01.11.1978
Neðri deild: 10. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í B-deild Alþingistíðinda. (283)

53. mál, verðjöfnunargjald af sauðfjárafurðum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vil segja það við hv. 1. þm. Reykv., að ég misskildi alls ekki spurningu hans. Ég var bara alls ekki að svara henni. En hann var líka að tala um allt annað. Hann var að tala um milliliðina. (Gripið fram í.) Það var það sem ég var að taka fram. Ég er ekki að svara fyrir landbrh., ég ræddi bara um milliliðina. (AG: Þm. beindi orðum sínum til 1. þm. Reykv.) Já, já, út af orðum hv. þm., því að hann var líka að tala um það.

Út af því, sem hv. þm. Árni Gunnarsson sagði hér áðan, þá er þetta alveg rétt og allir vita hvernig þessi mál standa. Þetta er ekkert nýtt, eins og ég gat um í ræðu minni, að það þurfi að flytja út verulegt magn af kindakjöti. En hvað það verður þykir mér undarlegt ef hægt er að fullyrða á meðan ekki eru komnar einu sinni heildarskýrslur um það magn, sem hefur borist í haust, og alls ekki skýrslur um sölu sem hefur orðið á þessu hausti. Það kann að vera, að þessar tölur reynist allar réttar, en ég tek þær ekki trúanlegar alveg fyrirvaralaust.

Það er eiginlega dálítið gaman að velta því fyrir sér, hvernig þetta var hjá okkur á síðustu öld, Íslendingum. Þá snerist baráttan um það að fæða þjóðina og klæða, — en nú, hvað er vandamálið nú? Að við framleiðum of mikinn mat í sveltandi heimi. Þetta hljómar hálffalskt, að svona skuli það vera.