílstjóra, lækna, lögfræðinga og marga aðra. Og það er sannarlega álitamál hvernig á að skattleggja slíkt. Sýnist mér sjálfsagt að það sé athugað í meðferð þingsins.

Ég get getið þess til upplýsingar, að sá skattur, sem bændur greiða samtals og fellur undir 10. gr., mun vera um 140 millj. kr. Það er vissulega álag á bændur. Hins vegar hygg ég, eins og kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni og reyndar fleirum, að mjög hafi verið gengið til móts við bændur með endurgreiðslu á verðjöfnunargjaldinu, sem hér er fyrst og fremst til umr., og reyndar einnig með samningum 6 manna nefndar nú í byrjun september. Ég hygg að með þeim samningum hafi laun bænda verið lagfærð gagnvart viðmiðunarstéttunum um u.þ.b. 7–8% þannig að þar hefur einnig orðið veruleg bót fyrir bændur.

Ég tek að lokum undir það, sem hv. þm. sagði, og undirstrika það, að nauðsynlegt er svigrúm í öllum þessum aðgerðum. Þetta er, eins og ég sagði í framsöguræðu minni, ekki mál sem afgreitt verður í flýti og síst af öllu kemur fram árangur af slíkri stefnumörkun í flýti. Þetta tekur allt sinn tíma.

Hv. 1. þm. Reykv. lagði fyrir mig spurningu um söluþóknun af kostnaðarverði landbúnaðarafurða. Ég ætla að þiggja boð hans að svara þessu nánar við 2. umr., en vil aðeins segja það á þessu stigi, að að sjálfsögðu hafa þeir, sem flutt hafa út landbúnaðarafurðir, fengið þóknun fyrir starf sitt eins og gengur og gerist. Það er þá spurningin, hvort hundraðshlutinn er ákveðinn hár eða lágur og þá af hvaða viðmiðunartölum. En ég vil aðeins segja það á þessu stigi, að markaðsnefnd sú, sem fyrrv. landbrh. setti á fót, hefur tekið þessi mál miklu fastari tökum en áður var, og ég vil til að fara örugglega með rétt mál afla upplýsinga frá þeirri markaðsnefnd áður en ég svara þessari spurningu ítarlega.

Hv. 4. þm. Vestf. flutti ítarlegt mál um landbúnaðarstefnuna og landbúnaðinn almennt. Ég get verið honum sammála um flest atriði sem hann drap á. Fyrst og fremst undirstrikaði hann það, að vandamálið er stórt, og það var það sama sem ég gerði í minni framsöguræðu. Hins vegar hygg ég að of mikið sé gert úr því, að landbúnaðarstefnan hafi verið röng um ár eða áratugi. Landbúnaðarstefnuna má kannske rekja til afurðasölulaganna frá 1936 og annarrar löggjafar sem fylgt hefur í kjölfarið. Satt að segja sýnist mér að landbúnaðarstefnan, sem þannig hefur verið smám saman mörkuð, hafi verið eðlileg miðað við aðstæður á þeim tíma. En ég hygg að fremur megi gagnrýna að ekki hefur verið ráðist í endurskoðun á slíkri stefnu á allra síðustu árum.

Ég tel alls ekki óeðlilegt að einhverju fjármagni sé varið til útflutningsbóta. Menn verða að líta á það, að útflutningsbætur eru raunar ekkert annað en leið þjóðfélagsins til að bæta tekjur bænda og leið þjóðfélagsins til þess að tryggja bændum þau laun sem þeim eru ætluð samkv. lögum. Þetta má vitanlega gera á ýmsan annan máta, t.d. með því að hækka laun á innanlandsmarkaði og fá þannig meira inn á launalið verðlagsgrundvallarins. En þessi leið var talin eðlileg, enda ákaflega erfitt, ef ég má orða það svo, að hitta naglann nákvæmlega á höfuðið með framleiðslumagn, því eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. v. verða gjarnan sveiflur á þessari framleiðslu af völdum veðurfars og af öðrum aðstæðum. Ég fyrir mitt leyti tel eðlilegt að heldur sé rúmt um en þröngt. Hv. þm. gagnrýndi það nokkuð, að útflutningsbætur væru miðaðar við heildarframleiðsluverðmæti landbúnaðarafurða til bænda. Þarna er fyrst og fremst, eins og ég hef sagt, um ákvörðun að ræða, hvernig á að bæta laun bænda. Vel getur komið til greina að miða þetta við minni hluta landbúnaðarafurða. Ég get vel fallist á að það sé athugað. En spurningin er náttúrlega hver sé sú krónuupphæð, sem þjóðfélagið er reiðubúið að verja til þessara mála.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm., að útflutningsbætur hafa ekki farið fram úr 10% markinu nema sjaldan, en þær hafa oft jaðrað við það, en sérstaklega hafa þær farið fram úr nú tvö síðustu árin en mér virðist að fyrst og fremst tvö síðustu árin hafi sú stefna, sem fylgt hefur verið, brugðist.

Hv. þm. spurði að því, hvort fóðurbætisskatti yrði bætt við búvöruverð. Ég lít svo á, að ef fóðurbætisskattur rennur til bændasamtakanna sjálfra og er greiddur aftur út til bænda, þá verði honum ekki bætt við búvöruverð. Ef hins vegar fóðurbætisskattur rennur í ríkissjóð, þá er um annað að ræða í því sambandi.

Ég veit að bændum þykir vænt um að heyra að hv. Alþfl.-menn hafa engan hug á því að ganga af bændastéttinni dauðri. Ég vil hins vegar segja það, að þegar við tölum um þessi mál öll og um að draga úr þeirri framleiðslu sem nú fæst ekki seld á viðunandi verði á erlendum markaði, þá verðum við einnig að hafa í huga, hvernig við náum launamarkmiðum fyrir bændastéttina. Um leið og við gerum till. um samdrátt verðum við að gæta að þessu, og þetta finnst mér stundum skorta í þeirri umr. sem verið hefur um landbúnaðarmálin. Ég er ekki að væna neinn hv. þm. um það, að hann vilji ekki að bændur fái eðlileg laun eins og aðrir launþegar, ef við köllum þá það í þjóðfélaginu, eða aðrir einstaklingar í þjóðfélaginu. En spurningin er: Hvernig verður þessu náð? Niðurstaða mín er sú, að þetta verði að gerast með samræmdri stefnu á breiðu sviði, eins og ég lýsti í framsöguræðu minni.